• Öllbörn

Vegna barna á flótta sem koma hingað til lands

Samiginleg yfirlýsing frá UNICEF á Íslandi og Rauða krossinum á Íslandi 

27. október 2016

Börn sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi eiga sömu mannréttindi og öll önnur börn hér á landi. Þau mannréttindi hafa þó ítrekað verið brotin. Það er óásættanlegt.

 

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að berjast fyrir mannréttindum allra barna: Barna sem alin eru upp hér á landi, barna sem í neyð sinni leita til Íslands og barna sem búa við hörmungar erlendis. Eitt útilokar ekki annað og mun aldrei gera.

 

Með því að hjálpa til erlendis og hérlendis, á sama tíma – og með því að koma mannúðlega fram við þau börn og ungmenni sem leita eftir vernd á Íslandi – sýnum við í verki að við virðum mannréttindi. Börn heimsins eiga skýlausan rétt sem okkur ber að tryggja.

 

Stjórnvöld lögfestu Barnasáttmálann árið 2013 og gildir hann því sem lög á Íslandi. Í ljósi viðkvæmrar stöðu þeirra barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi og þeirrar skyldu sem Barnasáttmálinn leggur á stjórnvöld, gera UNICEF á Íslandi og Rauði krossinn á Íslandi kröfu um að stjórnvöld uppfylli mannréttindi þessara barna og tryggi neðangreinda þætti.

 

Fylgdarlaus börn sem sækja um vernd

 

- Móta verður skýra stefnu og verkferla um það hvað gerist þegar fylgdarlaust barn kemur til landsins og hvað tekur við.

 

- Sama barnaverndarnefndin skal hafa umsjón með öllum fylgdarlausum börnum, óháð því hvar þau gefa sig fram.

Byggja þarf upp reynslu meðal starfsfólks og safna þekkingu á einn stað til þess að tryggja sem besta umönnun og að börnum sé ekki mismunað eftir því í hvaða sveitarfélagi þau sækja um alþjóðlega vernd.

 

- Börnum skal tryggður tilsjónarmaður um leið og þau koma til landsins.

Tilsjónarmanneskjan þarf í samstarfi við barnavernd, sveitarfélög og stjórnvöld að tryggja að húsnæðismál barnanna séu í lagi, þau hafi aðgengi að menntun, þau fái læknisþjónustu, sálrænan stuðning, geti leikið sér, eigi klæðnað og annað sem börnum er nauðsynlegt og þau eiga rétt á.

 

- Ekki skal hýsa fylgdarlaus börn með fullorðnum.

Samkvæmt nýjum útlendingalögum sem taka gildi um áramót má vista börn sem eru 15 ára og eldri með fullorðnum. Þetta er óásættanlegt. Nauðsynlegt er að tryggja vernd barnanna en fylgdarlaus börn í hælisleit eru sérstaklega berskjölduð gagnvart hvers konar misnotkun og mansali.

 

- Koma þarf á fót sérstöku húsnæðisúrræði.

Börn og ungmenni sem sækja um alþjóðlega vernd eru í afar viðkvæmri stöðu og taka þarf tillit til sérstakra aðstæðna þeirra. Einnig þarf að halda áfram stuðningi við börn eftir að þau verða 18 ára gömul og tryggja öryggi þeirra. Til að svo megi verða þarf að koma á fót sérstöku húsnæðisúrræði fyrir fylgdarlaus börn og unga hælisleitendur sem orðnir eru eldri en 18 ára. Með þeim þarf að vera sérstakur starfsmaður. Einnig þarf að halda áfram að undirbúa fósturfjölskyldur, líkt og gert hefur verið.

- Meðan mál barnanna er í ferli þarf að sjá til þess að þau séu í skóla og taki þátt í uppbyggjandi félagsstarfi.

Börnum sem eru 16 ára og eldri skal samkvæmt lögum boðin skólavist.

- Hætta skal að notast við tanngreiningar við aldursgreiningu barna.

Nota þarf heildstætt mat við aldursgreiningu barna.

- Börn skulu ávallt njóta vafans.

Þetta á við hvort sem er vegna aldursgreiningar, frásagnar þeirra eða annað. Ef vafi leikur til dæmis á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé 17 eða 18 ára skal viðkomandi njóta vafans.

Mikilvægt er að hafa í huga að hér á landi eru ekki mörg fylgdarlaus börn sem hafa óskað eftir alþjóðlegri vernd og íslensk stjórnvöld ættu því að geta sinnt þeim vel.

 

Börn sem sækja um vernd á Íslandi með fjölskyldu sinni


Til Íslands koma mörg börn í hælisleit með fjölskyldum sínum. UNICEF á Íslandi og Rauði krossinn á Íslandi undirstrika mikilvægi þess að aðstæður þessara barna skuli jafnframt kannaðar sérstaklega og formleg viðtöl tekin við börn, sem hafa til þess aldur og þroska, í hælismeðferð en ekki einungis foreldra þeirra. Ekki er hægt að meta hvað barni er raunverulega fyrir bestu nema barn hafi fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á eigin forsendum.

Tryggja verður börnum og fjölskyldum þeirra fullnægjandi húsnæði og sjá til þess að börnin fari í skóla sem allra fyrst við komuna til landsins. Auk þess að tryggja menntun þeirra þarf að sjá til þess að þau hafi eitthvað fyrir stafni meðan þau bíða þess að vita hver afdrif þeirra verða. Börn skulu enn fremur hafa aðgang að leiksvæði þar sem þau búa meðan mál þeirra er í ferli. Sem dæmi er ekkert leiksvæði í Bæjarhrauni í Hafnarfirði, þar sem margar fjölskyldur dvelja – hvorki innan- né utanhúss. Húsið er staðsett í iðnaðarhverfi.

Kerfið þarf enn fremur að geta tekið tillit til sérstakra aðstæðna sem upp geta komið. Þetta á til dæmis við þegar mál barna hafa dregist hér á landi, þau hafa fest rætur eða eru fædd hér á landi. Einnig þarf að sjá til þess að fjölskyldusameining gangi greiðlega. Fjölskyldur eiga að geta verið saman og tryggja þarf að svo megi vera.

Allir þeir þættir sem raktir eru hér að ofan eiga einnig við um fylgdarlaus börn.

Öll börn


Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er útbreiddasti mannréttindasamningur í heimi og tryggir börnum víðtæk réttindi. Ein helsta forsenda sáttmálans er að börnum skuli ekki mismunað með nokkrum hætti og þeim skuli tryggt jafnræði. Enn fremur skulu stjórnvöld ávallt taka mið af því sem börnum er fyrir bestu þegar ákvarðanir eru teknar er þau varðar.

 

Barnasáttmálinn tryggir öllum börnum sömu grundvallarmannréttindi, hvort sem þau hafa íslenskan ríkisborgararétt, eru í fríi á landinu eða hafa sótt hér um alþjóðlega vernd.