Vegna fréttaflutnings af sjúkrabílum

13. september 2018

Í tilefni af fréttatilkynningu velferðarráðuneytisins 11. september vill Rauði krossinn koma eftirfarandi á framfæri:

Rauði krossinn hefur annast rekstur sjúkrabíla á Íslandi í yfir 90 ár, þar af samkvæmt sérstökum samningi við ríkið sl. tuttugu ár. Í upphafi voru félagar Rauða krossins að bregðast við brýnni þörf fyrir sjúkraflutninga í byggðum landsins. Markmið Rauða krossins er að tryggja öruggan búnað til sjúkraflutninga um land allt, en mönnun er á forræði slökkviliða og heilbrigðisstofnana. Rauði krossinn hefur ætíð gætt hagkvæmni í rekstrinum og stofnaði sérstaka rekstrareiningu, Sjúkrabílasjóð, árið 1998 þegar ríkið kom fyrst að rekstri sjúkrabíla í landinu. Sjóðurinn er í eigu Rauða krossins, en alveg aðgreindur frá öðrum rekstri félagsins. Í upphafi lagði Rauði krossinn mikil verðmæti inn í sjóðinn, m.a. um 70 sjúkrabíla og tilheyrandi búnað. Á samningstímanum hefur félagið lagt mikla fjármuni til reksturs sjúkrabíla, eignarhald þeirra er samkvæmt samningi á hendi Rauða krossins, ríkið greiðir framlag til rekstursins auk þess sem notendur greiða fyrir sjúkraflutninga.

Haustið 2016, að afloknu 18 mánaða samningaferli höfðu ríkið og Rauði krossinn komið sér efnislega saman um nýjan samning byggðan á óbreyttum forsendum, þar sem gert var ráð fyrir árlegri fjárfestingu í sjúkrabílum og búnaði árin 2016-2020. Þá setti velferðarráðuneytið óvænt og einhliða fram þá kröfu að eignarhald sjúkrabílanna skyldi færast til ríkisins, án skýringa og án viðræðna um uppgjör við Rauða krossinn. Nú tveimur árum síðar liggur ekki enn fyrir hver tekur við verkefninu eða hvernig standa skuli að uppgjöri vegna loka samningsins. Vegna ágreinings um eignarhald nýrra sjúkrabíla og skorts á fjárfestingarheimildum hefur Rauði krossinn ekki getað endurnýjað sjúkrabíla eins og til stóð og nauðsynlegt hefði verið. Viðhald bíla og búnaðar er þó áfram með hefðbundnum hætti.

Rauði krossinn vill halda rekstri sjúkrabíla áfram, en heilbrigðisráðherra tók ákvörðun um að færa reksturinn frá félaginu og yfir til ríkisins. Sá samningur sem unnið hefur verið eftir sl. tuttugu ár inniheldur ekki ákvæði um hvernig standa skuli að slitum samstarfsins. Aðilar vinna nú í sameiningu að uppgjöri.

Rauði krossinn gerir eftirfarandi athugasemdir við fréttatilkynningu velferðarráðuneytisins:

  • Tafir á nýfjárfestingum í sjúkrabílum: Núgildandi samningur og fjárfestingarheimildir náðu til ársloka 2015 og frá þeim tíma hefur Rauði krossinn ekki haft heimild til að fjárfesta í nýjum bílum.
  • Eignarhald sjúkrabíla: Enginn ágreiningur hefur verið uppi um eignarhald sjúkrabíla. Skýrt er kveðið á um það í núgildandi samningi að Rauði krossinn sé eigandi bílanna.
  • Framlag til bílakaupa: Ranglega er fullyrt að ríkið hafi staðið straum af kaupum sjúkrabíla. Hið rétta er að framlag ríkisins fer til reksturs Sjúkrabílasjóðs og allar rekstrartekjur hans, þ.m.t. framlög frá Rauða krossinum og notendum, fara til annars vegar rekstrar sjúkrabílaflotans og hins vegar fjárfestinga í bílum og búnaði. Ríkið getur ekki slegið eign sinni á fjármuni Rauða krossins því skýrt er kveðið á um það í samningum að Rauði krossinn sé eigandi bílanna.
  • Frestun á útboði: Ráðuneytið fullyrðir að ákvörðun um frestun á útboði sjúkrabíla megi rekja til Rauða krossins. Hið rétta er að ekki lágu fyrir fjárheimildir til kaupanna þar sem að ráðuneytið gekk ranglega út frá þeirri forsendu varðandi fjármögnun útboðsins að fjármunir í eigu Rauða krossins yrðu nýttir til að greiða fyrir bíla sem ríkið hugðist kaupa.

Rauði krossinn hefur sinnt rekstri sjúkrabíla af alúð og ráðdeild í 92 ár og getur með stolti litið yfir farinn veg.