• Timthumb

Vestmannaeyjadeild Rauða krossins 75 ára

3. mars 2016

Vestmannaeyjadeild Rauða krossins verður 75 ára þann 23. mars. Þessara tímamóta verður minnst með ýmsum hætti á afmælisárinu.

Á afmælisdeginum mun deildin taka formlega á móti neyðarkerru, sem er með öllum þeim búnaði sem þarf til að virkja fjöldahjálparstöð, en kerran var keypt með miklum og góðum stuðningi Neyðarmiðstöðvar og verkefnasjóðs Rauða krossins. Mun kerran verða geymd í húsakynnum ISAVIA á Vestmannaeyjaflugvelli.

Í haust er svo stefnt að því að minnast tímamótanna með því að halda sérstakan hátíðardag þar sem boðið verður til afmælisfagnaðar með öllu tilheyrandi. Þá er hafinn undirbúningur að gerð veglegs afmælisrits þar sem farið verður yfir sögu félagsins og verkefni deildarinnar. Hermann Einarsson, fyrrum formaður deildarinnar, mun aðstoða við að taka saman sögu deildarinnar og er stefnt er að því að það rit komi út á þessum hátíðardegi deildarinnar í haust.

Á aðalfundi deildarinnar, sem haldinn var 29. febrúar s.l., var vel mætt að venju. Að loknum fundi var upphafi afmælisárs fagnað með því að bjóða upp á veglega afmælistertu með kaffinu.