• _SOS8734

Fjöldahjálparstöðvar opnaðar vegna veðurs

5. febrúar 2016

Rauði krossinn í Barðastrandasýslu opnaði fjöldahjálparstöð í gær þegar rýma þurfti 6 hús á reit 4 á Patreksfirði. Lögreglan kallaði út deildina sem brást við og mættu sjálfboðaliðar í Fosshótel á Patreksfirði þar sem 18 manns mættu til skráningar. 5 manns gistu á hótelinu í nótt og 13 manns fóru til ættingja og vina.

Enn er snjóflóðahætta á Patreksfirði og er Snjóflóðasetur Veðurstöfunnar á vaktinni. Helga Gísladóttir formaður deildarinnar sagði að allt hefði gengið vel, fólk er yfirvegað við svona aðstæður enda þekkt snjóflóðahætta á staðnum og Veðurstofan búin að vara við vondu veðri.

Vegna ófærðar opnaði Rauði krossinn í Húnavatnssýslu fjöldahjálparstöð í Víðihlíð upp úr klukkan 10 í gærkvöldi. Þangað komu ferðamenn sem voru fastir bæði á Holtavörðuheiðinni og á láglendi en komust að Víðihlíð með aðstoð björgunarsveitarfólks. Gist var í Dæli.

Opnuð var fjöldahjálparstöð á Kjalarnesi seinni partinn í gær þegar ófærð skapaðist og bílar komust ekki leiðar sinnar.