• Rsz_img_3678

Viljayfirlýsing um samfélagsverkefni

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Árni Gunnarsson formaður Rauða krossins í Reykjavík undirrituðu viljayfirlýsinguna.

26. apríl 2018

Í gær, þann 25. apríl, undirrituðu Árni Gunnarsson, formaður Rauða krossins í Reykjavík, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur viljayfirlýsingu um þróun og framkvæmd samfélagsverkefna í Breiðholti. 

Af þessu tilefni komu saman starfsfólk Reykjavíkur, Rauða krossins í Reykjavík og sjálfboðaliðar í verkefnum okkar við verslun Rauða krossins í Mjódd. Undanfarið ár hefur Reykjavíkurdeildin lagt áherslu á að byggja upp sjálfboðaverkefni sem bæði gagnast íbúum hverfisins og virkjar sjálfboðaliða þar.

Rsz_img_3685

 Meðal verkefna sem deildin rekur í hverfinu er mánaðarlegur skiptifatamarkaður með barnaföt, fréttaverkefnið "Hvað er helst í fréttum?" þar sem sjálfboðaliðar fara yfir fréttir vikunnar með innflytjendum sem vilja þjálfa íslenskukunnáttu sína og vikulegir spilahópar þar sem ungmenni í hættu á félagslegri einangrun spila hlutverkaspil undir stjórn sjálfboðaliða í verkefninu “Studd í Spuna”.

Með undirritun viljayfirlýsingarinnar er samstarfið formfest og grundvöllur frekari samstarfsverkefna tryggður. Reykjavíkurborg, veitir verkefnunum og starfsfólki Rauða krossins aðstöðu í húsnæði sínu endurgjaldslaust, og á starfsfólk Rauða krossins samstarf við borgina um þróun og framkvæmd verkefnanna. Vonir eru bundnar við að með þessu samstarfi megi skapa enn frjóari jarðveg sjálfboðaverkefna sem gagnist nærsamfélaginu í hverfinu.