• Birna-RK

Vill gera heiminn að betri stað

Fræðist um flóttamannamál í Búdapest

18. ágúst 2016

Birna Pétursdóttir, sjálfboðaliði Eyjafjarðardeildar, verður fulltrúi Rauða krossins á Íslandi á vikulöngu námskeiði í Búdapest í Ungverjalandi um hlutverk óbreyttra borgara og sjálfboðaliða gagnvart flóttafólki (Active Citizenship in the Refugee Crisis).

Námskeiðið er haldið af EFIL (European Federation for Intercultural Learning) sem eru jafnframt regnhlífarsamtök skiptinemasamtakanna AFS í Evrópu. Sóst var eftir sjálfboðaliða frá Rauða krossinum með sérþekkingu á málefnum flóttafólks, til að miðla fróðleik – meðal annars til félaga AFS.

Birna gekk til liðs við Rauða krossinn árið 2015 þegar ljóst var að sýrlenskt flóttafólk væri væntanlegt til Akureyrar. Hún hefur, ásamt Árna Þór Theódórssyni eiginmanni sínum, verið hluti öflugs hóps stuðningsfjölskyldna sem hafa verið sýrlensku fjölskyldunum innan handar frá því þær settust að á Akureyri í upphafi ársins 2016.

Birna er lærð leikkona og starfar sem leikstjóri, leiklistarkennari og dagskrárgerðarkona, auk þess að sinna skyldum sínum í stoðhlutverki við flóttafólk og stunda meistaranám í þjóðfræði. Hún hefur verið hæstánægð með reynslu sína af Rauða krossinum.

„Þetta hefur verið frábær og lærdómsrík reynsla sem hefur gefið okkur Árna svo ótrúlega mikið, og vonandi höfum við getað gefið af okkur til baka. Það er frábært að vera í Rauða Krossinum og að vera orðinn partur af svona stórri heild sem samanstendur af harðduglegu, hjálpsömu og réttsýnu fólki sem vill leggja sitt að mörkum við að gera heiminn að betri stað.“

Birna kveðst viss um að námskeiðið í Búdapest verði gagnlegt. „Ég hlakka mikið til að fara út og bera saman bækur við aðra sjálfboðaliða sem unnið hafa með flóttamönnum, en þarna mætast margir ólíkir reynsluheimar og eflaust margt sem hægt er að læra og kemur vonandi að góðum notum.“