• 15595850_10154178630671009_1019417179_o

Yfir 6000 fluttir frá austurhluta Aleppo en tugþúsundir eru eftir

Lokað fyrir brottflutning

16. desember 2016

Alþjóðaráð Rauða krossins, ICRC, ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum fékk leyfi fyrir björgunaraðgerðum í austurhluta Aleppo þann 15. desember. Aðgerðirnar voru studdar af stofnunum Sameinuðu þjóðanna á svæðinu. Aðgerðirnar voru flóknar og umfangsmiklar en alls tókst að flytja 6000 manns í öruggt skjól. 

Sýrlenski stjórnarherinn lokaði fyrir aðgerðirnar að morgni 16. desember en enn eru tugþúsundir óbreyttra borgara innlyksa á átakasvæði. Alþjóðaráðið hafði lagt ríka áherslu á að vopnahléð þyrfti að vara um nokkurra daga skeið svo brottflutningur óbreyttra borgara gæti farið eðlilega fram. Það eru mikil vonbrigði að lokað hafi verið fyrir flutning fólks frá austurhluta Aleppo og hvetur Alþjóðaráðið stríðandi aðila til að láta af átökum svo bjarga megi mannslífum saklausra borgara, þar á meðal þúsunda barna. 

Rúmlega 100 sjálfboðaliðar tóku þátt í aðgerðunum sem hófust 7 að morgni að staðartíma þann 15. desember en auk þess voru 12 starfsmenn Alþjóðaráðsins með í för. Óslasaðir voru fluttir til Mahalej-neyðarskýlisins annars vegar og Jibreen-neyðarskýlisins hins vegar í vesturhluta borgarinnar. Slasaðir og særðir voru fluttir á sjúkrastofnanir í vesturhlutanum. Aukinn fjöldi fólks í neyðarskýlunum kallar á umfangsmiklar og flóknar mannúðaraðgerðir en hingað til hefur illa tekist að koma til móts við grunnþarfir fólksins, sem skiptir nú tugum þúsunda. Ómögulegt er á þessari stundu að leggja mat á nákvæma tölu fólksins sem þiggur nú aðstoð. Fólk fær aðgang að heilsugæslu þar sem reknar eru heilsugæslur á hjólum (mobile clinics). 
Mat sérfræðinga er að aðstæður fólksins séu ekki ásættanlegar eins og sakir standa. Rennandi vatn er af skornum skammti og hreinlætisaðstaða eftir því. Vel hefur gengið að útvega mat, teppi og hlýjan fatnað. Íbúar í nágrenni við Jibreen-skýlið hafa stofnað sameiginlegt eldhús (collective). Vatn er flutt daglega með flutningabílum en enn vantar upp á, eftir því sem fólki fjölgar. 

Sjálfboðaliðar á vegum sýrlenska Rauða hálfmánans starfa nú nótt sem nýtan dag við lagfæringar á vatnsveitukerfi Aleppo en nauðsynlegt er að fá rennandi vatn en smitsjúkdómahætta eykst gífurlega við núverandi ástand. 

Marianne Gasser, yfirmaður sendinefndar Alþjóðaráðsins í Sýrlandi tók þátt í aðgerðunum. Við komuna í austurhluta Aleppo hafði hún á orði að aldrei fyrr hefði hún séð jafn slæmar aðstæður á löngum ferli. Þetta ástand geti ekki, og megi ekki, halda áfram. 

Þessar myndir voru teknar á meðan aðgerðunum stóð. 

15540604_10154178636561009_196744718_o

15556309_10154178646061009_1122772605_o

15555158_10154178642746009_2118431866_o

15556578_10154178630181009_1385482981_o

15540284_10154178630911009_1113921350_o

15556449_10154178635121009_426015026_o

15595922_10154178628391009_1779653025_o

15556244_10154178628411009_1055833609_o

15540482_10154178633911009_124021758_o