Lög og reglur Rauða krossins

KAFLI 1. ALMENN ÁKVÆÐI


1. gr. Hlutverk Rauða krossins á Íslandi.

 1. Félagið heitir Rauði krossinn á Íslandi og er félag sjálfboðaliða sem stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga og vinnur að verkefnum sem snúa að félagslegu öryggi og neyðarvörnum vegna áfalla og hamfara. Til þess að geta sinnt þessu hlutverki þarf Rauði krossinn að vera öflugur og vel starfandi. Fagleg vinnubrögð einkenna allt starf Rauða krossins á Íslandi.
 2. Meginhlutverk Rauða krossins á Íslandi er að bregðast við hvers konar neyð hvort heldur er af náttúru- eða mannavöldum, standa vörð um og aðstoða þá sem verst eru staddir í samfélaginu og veita aðstoð er gerir fólk hæfara til að takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum.
 3. Rauði krossinn á Íslandi vinnur að því að kynna og breiða út þekkingu á og virðingu fyrir Rauða krossinum, mannúðarlögum og þjóðréttarreglum um verndun fórnarlamba í vopnuðum átökum.
 4. Rauði krossinn á Íslandi vinnur með stjórnvöldum að mannúðarmálum og fylgir eftir gagnvart þeim grundvallaratriðum Genfarsamninganna frá 1949 og viðbótarbókana við þá. Í öllum samskiptum sínum við stjórnvöld gætir Rauði krossinn á Íslandi sjálfstæðis síns til þess að félagið geti ævinlega starfað í samræmi við grundvallarhugsjónir Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans.
 5. Rauði krossinn á Íslandi starfar í samræmi við sjö grundvallarhugsjónir Rauða krossins um:

Mannúð
Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sem spratt upp af löngun til að veita þeim sem særst höfðu á orrustuvelli hjálp án manngreinarálits, reynir með alþjóðlegu starfi og starfi landsfélaga að koma í veg fyrir og létta þjáningar fólks hvar sem það er statt. Tilgangur hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hún vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða.

Óhlutdrægni
Hreyfingin gerir engan mun á milli manna eftir þjóðerni þeirra, uppruna, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Hún reynir að draga úr þjáningum einstaklinga og tekur þá eingöngu tillit til þarfa hvers og eins en veitir forgang þeim sem verst eru staddir.

Hlutleysi
Svo að hreyfingin megi áfram njóta almenns trausts, gætir hún hlutleysis í ófriði og tekur aldrei þátt í deilum vegna stjórnmála, uppruna, trúarbragða eða hugmyndafræði.

Sjálfstæði
Hreyfingin er sjálfstæð. Þótt landsfélög veiti aðstoð í mannúðarstarfi stjórnvalda og lúti lögum lands síns, verða þau ætíð að varðveita sjálfstæði sitt svo þau geti starfað í samræmi við grundvallarmarkmið hreyfingarinnar.

Sjálfboðna þjónustu
Hreyfingin er borin uppi af sjálfboðnu hjálparstarfi og lætur aldrei stjórnast af hagnaðarvon.

Einingu
Í hverju landi má aðeins vera eitt landsfélag Rauða krossins eða Rauða hálfmánans. Það er öllum opið og vinnur mannúðarstarf um landið allt.

Alheimshreyfingu
Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans nær um heim allan, og öll landsfélög hafa jafnan rétt og ábyrgð og sömu skyldur til gagnkvæmrar hjálpar.
 

2. gr. Stofnun, viðurkenning og alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

 1. Rauði krossinn á Íslandi, sem stofnaður var 10. desember 1924, er viðurkenndur af Alþjóðaráði Rauða krossins og ríkisstjórn Íslands sem eina Rauða kross félagið er starfa má á Íslandi með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Rauði krossinn á Íslandi er aðili að Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans og starfar í samræmi við samþykktir og reglur Rauða kross hreyfingarinnar. Rauði krossinn á Íslandi skal uppfylla þau skilyrði sem sett eru í 4. gr. laga Rauða kross hreyfingarinnar. Samskipti við aðra aðila innan hreyfingarinnar skulu vera í samræmi við 3. gr. laga hennar. Að auki er Rauði krossinn á Íslandi bundinn af þeim skyldum sem tilgreindar eru í 8. gr. stofnskrár Alþjóða¬sambandsins.
 2. Félagið hefur varnarþing í Reykjavík.
 3. Rauði krossinn notar rauða kross merkið sem tákn samtakanna í samræmi við Genfarsamningana,  viðbótarbókanir við þá frá 1977 sem og reglur frá 1991 um notkun á merkjum rauða krossins, rauða hálfmánans eða rauða kristalsins af hálfu landsfélaga eða í landslögum sem taka til ofangreindra merkja. Rauði krossinn, allir félagar og deildir nota merkin samkvæmt þessu. Stjórn Rauða krossins á Íslandi, hér eftir nefnd stjórn í lögum þessum, setur nánari reglur um notkun merkisins.

3.gr.  Verkefni.

 1. Rauði krossinn sinnir neyðaraðstoð jafnt innan lands sem utan og er mikilvægur hlekkur í almannavörnum Íslands.
 2. Rauði krossinn kannar reglulega hvaða þjóðfélagshópar eru verst staddir í íslensku samfélagi og hagar starfinu í samræmi við niðurstöðurnar.
 3. Rauði krossinn starfar á alþjóðavettvangi í samræmi við stefnu alþjóðahreyfingarinnar. Félagið vinnur með samstarfsaðilum á jafnréttisgrunni sem hlutlaus aðili.
 4. Rauði krossinn sinnir öðrum verkefnum í samræmi við grundvallarhugsjónir Rauða krossins samkvæmt nánari ákvörðun aðalfundar eða stjórnar.
 5. Félagið metur reglulega árangur af öllu starfi sínu.

4. gr.  Skipulag, félagsaðild og sjálfboðið starf.

 1. Meginstoðir Rauða krossins á Íslandi eru annarsvegar deildirnar og stjórnir þeirra, hér eftir nefndar deildarstjórnir í lögum þessum, og hins vegar aðalfundur félagsins, stjórn og landsskrifstofa.
 2. Sjálfboðaliðar eru meginstyrkur félagsins og því er öflun þeirra, þjálfun og stuðningur við starf þeirra félaginu nauðsyn. Allir sem virða stefnu, tilgang og grundvallarhugsjónir Rauða krossins geta orðið sjálfboðaliðar. Skyldur sjálfboðaliða koma fram í sjálfboðaliðasamningi sem deildir gera við þá fyrir hönd félagsins, sbr. 24. gr.
 3. Allir geta skráð sig sem félaga í Rauða krossinum án tillits til kynþáttar, kynferðis, tungumáls, þjóðfélagsstöðu, trúar- eða stjórnmálaskoðana eða annars. Félögum ber að fara eftir og halda á lofti grundvallarhugsjónum félagsins, styðja og kynna starf þess, þekkja þessi lög og fylgja þeim, greiða árgjald og taka virkan þátt í starfi Rauða krossins á Íslandi.
 4. Félagar eru skráðir í eina deild Rauða krossins á Íslandi að eigin vali. Það er réttur félaga að taka þátt í og kjósa á fundum sinnar deildar og bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa á vegum hennar og eftir atvikum innan félagsins. Félagi getur ennfremur, sé hann valinn fulltrúi deildar sinnar á aðalfundi Rauða krossins, tekið þátt í þeim fundi með málfrelsi, tillögu- og kosningarétti. Félagi getur innan sinnar deildar tekið upp og vakið athygli á tilteknum málum við deildarstjórnir og eftir atvikum við stjórn og nefndir innan Rauða krossins. Félagi getur sagt sig úr Rauða krossinum skriflega hvenær sem er.
 5. Deildarstjórn getur vísað félaga úr Rauða krossinum fyrir alvarlegar sakir og skal honum tilkynnt það tafarlaust. Félagi, sem vísað hefur verið úr félaginu, getur skotið þeirri ákvörðun til stjórnar. Niðurstaða stjórnar er endanleg. Stjórn setur nánari reglur um meðferð slíkra mála.
 6. Seta í stjórn og deildarstjórnum, nefndum og vinnuhópum fyrir Rauða krossinn er ólaunuð.
 7. Aðalfundur setur félaginu siðareglur sem m.a. fjalla um hæfi og hagsmunaárekstra og skipar þriggja manna siðanefnd til tveggja ára í senn.

5. gr.  Heiðursviðurkenningar.
Aðalfundur getur kjörið heiðursfélaga úr röðum sjálfboðaliða. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald en eiga seturétt á aðalfundi deildar sinnar með fullum réttindum. Aðrar viðurkenningar eru veittar samkvæmt reglum sem stjórn setur. 

6. gr.  Samstarf.

 1. Skilyrði fyrir samstarfi Rauða krossins á Íslandi við stjórnvöld, önnur félög eða fyrirtæki innanlands og erlendis er að grundvallarhugsjónir Rauða krossins séu virtar og að samstarfið styðji við stefnu og verkefni Rauða krossins. Gera skal skriflegt samkomulag um slíkt samstarf til ákveðins tíma.
 2. Rauði krossinn styrkir ekki fjárhagslega verkefni á vegum annarra.

KAFLI 2. AÐALFUNDUR, STJÓRN OG LANDSSKRIFSTOFA.

7. gr.  Aðalfundur.
1)     Aðalfundur er æðsta vald Rauða krossins á Íslandi. Aðalfundur er haldinn annað hvert ár í maí eða júní. Stjórn boðar til fundarins með tryggilegum hætti með a.m.k þriggja mánaða fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað og ef a.m.k. helmingur tilkynntra fulltrúa sækir fundinn.

2)     Aðalfundur er þannig skipaður:

a.   Fulltrúafjöldi á aðalfundi miðast við íbúafjölda á starfssvæði deildar þannig að fyrir hverja 4.000 íbúa eða færri skal tilnefna tvo fulltrúa, fyrir íbúafjölda 4.001-8.000 skal tilnefna þrjá, fyrir 8.001-12.000 íbúa skal tilnefna fjóra og fyrir 12.001-18.000 íbúa fimm fulltrúa. Deildir á starfssvæði með 18.001-24.000 íbúa skulu tilnefna sex fulltrúa. Þar að auki skal tilnefna einn fulltrúa fyrir hverja 6.000 íbúa ef íbúafjöldi er á bilinu 24.001 til 78.000, einn fulltrúa fyrir hverja 8.000 íbúa ef íbúafjöldi er á bilinu 78.001-102.000, einn fulltrúa fyrir hverja 10.000 íbúa ef íbúafjöldi er 102.001 eða fleiri. Þó skal engin deild tilnefna fleiri fulltrúa á aðalfund en aðrar deildir til samans hafa rétt á. Íbúafjöldi miðast við mannfjöldaskrá Hagstofunnar 1. desember liðins árs. Deildir skulu tilkynna landsskrifstofu um nöfn fulltrúa sinna á aðalfundi mánuði fyrir aðalfund. Launaðir starfsmenn geta ekki setið aðalfund sem fulltrúar deilda.

b.    Eitt atkvæði fylgir hverjum fulltrúa og getur enginn fulltrúi farið með atkvæði í umboði annars.

c.    Einungis fulltrúar þeirra deilda sem hafa skilað stjórn ársskýrslu og samþykktum reikningum fyrir síðasta reikningsár á tilsettum tíma, sbr 1. málsgr. 15. gr.,hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

d.    Félagar sem hafa greitt árgjald síðasta árs til sinnar deildar fyrir árslok hafa einir fullan atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi Rauða krossins. Kjörnefnd getur vikið frá þessu atkvæði ef næg framboð í nýja stjórn hafa ekki borist fyrir aðalfund.

e.    Stjórnarmenn og formaður Ungmennaráðs Rauða krossins á Íslandi sem sitja ekki aðalfund sem fulltrúar deilda eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt.

f.    Stjórn getur boðið einstaklingum sem eru ekki aðalfundarfulltrúar fundarsetu með tillögurétti og málfrelsi.

g.    Aðalfundur Rauða krossins á Íslandi er opinn öllum félögum í Rauða krossinum en einungis fulltrúar deilda hafa málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt, sjá þó d og e lið. Þeir sem vilja vera viðstaddir aðalfund en eru ekki fulltrúar deilda sinna þurfa að skrá sig hjá landsskrifstofu með mánaðar fyrirvara hið minnsta.

3)    Ef fulltrúi deildar getur ekki mætt á aðalfund, getur deildarstjórn tilnefnt varafulltrúa með atkvæðisrétt í hans stað til að sækja fundinn. Kostnaði við þátttöku aðalfulltrúa á aðalfundi skal jafnað á deildir eftir fjölda fulltrúa sem þær eiga rétt á sbr. a-lið 2. mgr.  Félagar sem velja að vera viðstaddir aðalfund sbr. f-lið 2. mgr. bera sjálfir kostnað af ferðum og viðveru á fundinum.

4)    Tillögur til lagabreytinga skal senda til stjórnar a.m.k. tveimur mánuðum fyrir aðalfundinn. Hverskonar fyrirhugaðar breytingar á lögunum skal leggja fyrir sameiginlega nefnd Alþjóðaráðsins og Alþjóðasambandsins um lög landsfélaga og skal taka tillit til ábendinga nefndarinnar þegar slíkar breytingar eru gerðar á aðalfundi.

5)    Aðrar tillögur, sem fulltrúar eða deildir vilja láta taka fyrir á fundinum skal senda til landsskrifstofu með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.  A.m.k tveimur vikum fyrir fundinn sendir skrifstofan eftirfarandi gögn til fulltrúa:

a.    Innsendar tillögur frá deildum og fulltrúum á aðalfundi.
b.    Tillögur stjórnar.
c.    Greinargerð kjörnefndar.
d.    Annað efni, sem nauðsynlegt er til afgreiðslu tillagna á dagskrá.

6)    Aðalfundur velur sjálfur fundarstjóra, sem stjórnar umræðum og afgreiðir álitaefni sem snerta meðferð mála, atkvæðagreiðslur og niðurstöður þeirra. Á fundum á vegum Rauða krossins á Íslandi gilda almenn fundarsköp. 

7)    Á dagskrá aðalfundar skulu vera a.m.k. eftirtalin mál:

a.    Skýrsla stjórnar um starf Rauða krossins á Íslandi tvö undanfarin ár.
b.    Endurskoðaðir reikningar tveggja síðustu ára til afgreiðslu.
c.    Tillögur stjórnar um markmið, áætlanir og forgangsröðun verkefna Rauða krossins.
d.    Tillögur stjórnar um skiptingu tekna milli verkefna og deilda næstu tvö ár sbr. 1. og 2. mgr. 12. gr.
e.    Ákvörðun árgjalds.
f.    Innsendar tillögur.
g.    Kjör stjórnar skv. 8. gr.
h.    Kosning kjörnefndar.
i.    Kosning siðanefndar.
j.    Kosning tveggja skoðunarmanna.
k.    Tilkynning stjórnar um tíma og staðsetningu næsta aðalfundar.
l.    Önnur mál.

8)    Kjörnefnd.

a.    Aðalfundur velur fjögurra manna kjörnefnd til að undirbúa kosningar. Ábyrgð nefndarinnar, hlutverk o.fl. er ákvarðað í verklagsreglum sem samþykktar eru á aðalfundi. Nefndin ber eingöngu ábyrgð gagnvart aðalfundi.

b.    Kjörnefndarmenn skulu vera félagar í Rauða krossinum. Þeir mega hvorki sitja í stjórn né vera launaðir starfsmenn eða verktakar hjá Rauða krossinum.

c.    Kjörnefndarmenn eru kosnir til fjögurra ára í senn og taka til starfa 1. janúar þau ár sem aðalfundur er haldinn. Á öðrum hverjum aðalfundi er kosinn formaður nefndarinnar og einn nefndarmaður. Á hinum fundinum eru tveir nefndarmenn kosnir.
Aðalfundur velur fyrsta og annan varamann í kjörnefndina. Varamennirnir eru kosnir til tveggja ára í senn. Kjörgengir sem varamenn eru þeir sem eru  kjörgengir til kjörnefndar.

9)    Allir eru kjörgengir í stjórn sem eru félagar í Rauða krossinum á Íslandi 18 ára og eldri og eru ekki launaðir starfsmenn eða verktakar hjá félaginu. Formaður og varaformaður mega ekki vera virkir í stjórnmálum á landsvísu. Stjórnarmenn eru kjörnir til fjögurra ára í senn. Seta í stjórn er háð eftirfarandi tímatakmörkunum:

a.    Enginn getur setið samfellt í stjórn lengur en tvö kjörtímabil, þ.e. átta ár í röð, sjá þó c-lið.

b.    Seta varamanna í stjórn allt að tveimur árum skerðir ekki rétt þeirra til setu í stjórn skv. a-lið. Hvert kjörtímabil umfram eitt skerðir seturétt í stjórn um jafnlangan tíma.

c.    Heimilt er að stjórnarmaður sé kosinn formaður til eins kjörtímabils umfram fyrrgreind tvö kjörtímabil.

d.    Ef stjórnarmaður hættir störfum skal varamaður taka sæti hans fram að næsta aðalfundi. Hafi fráfarandi stjórnarmaður verið á fyrra helmingi kjörtímabils skal á næsta aðalfundi kjósa stjórnarmann til tveggja ára í hans stað. Hafi stjórnarmaður setið í stjórn samfleytt í tvö kjörtímabil og síðan gengið úr henni getur hann síðar verið kjörinn í stjórn í eitt kjörtímabil hið mesta.

e.    Missi stjórnarmaður kjörgengi á kjörtímabili sínu, hverfur hann þegar úr stjórn.

10)    Allar kosningar í trúnaðarstöður samkvæmt f-, g-, h- og i-lið 7. mgr. skulu vera leynilegar ef fleiri eru í framboði en kjósa skal.

11)    Allar aðrar ákvarðanir á aðalfundi eru teknar með einföldum meirihluta atkvæða, sjá þó 12. mgr. Skrifleg atkvæðagreiðsla skal fara fram ef a.m.k. tíu fulltrúar á aðalfundi fara fram á það.

12)  Í fundargerð aðalfundar skal færa dagskrárliði, stuttar lýsingar á efni þeirra, hverjir tóku til máls, frambornar tillögur, samþykktir fundarins og afgreiðslu mála. Ummæli og umræður eru ekki færðar í fundargerð en fundurinn skal hljóðritaður og upptakan gerð aðgengileg á vef Rauða krossins. Fundargerðin skal send út eigi síðar en tveim vikum eftir aðalfund.

13)   Til að breyta 16.-26. gr. laga þessara þarf einfaldan meirihluta greiddra atkvæða. Til að breyta öðrum greinum þarf tvo þriðju hluta greiddra atkvæða auk þess sem a.m.k.helmingur fulltrúa á aðalfundi skal taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Samþykktir og kosningar aðalfundar taka gildi við lok fundar nema hann ákveði annað. Færa skal til bókar úrslit kosninga og ákvarðanir og skulu formaður og fundarstjóri skrifa undir fundargerðina.

14)    Aukaaðalfundur er boðaður ef stjórn telur það nauðsynlegt eða ef a.m.k. einn fjórði hluti deilda sendir stjórn rökstudda beiðni um slíkt. Aukaaðalfundur er boðaður með dagskrá á sama hátt og venjulegur fundur, þó með eins mánaðar fyrirvara. Aukaaðalfundinn skal halda ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að skrifleg beiðni um hann hefur borist.

8. gr.   Stjórn.
1)    Stjórn ber ábyrgð á og hefur yfirstjórn á starfi og verkefnum Rauða krossins á Íslandi milli aðalfunda. 

 

2)    Stjórn er skipuð 11 félögum og skal kjósa formann og varaformann sérstaklega. Stjórnarmenn skulu, eftir að þeir hafa verið kjörnir í fyrsta sinn, skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir muni í störfum sínum fyrir félagið hafa grundvallarhugsjónir Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans í heiðri og vinna samkvæmt samþykktri stefnu félagsins.

3)    Stjórnarmenn eru kosnir af aðalfundinum til fjögurra ára í senn. Fomaður er ekki kosinn á sama fundi og varaformaður. Kosningu annarra stjórnarmanna er deilt jafnt niður með kosningu ýmist fjögurra eða fimm stjórnarmanna á hverjum aðalfundi.

4)    Aðalfundur kýs tvo varamenn í stjórnina. Varamennirnir eru kosnir til tveggja ára í senn og skal kjósa sérstaklega fyrsta og annan varamann. Kjörgengir sem varamenn eru þeir sem eru kjörgengir í stjórn. Boða skal varamenn á stjórnarfundi eins og kjörna stjórnarmenn og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema þeir sitji fundi í forföllum stjórnarmanna og skal þeim tilkynnt fyrirfram um slík forföll ef unnt er.

5)    Stjórnin skipar framkvæmdaráð sem í sitja formaður, varaformaður og tveir stjórnarmenn. Hlutverk þess er að undirbúa fundi stjórnar og fjalla um ákvarðanir sem þola ekki bið og verkefni sem stjórn hefur falið því. Fundargerðir framkvæmdaráðs skulu sendar stjórn og afgreiddar á næsta fundi. Framkvæmdaráð skal funda eins oft og þurfa þykir.

6)    Stjórn heldur fund strax eftir aðalfund þar sem hún kýs ritara, gjaldkera og fulltrúa í framkvæmda¬ráð. Stjórn heldur fund a.m.k. 6 sinnum á ári. Milli reglulegra funda skal stjórnin halda fundi þegar formaður eða minnst fjórir stjórnarmenn óska þess. Boða skal til funda með tryggilegum hætti með minnst fimm daga fyrirvara nema sérstök atvik réttlæti skemmri frest. Stjórnarfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað og að minnsta kosti sex stjórnarmanna eru á fundinum. Á stjórnarfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði formanns.

7)    Stjórn skipar tímabundna starfshópa til að vinna að verkefnum í umboði hennar.

8)    Stjórn getur eftir þörfum skipulagt svæðisbundna samráðsfundi með félögum, sjálfboða¬liðum og starfsmönnum um verkefni deilda á starfssvæðum þeirra.

9)    Stjórn ræður framkvæmdastjóra.

10)    Stjórn samþykkir endurskoðaða reikninga fyrir Rauða krossinn og gerir fjárhagsáætlanir með tilliti til samþykkta aðalfunda um markmið og verkefni Rauða krossins.

9. gr. Formannafundur.
Stjórn skal boða til formannafundar árlega á haustmisseri. Niðurstaða slíkra funda er ráðgjafandi fyrir stjórn og aðalfund.  Rétt til setu á formannafundi hafa formenn allra deilda, stjórn, formaður URKÍ og formenn deildarráða. Formannafundur skal boðaður á tryggilegan hátt með eins mánaðar fyrirvara.

10. gr. Formaður.
Staða formanns Rauða krossins á Íslands er æðsta embætti félagsins. Formaður leiðir starf Rauða krossins samkvæmt samþykktum aðalfundar og ákvörðunum stjórnar. Formaður er fulltrúi Rauða krossins á Íslandi á innlendum og erlendum vettvangi. Hann

a)    boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim,

b)    hefur tilsjón með starfi Rauða krossins á Íslandi og landsskrifstofu fyrir hönd stjórnarinar og

c)    ber ábyrgð á að deildirnar, aðalfundur og stjórn fái upplýsingar um stöðu og starf Rauða krossins.


11. gr.    Landsskrifstofa Rauða krossins.
1)    Landsskrifstofa aflar hugsjónum og verkefnum Rauða krossins stuðnings með útbreiðslustarfi, samræmir vinnubrögð og miðlar þekkingu, vinnur að verkefnum á landsvísu svo og að neyðar- og þróunaraðstoð og þjónustar deildir með fræðslu og verkfærum til þess að þær geti framkvæmt stefnu félagsins og samþykkt verkefni. 

2)    Landsskrifstofa annast daglegan rekstur og samskipti við deildir, deildaráð og alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans, ríkisstjórn, ráðuneyti og við félög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í öðrum löndum auk annarra samstarfsaðila.

3)    Framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi

a.    er yfirmaður landsskrifstofu og ber ábyrgð á starfsemi hennar,

b.    hefur eftirlit með starfi deilda, að fylgt sé almennum reglum og stefnu sem aðalfundur og stjórn hafa markað, þar á meðal starfsmannastefnu og launastefnu,

c.    situr fundi stjórnar og framkvæmdaráðs með tillögurétti og málfrelsi,

d.    sér um að gera fjárhagsáætlanir og fjárhagsskýrslur á grundvelli upplýsinga frá deildum,

e.    er lögmætur fulltrúi landsfélagsins gagnvart þriðja aðila og dómstólum,

f.    má ekki vera virkur í stjórnmálum á landsvísu.

Stjórn setur nánari reglur um skyldur og störf framkvæmdastjóra.

KAFLI 3.  FJÁRMÁL.

12. gr. Ráðstöfun tekna og fleira.
1)    Hlutfallsleg skipting tekna Rauða krossins frá Íslandsspilum milli deilda, sameiginlegs kostnaðar, alþjóðastarfs, reksturs sjúkrabíla og Verkefnasjóðs er ákveðin á aðalfundi fyrir næstu tvö ár. 

2)    Sá hluti tekna af Íslandsspilum sem fer til deilda skal vera tengdur verkefnum og virkni deilda. Aðalfundur setur reglur um þessa skiptingu fyrir næstu tvö ár.

3)    Þremur mánuðum fyrir aðalfund skal stjórn kynna fyrir deildum drög að skiptingu skv. 1. og 2. mgr., kalla eftir athugasemdum og síðan senda út tillögu sína a.m.k. mánuði fyrir aðalfund.

4)    Árgjöld félaga í Rauða krossinum á Íslandi renna óskipt til viðkomandi deildar að frádregnum innheimtukostnaði.

5)    Tekjur af annarri fjáröflun, s.s. fatasöfnun, skiptast skv. reglum sem samþykktar eru á aðalfundi. Í þessum reglum skal einnig kveðið á um verkaskiptingu innan Rauða krossins varðandi fjáröflun.

6)    Stjórn getur stöðvað greiðslur til deildar ef hún

a.    stendur ekki skil á ársreikningi og skýrslu um störf sín ásamt framkvæmda- og fjárhagsáætlun.

b.    ef deildin starfar ekki skv. lögum og stefnu félagsins.

7)    Deild getur ekki skuldbundið sig fjárhagslega fyrir hærri upphæð en sem nemur tekjum hennar undanfarin tvö ár að frátöldum framlögum úr Verkefnasjóði og innbyrðis viðskiptum innan Rauða krossins á Íslandi nema með samþykki stjórnar. Sömuleiðis er deild ekki heimilt að reka sig með halla, eigi hún ekki handbært fé til að mæta þeirri ráðstöfun, nema fjárhagsáætlun um slíkt hafi hlotið samþykki stjórnar.

13. gr. Verkefnasjóður.
1)  Meginhlutverk Verkefnasjóðs er að veita styrki til verkefna deilda og deildaráða, sem samræmast gildandi stefnu Rauða krossins.

2) Tekjur Verkefnasjóðs eru:

 a.  Hlutfall af tekjum af Íslandsspilum skv. ákvörðun aðalfundar sbr. 1. mgr. 12.gr.

b.  Tekjur sem að ella hefðu runnið til deilda sbr. 6. mgr. 12. gr.

c.  Áætluð framlög til reksturs sjúkrabíla, hætti félagið afskiptum af rekstri þeirra.

3) Úthluta skal styrkjum úr Verkefnasjóði einu sinni á ári í september til deilda og deildarráða. Skulu umsóknir berast landsskrifstofu fyrir 20. ágúst ár hvert. Greiðslur samkvæmt úthlutun verða inntar af hendi á því starfsári sem úthlutað er fyrir. Hver deild getur ekki fengið meira en sem nemur fjórðungi (25%) af heildarfjárhæð sjóðsins.  Ef umsóknir í Verkefnasjóð eru með þeim hætti að tekjuafgangur er af sjóðnum að lokinni úthlutun í september, gefst deildum tækifæri á að senda inn umsóknir og skulu þær berast til landsskrifstofu fyrir 15. nóvember.Við úthlutun á tekjuafgangi er ekki hámark á hversu stórt hlutfall af sjóðnum getur farið til einnar deildar.  Úthlutun er háð rauntekjum Verkefnasjóðs og skal framlag sem úthlutað hefur verið til verkefnis leiðrétt til samræmis við þær. Frávik frá áætlun leiðréttist við úthlutun á næsta ári. Ekki er hægt að skuldbinda Verkefnasjóð til lengri tíma en þriggja ára í senn.

4)     Við úthlutun skal taka mið af

a.    fjárþörf verkefnis

b.     fjárhags- og framkvæmdaáætlun umsækjanda

5)     Stjórn Verkefnasjóðs sér um eftirfylgni og eftirlit með þeim verkefnum sem hljóta úthlutun úr sjóðnum. Deildir og deildaráð skulu skila inn áfangaskýrslum til landsskrifstofu fyrir 15. mars um verkefnið sem úthlutað var til á nýliðnu ári. Stjórn getur afturkallað veittan styrk að hluta eða öllu leyti ef forsendur breytast verulega.

6)     Stjórn Rauða krossins á Íslandi skipar fulltrúa í stjórn Verkefnasjóðs og setur nánari reglur um hlutverk Verkefnasjóðs og úthlutun úr honum.

14.  gr. Varasjóður.
1)    Rauði krossinn skal eiga varasjóð. Tilgangur hans er að:

a.    vera tryggingarsjóður vegna áfalla sem félagið kann að verða fyrir;

b.    geta brugðist við stóráföllum innanlands og utan;

c.    fjármagna viðamikil verkefni sem aðalfundur ákveður.

2)    Fé er lagt í varasjóð í samræmi við samþykkt aðalfundar sem ákveður hver upphæð hans skuli vera.

3)    Veðsetning varasjóðs, eða lántaka úr honum til skemmri eða lengri tíma, er óheimil nema með samþykki aðalfundar.

4)    Varasjóður skal varðveittur í banka og/eða hjá löggiltu verðbréfafyrirtæki. Meginstefna við vörslu hans skal vera öryggi frekar en há ávöxtun

15.  gr. Reikningsár félagsins og endurskoðun.
1)    Reikningsár Rauða krossins á Íslandi er almanaksárið. Deildirnar skulu eigi síðar en 15. mars ár hvert senda stjórninni skýrslur um störf sín og ársreikninga staðfesta af aðalfundum deildanna. Deildir og deildaráð skulu skila framkvæmda- og fjárhagsáætlun næsta árs auk fjögurra ára verkefnaáætlunar til landsskrifstofu eigi síðar en 10. nóvember. Standi deild ekki skil á þessum upplýsingum til stjórnar getur stjórnin stöðvað greiðslur til hennar. 

2)    Bókhald Rauða krossins skal fært í eitt bókhaldskerfi. Ársreikningur Rauða krossins er gerður upp sem samstæðureikningur sem nær til allrar starfsemi Rauða krossins á Íslandi. Framsetn-ing reikningsskila deilda skal vera með sambærilegum hætti samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

3)    Stjórn skal árlega endurskoða ársreikninga og bókhald tiltekins fjölda deilda sem valdar eru af handahófi. Deildum er skylt að veita stjórninni aðgang að bókhaldi sínu í þessu skyni.

4)    Einn löggiltur endurskoðandi skal skoða reikninga félagsins alls. Reikningar deilda skulu endurskoðaðir af sama endurskoðanda í samræmi við almenna ákvörðun stjórnar hverju sinni.  

KAFLI 4. DEILDIR OG DEILDARÁÐ.

16. gr. Staða deilda.
Deild er hluti af Rauða krossinum á Íslandi sbr. 4. grein. Ákvæði laga þessara í 16. til 25. gr. gilda fyrir allar deildir. Deildir geta sett nánari reglur um starfsemi sína.

17. gr. Starfssvæði deilda.
1)    Hver deild starfar á afmörkuðu og skilgreindu landssvæði, sbr. þó 2. mgr. 18. gr.

2)    Sameina má deildir eftir ákvörðun viðkomandi deilda og að fengnu samþykki stjórnar. Ákvörðunin skal tekin af aðalfundum deildanna og nægir samþykki einfalds meirihluta þeirra félaga sem sækja fundina. Sameining tekur gildi við upphaf nýs reikningsárs.

3)    Fyrsti reglulegi aðalfundur í hinni nýju deild skal haldinn fyrir lok október árið áður en sameiningin tekur gildi. Fráfarandi deildarstjórnir ganga frá endurskoðuðum reikningum til deildarstjórnar nýju deildarinnar sem sér um að senda þá til stjórnar.

4)    Innan tveggja ára getur aðalfundur eða aukaaðalfundur hinnar nýju deildar sótt til stjórnar um að skipta deildinni aftur. Við slíka skiptingu fá upphaflegu deildirnar í sinn hlut sama hlutfall eigna og þær lögðu til við sameininguna.

18. gr.  Markmið og verkefni deilda.
1)    Deild skal á starfssvæði sínu starfa að markmiðum og verkefnum Rauða krossins sem lýst er í 3. gr. Hver deild skal greina brýnustu þarfir fyrir starf í anda félagsins á starfssvæði sínu og haga störfum sínum eftir niðurstöðum þarfagreiningarinnar.

2)    Geti deild ekki starfað að markmiðum og verkefnum Rauða krossins eða hluta af þeim ber henni að leita samstarfs við aðrar deildir, deildaráð eða stjórn um lausn þeirra.

19. gr. Samstarf og samráð deilda og deildaráða.
1)     Deildir geta átt samstarf sín á milli m.a. með því að mynda deildaráð.

2)     Deildir og deildaráð geta starfað með stjórn, landsskrifstofu og öðrum aðilum að framkvæmd stefnu og verkefna Rauða krossins á starfssvæðum þeirra sbr. 1. mgr. 17. gr.

3)     Í sveitarfélögum, þar sem tvær eða fleiri deildir starfa skulu þær starfa saman í deildaráði. Deildirnar geta fært starfsemi sína að hluta eða að fullu til deildaráðsins og er starfsemi þess fjármögnuð með framlögum frá viðkomandi deildum.

4)     Stjórn setur nánari reglur um samstarf deilda og deildaráða.
 
20. gr. Aðalfundir deilda.
1)    Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. mars ár hvert. Kalla má saman aukaaðalfund ef deildar-stjórn telur slíkt nauðsynlegt eða ef hið minnsta fjórðungur félaga í deildinni óskar þess skriflega. Deildarstjórnin boðar á tryggilegan hátt bæði reglulegan aðalfund og aukaaðalfund með dagskrá með minnst 14 daga fyrirvara. Einnig skal aðalfundur tilkynntur til landsskrif-stofu með sama fyrirvara. Deildarstjórn getur skipað kjörnefnd sem undirbýr kjör stjórnar og skoðunarmanna í samræmi við lög félagsins.

2)    Félagsaðild eða sjálfboðaliðasamningur veitir aðgang að aðalfundinum.

3)    Félagar sem hafa greitt árgjald síðasta árs til deildarinnar fyrir árslok hafa einir fullan atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi deildar sinnar. Deildarstjórn, eða kjörnefnd þar sem hún hefur verið skipuð, getur vikið frá þessu ákvæði ef næg framboð í nýja deildarstjórn hafa ekki borist fyrir aðalfund. Launaðir starfsmenn hjá Rauða krossinum og félagar undir 18 ára aldri hafa ekki atkvæðisrétt eða kjörgengi á aðalfundi en hafa málfrelsi og tillögurétt. Félagar undir 18 ára aldri greiða ekki árgjald.

4)    Kjörtímabil er tvö ár fyrir formann og fulltrúa í deildarstjórn og eitt ár fyrir varamenn og skoðunarmenn. Hægt er að kjósa stjórnarmenn aftur í öll embætti, sjá þó 5. mgr. Leitast skal við að skipan deildarstjórnar endurspegli fjölbreytileika samfélagsins á starfssvæði deildarinnar, svo sem með tillliti til kyns, aldurs, þjóðernis og búsetu.

5)    Enginn getur setið í deildarstjórn sem aðal- eða varamaður eða verið skoðunarmaður lengur en fjögur kjörtímabil samfellt, þ.e. átta ár í röð. Verði stjórnarmaður formaður getur hann setið lengur en sem nemur fyrrgreindum átta árum, þó aldrei lengur en tólf ár samfellt í deildarstjórn. Hafi deildarstjórnarmaður setið í stjórn samfellt í fjögur kjörtímabil eða sex kjörtímabil ef viðkomandi hefur verið formaður og síðan gengið úr deildarstjórn má endurkjósa hann sem aðal- eða varamann í stjórnina að fjórum árum liðnum.

6)    Meiriháttar tillögur sem afgreiða skal á reglulegum aðalfundi þarf að senda skriflega til deildarstjórnar í síðasta lagi 7 dögum fyrir aðalfund.

7)    Á dagskrá aðalfundar deildar skulu vera a.m.k. eftirtalin atriði:

a.    Kosning fundarstjóra.
b.    Skýrsla/greinargerð um starf deildarinnar.
c.    Skoðaður ársreikningur lagður fram til afgreiðslu.
d.    Framkvæmda- og fjárhagsáætlun lögð fram.
e.    Innsendar tillögur.
f.    Kosning deildarstjórnar skv. 21. gr.
g.    Kosning skoðunarmanna og varamanna þeirra.
h.    Önnur mál.

8)    Skoðunarmenn og varamenn þeirra skulu hafa þekkingu á reikningsskilum. Ef skoðunarmaður er ekki löggiltur endurskoðandi skal kjósa tvo skoðunarmenn.

9)    Ákvarðanir á aðalfundum eru teknar með einföldum meirihluta þeirra félaga sem sækja fundinn, sbr. þó 25. gr.

10)    Aðalfundurinn kýs fulltrúa í deildarstjórnina skv. 21. gr. Ef stjórnarmaður hættir störfum á fyrra ári kjörtímabils skal á næsta aðalfundi kjósa stjórnarmann til eins árs í hans stað.

11)    Aðalfundurinn kýs varamenn í deildarstjórnina og ákveður í hvaða röð varamenn skuli taka sæti aðalmanna.

12)    Almennan félagsfund annan en aðalfund skal boða með tryggilegum hætti með minnst fimm daga fyrirvara.

21. gr. Skipan deildarstjórna.
1)    Forysta hverrar deildar er deildarstjórn með fimm félögum hið fæsta að formanni meðtöldum. Kjósa skal um helming deildarstjórnar á hverju ári. 

2)    Deildarstjórn velur varaformann, ritara og gjaldkera. Formaður, varaformaður og skoðunarmaður geta ekki jafnframt gegnt stöðu gjaldkera. Gjaldkeri má ekki vera maki eða tengdur formanni, varaformanni eða skoðunarmanni nánum fjölskylduböndum.

3)    Stjórnarstörf eru ólaunuð. Deildarstjórn getur ráðið sér launaða aðstoð, deildarstjóra, forstöðumann eða aðra starfsmenn. Ef fulltrúi í deildarstjórn tekur að sér launaða vinnu eða verktöku fyrir Rauða krossinn skal hann um leið ganga úr deildarstjórninni. Stjórn Rauða krossins getur í undantekningartilvikum  heimilað fulltrúa í  deildarstjórn að taka að sér fræðslu eða önnur slík verk gegn greiðslu ef hagsmunir deildarinnar krefjast þess.

22. gr. Ábyrgð og fundir deildarstjórnar.   
1)    Deildarstjórn skipuleggur starf deildar og meðferð á eignum hennar.

2)    Deildarstjórn ber ábyrgð á rekstri deildar gagnvart stjórn sem getur hlutast til um starfsemi deildarinnar ef hún víkur frá lögum og stefnu félagsins og öðrum ákvörðunum sem aðalfundur eða stjórn hefur tekið

3)    Formaður deildar kallar deildarstjórn saman og einnig skal hún koma saman ef 1/3 hluti deildarstjórnarmanna óskar þess. Til þess að deildarstjórn geti tekið gildar ákvarðanir verður a.m.k. helmingur deildarstjórnarmanna að vera á fundi. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði formanns.

4)    Reikningsár deildar er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.

5)    Stjórn setur reglur um hvernig reikningar skulu færðir, framsettir og endurskoðaðir og um skýrslugerð deilda og deildaráða til landsskrifstofu.

23. gr. Störf deilda og sjálfboðaliðar.
1)    Deildarstjórn skipar verkefnisstjórnir og starfshópa úr hópi sjálfboðaliða til að koma af stað, framkvæma og þróa verkefni deildarinnar.

2)    Deildarstjórn hvetur til og stuðlar að frumkvæði og þátttöku sjálfboðaliða deildarinnar, forgangsraðar verkefnum og styður við framkvæmd þeirra.

24. gr. Sjálfboðaliðasamningur og tryggingar.
1)    Félagar og sjálfboðaliðar eru skráðir í miðlægan gagnagrunn í umsjá landsskrifstofu.

2)    Sjálfboðaliðar skulu gera sjálfboðasamning við deildir um framlag sitt.

3)    Landsskrifstofa annast hóptryggingu fyrir alla samningsbundna sjálfboðaliða.

25. gr. Deild lögð niður.
1)    Ef leggja á deild niður þarf að samþykkja það með 2/3 atkvæða á aðalfundi sem hið minnsta 2/3 félaga í deildinni sækja. Séu þessi skilyrði ekki uppfyllt, skal deildarstjórn boða til aukaaðalfundar. Verði tillagan samþykkt á þeim fundi með 2/3 greiddra atkvæða er sú niðurstaða bindandi, óháð fundarsókn.

2)    Stjórn getur lagt niður deild til bráðabirgða ef hún starfar andstætt grundvallarhugsjónum hreyfingarinnar, lögum eða stefnu Rauða krossins á Íslandi. Stjórn er einnig heimilt að leggja niður deild hafi hún ekki haldið aðalfund í tvö ár og ekki skilað framkvæmdaáætlun, ársskýrslu eða ársreikningi.

3)    Ákvörðun stjórnar um að leggja niður deild skal lögð fyrir næsta aðalfund félagsins til endanlegrar afgreiðslu.

4)    Fulltrúi eða fulltrúar deildar sem lögð hefur verið niður til bráðabirgða njóta ekki atkvæðisréttar á aðalfundi við afgreiðslu á máli deildarinnar. Þess skal gætt að þeim gefist kostur á að tala máli deildarinnar áður en ákvörðun er tekin.

5)    Þegar deild er lögð niður renna eignir, verkefni o.þ.h. til Rauða krossins á Íslandi.

KAFLI 5. UNGMENNARÁÐ RAUÐA KROSSINS.

26. gr.   Ungmennaráð Rauða krossins.
1)   Ungmennaráð Rauða krossins á Íslandi, skammstafað URKÍ, er stjórn ungmennahreyfingar Rauða krossins. URKÍ er málsvari og gætir hagsmuna ungs fólks í félaginu. URKÍ sendir tillögur sínar til stjórnar sem tekur þær til afgreiðslu. Formaður URKÍ fundar með stjórn a.m.k. tvisvar á ári.

2)   URKÍ heldur ungmennaþing fyrir lok apríl ár hvert og þar eru kosnir fjórir fulltrúar í ráðið auk formanns. Á hverju ungmennaþingi skulu kosnir þrír fulltrúar í URKÍ, einn til tveggja ára og tveir til eins árs. Annað hvert ár skal auk þess kjósa formann til tveggja ára en að öðru leyti skiptir URKÍ með sér verkum á fyrsta fundi eftir ungmennaþing.

3)   Áður en boðað er til ungmennaþings skal URKÍ skipa kjörnefnd sem vinnur eftir starfsreglum sem ráðið setur um kjörnefnd.

4)   Hlutverk ungmennaþings er einnig að gera tillögur um áherslur í ungmennastarfi Rauða krossins á Íslandi í samræmi við stefnu og markmið félagsins. URKÍ tekur þessar tillögur til frekari meðhöndlunar.

5)   Til ungmennaþings skal boða með minnst mánaðar fyrirvara með fundarboði til allra deilda og auk þess opinberlega með áberandi hætti. Skulu deildarstjórnir tilnefna fulltrúa sína og tilkynna URKÍ.  Ungmennaþing er löglegt ef löglega er til þess boðað.

6)   Á ungmennaþingi hafa allir félagar í Rauða krossinum á aldrinum 16 til 30 ára rétt til setu með tillögu- og atkvæðisrétt. Tillögur til ungmennaþings skulu hafa borist URKÍ tveimur vikum fyrir ungmennaþing. Tillögur öðlast gildi ef meirihluti fundarmanna greiðir þeim atkvæði sitt.

7)   URKÍ getur boðað til auka-ungmennaþings sem skal gera ef a.m.k. þriðjungur félaga í Rauða krossinum á aldrinum 16 til 30 ára krefst þess. Sömu reglur gilda um boðun auka-ungmennaþings og ungmennaþings.

8)   URKÍ skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári. Formaður boðar til funda með tryggilegum hætti með minnst einnar viku fyrirvara. Fundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað og a.m.k. helmingur fulltrúa í URKÍ er mættur.

KAFLI 6 – SLIT OG GILDISTAKA.

27. gr.     Slit félagsins.
Nú telst rétt að leggja niður starfsemi Rauða krossins á Íslandi og verður ákvörðun þar að lútandi aðeins tekin á aðalfundi. Um undirbúning og atkvæðagreiðslu á fundinum skal fylgja þeim reglum sem gilda um breytingar í 11. mgr. 7. gr.
Verði Rauði krossinn á Íslandi lagður niður, skal aðalfundur sem það samþykkir ráðstafa öllum eigum í sem nánustu samræmi við tilgang félagsins.

28. gr.  Gildistaka.
Þessi lög Rauða krossins á Íslandi voru samþykkt á aðalfundi félagsins hinn 19. maí 2012 og koma í stað fyrri laga og samþykkta fyrir félagið.

 

Breytingar voru gerðar á 7., 13., 21. og 26. grein á aðalfundi 21. maí 2016.