Sá fjöldi fólks sem undanfarið hefur neyðst til að yfirgefa heimkynni sín og leggja á flótta hefur aldrei verið meiri. Margt bendir til þess að flóttafólki og farendum muni halda áfram að fjölga verulega á næstu árum. Flóttafólk kemur víða að en fjöldinn jókst mikið á síðasta ári við það að vopnuð átök brutust út í Úkraínu, auk þess sem mikill fjöldi Venesúelabúa hefur undanfarin ár þurft að leggjast á flótta vegna ofbeldis, óöryggis og skorts á nauðsynjum þar í landi.

Flóttafólk og innflytjendur
Grunnþjónusta við fólk á flótta og ábyrgð á henni liggur ávallt hjá stjórnvöldum með stuðningi frá öðrum aðilum. Rauði krossinn á Íslandi hefur komið að móttöku og aðlögun flóttafólks með einum eða öðrum hætti frá árinu 1956 og veitir flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd enn þann dag í dag víðtæka þjónustu, m.a. á grundvelli samninga við stjórnvöld. Með stoðhlutverki sínu og öflugum mannauð um land allt getur Rauði krossinn á Íslandi stutt við fólk á flótta eftir fremsta megni.
Mikilvægt er að hlúa vel að hópi flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd en um er að ræða venjulegt fólk sem þurft hefur að flýja mikla neyð, ofbeldi og erfiðleika. Þá er ekki síður mikilvægt að veita þeim sem komið hafa frá öðrum heimshlutum aðstoð við að fóta sig í íslensku samfélagi og ýta undir möguleika þeirra á að gerast virkir meðlimir samfélagsins. Áherslur Rauða krossins á Íslandi í málefnum fólks á flótta lúta að aðstoð í gagnkvæmri aðlögun og sálfélagslegum stuðningi og leggur Rauði krossinn áherslu á að fólk búi við öryggi, heilbrigði og mannsæmandi skilyrði, ásamt því að hafa tækifæri til að dafna.
Rauði krossinn á Íslandi hefur gert alvarlegar athugasemdir við nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga þar sem félagið telur hætta á að það skerði þjónustu við framangreindan hóp og skapi ný samfélagsleg vandamál. Hér að neðan má sjá nokkrar ástæður þess að Rauði krossinn á Íslandi telur nýja frumvarpið ekki til bóta, ásamt upplýsingum um ýmislegt sem félagið telur að hafi borið á misskilningi um í umræðunni um útlendingamál.
Upplýsingar um útlendingamál
Sá mikli fjöldi umsækjenda sem fengið hafa alþjóðlega vernd hér á landi á undanförnum mánuðum skýrist af þeirri stefnu stjórnvalda að veita umsækjendum frá Úkraínu og Venesúela slíka vernd. Aukinn fjöldi flóttafólks er alþjóðleg og vaxandi áskorun, en þrátt fyrir það koma nú mun færri frá öðrum löndum en árið 2016, þegar núverandi lög voru samþykkt, auk þess sem umsóknum frá þeim sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi hefur fækkað.
Samkvæmt tölum frá Ríkislögreglustjóra fyrir árið 2022 komu 52% umsókna um vernd á síðasta ári frá Úkraínu, 26% frá Venesúela, 5% frá Palestínu og 18% frá öðrum löndum. Það voru því 23% allra umsókna, eða 1049 manns, sem komu frá öðrum löndum. Sé þetta borið saman við tölur fyrri ára yfir umsóknir um alþjóðlega vernd er ljóst að fækkun hefur orðið á umsóknum frá árinu 2016:

Vopnuð átök í Úkraínu hafa hrakið yfir sjö milljónir íbúa landsins á flótta til annarra ríkja, að miklu leyti til nágrannaríkja, sem eru aðilar að Evrópusambandinu. Þar sem í löndum Evrópusambandsins búa um 450 milljónir manns jafngildir fjöldi flóttafólks frá Úkraínu innan sambandsins því um 1,5% af heildaríbúafjölda eða hlutfallslega þrisvar sinnum fleiri en á Íslandi. Af þessum sjö milljónum óskuðu 2.350 alþjóðlegrar verndar hérlendis á árinu 2022 og telur fólk frá Úkraínu því nú um um 0,5% þjóðarinnar. Í nágrannaríkinu Póllandi eru 1,4 milljónir einstaklinga frá Úkraínu skráð sem flóttafólk, eða 3,7% af íbúafjölda landsins, en í nágrannaríkinu Moldóvu er hlutfallið 2,3%. Í báðum löndum er þó mun fleira flóttafólk frá Úkraínu sem er enn óskráð og er raunverulegt hlutfall því líklega mun hærra.
Með útlendingafrumvarpi dómsmálaráðherra eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um tímafresti í málum er varða umsækjendur með vernd í öðru ríki. Með breytingunni munu þau framfararskref sem stigin hafa verið í málum barna verða að engu og þau reglugerðarákvæði, sem sett voru af dómsmálaráðherra árið 2019 til að vernda börn sem fest hafa hér rætur, munu falla úr gildi.
Einn megintilgangurinn með setningu ákvæða um tímafresti er að tryggja umsækjendum ákveðna vernd þegar afgreiðsla umsókna þeirra dregst úr hófi fram. Almennt er fólk sammála um að óhóflegur dráttur á afgreiðslu umsókna sé til þess fallinn að skaða hagsmuni umsækjenda enda augljóst að langvarandi óvissa um framtíðaráform, dvalarstað og öryggi getur haft verulega neikvæð áhrif á heilsu og velferð einstaklinga. Þá er almennt viðurkennt að þessum sjónarmiðum sé gefið ríkara vægi við ákvarðanatöku er varða börn.
Þá er í frumvarpinu lagt til að horfið verði frá þeirri framkvæmd að láta tafir foreldra eða umsjónarmanna ekki bitna á rétti barna til efnislegrar meðferðar. Er hér raunar lagt til að börn missi rétt til efnismeðferðar ef foreldrar þess eða umsjónarmenn teljast vera valdir að töfum. Hingað til hafa börn verið talin eiga sjálfstæðan rétt til efnislegrar meðferðar eftir 10 mánaða dvöl á landinu, bæði óháð því hvenær lokaákvörðun var birt í máli þeirra og ástæðum fyrir lengd dvalar hér á landi. Umrædd breyting er ekki í samræmi við meginreglu barnaréttar um bestu hagsmuni barna en regluna er m.a. að finna í barnalögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur hefur verið hér á landi. Þá gengur umrædd breyting þvert á ákvæði barnasáttmálans þar sem segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima.
Í frumvarpinu er lagt til að öll þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd falli niður 30 dögum eftir lokasynjun frá íslenskum stjórnvöldum, sem almennt er eftir synjun kærunefndar útlendingamála. Með þessu mun réttur til framfærslu og húsnæðis og aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu falla niður. Umrædd þjónustusvipting á þó ekki við um börn og fjölskyldur þeirra og alvarlega veika og fatlaða einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Samkvæmt reynslu Rauða krossins er ljóst að Útlendingastofnun hafi verið verulega treg til að viðurkenna sérstaklega viðkvæma stöðu, s.s. alvarleg veikindi eða fötlun, og því ljóst að ákvæðið veitir þeim hópi ekki nægilega vernd þrátt fyrir nefndar undantekningar. Af þeim sökum telur Rauði krossinn að alvarlega veikir eða fatlaðir einstaklingar geti allt eins verið sviptir þjónustu 30 dögum eftir lokasynjun á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd og aðrir umsækjendur, enda hefur Útlendingastofnun í mörgum tilfellum ekki viðurkennt viðkvæma stöðu þeirra.
Svo virðist sem þessu ákvæði sé ætlað að þvinga fólk til að yfirgefa landið, ella munu þau enda á götunni og án framfærslu. Í fyrstu hljómar það eins og einföld lausn að veita fólki fái 30 daga til að snúa heim þegar það hefur fengið synjun, en raunveruleikinn er oft flóknari og getur skapað fleiri og verri vandamál en lausnir. Raunin er sú að ekki allir hafa tök á að yfirgefa landið eftir 30 daga og treysta sér jafnvel ekki til þess. Oft felst mikil hætta í því að snúa aftur heim, auk þess sem það getur verið erfitt eða jafnvel ómögulegt fyrir fjölda fólks.
Með ákvæðinu er ljóst að alvarleg vandamál munu skapast í íslensku samfélagi og einstaklingar munu verða berskjaldaðri fyrir hvers kyns misbeitingu, mansali og ofbeldi. Heimilislausum mun fjölga og líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum munu aukast. Þar að auki mun álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu aukast. Í umsögn Rauða krossins um útlendingafrumvarpið leggur félagið til að í stað þjónustusviptingarinnar skal fólki veittur réttur til að vinna á meðan þeir bíða brottflutnings. Af reynslunni að dæma er mikill fjöldi fólks sem myndi mun frekar vilja fá að vinna og sjá sjálfum sér og sínum farborða í stað þess að þiggja framfærslu frá stjórnvöldum.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að íslenskum stjórnvöldum verði heimilt að senda umsækjenda til ríkis sem hann hefur tengsl við, s.s. þegar maki hans er ríkisborgari þar. Þó er hvorki gerð krafa um að umsækjandi hafi nokkurn tímann komið til þess ríkis né hvort það sé yfirhöfuð framkvæmanlegt að senda hann þangað. Þrátt fyrir það mun fólk vera svipt þjónustu, þ.e. húsnæði, framfærslu og grunnheilbrigðisþjónustu, og mun því að öllum líkindum enda á götunni.
Í umsögn Rauða krossins leggst félagið alfarið gegn þessu ákvæði, enda er ljóst að íslensk stjórnvöld geti ekki ákveðið að senda fólk hvert sem er í heiminum. Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert móttökusamninga fjölda ríkja í heiminum sem veldur því að endursending samkvæmt ákvæðinu getur orðið ómöguleg í framkvæmd. Þessa nálgun skortir mannúð og getur auðveldlega skapað ný vandamál fyrir íslenskt samfélag. Flöskuhálsinn sem þegar er til staðar í kerfinu mun stækka, fólki sem ekki er hægt að flytja úr landi mun fjölga og kerfið mun teppast enn frekar.
Samkvæmt greiningardeild Arion banka bendir flest til þess að langtímaáhrifin af móttöku flóttafólks séu jákvæð, en sú greining fór fram árið 2015. Þó að það sé dýrt og vandasamt verk að taka á móti flóttafólki benda fjölmargar rannsóknir til þess að þegar lengra frá líði séu efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna jákvæð.
Borið hefur á þeim misskilningi að fólk frá Sýrlandi hafi villt á sér heimildir með því að fullyrða það að það komi frá Venesúela og þannig reynt að nýta sér þá aðstöðu að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að veita ríkisborgurum Venesúela vernd hér á landi. Staðreyndin er sú að í Venesúela er stór hópur venesúelskra Sýrlendinga með tvöfalt ríkisfang sem einnig hefur þurft að flýja aðstæður þar í landi, líkt og aðrir íbúar Venesúela. Eðli máls samkvæmt eiga þessir einstaklingar ekki afturkvæmt til Sýrlands. Þó erfitt sé að finna nákvæmar tölur yfir fjölda Venesúelabúa af sýrlenskum uppruna er fjöldinn einhvers staðar á milli 700 þúsund og einnar milljón einstaklinga. Þrátt fyrir að eiga rætur að rekja til Sýrlands eru þetta einstaklingar með venesúelskt ríkisfang.
Algeng hugtök
- Til fólks sem hefur flúið til Íslands frá Úkraínu og sótt hér um vernd.
- Við efnislega meðferð þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd telst ekki flóttamaður en getur þó sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði annars vísað til.
- Þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða frá því að hann lagði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi.
Mannúðarleyfi er veitt til eins árs en ólíkar reglur gilda um endurnýjun eða framlengingu dvalarleyfisins eftir því á hvaða grundvelli leyfið var veitt.
Mannúðarleyfinu fylgir ekki óbundið atvinnuleyfi, sem þýðir að sækja þarf um atvinnuleyfi fyrir hvern atvinnurekanda sem aðili gerir ráðningarsamning við, hjá Vinnumálastofnun.
Ef umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur þegar hlotið vernd í öðru ríki innan Evrópu eða ef hann hefur haft viðkomu annars staðar innan Schengen-svæðisins eru aðstæður í viðkomandi Evrópuríki skoðaðar með tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna umsækjanda. Ef aðstæðum er þannig háttað að ekki teljist öruggt að senda umsækjanda aftur til viðkomandi Evrópuríkis ber íslenskum stjórnvöldum að taka málið til efnislegrar meðferðar hér á landi.
Umsóknir geta því fengið efnislega meðferð á síðari stigum máls, s.s.
- ef íslensk stjórnvöld ákveða með tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna umsækjanda að umsókn hans skuli tekin til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að falla undir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eða umsækjandi hefur þegar hlotið vernd í öðru ríki Evrópu,
- ef mál fellur á þeim tímafresti sem kveðið er á um í lögum um útlendinga eða
- ef fyrri ákvörðun er afturkölluð. Við efnislega meðferð þurfa stjórnvöld að skoða það sérstaklega hvort umsækjandi uppfylli skilyrði þess að hljóta hér alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Hinni svokölluðu Dyflinnarmeðferð er m.a. beitt þegar umsækjandi hefur haft viðkomu í öðru ríki innan Schengen-svæðisins á leið sinni til Íslands, hann hefur fengið útgefna vegabréfsáritun af hálfu annars Schengen-ríkis eða hann hefur þegar lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í öðru ríki. Er íslenskum stjórnvöldum þá heimilt að vísa umsækjanda aftur til þess ríkis.
Dyflinnarreglugerðin kveður því á um að það Schengen-ríki sem umsækjandi um alþjóðlega vernd kemur fyrst til beri ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar hans. Íslensk stjórnvöld beita ekki Dyflinnarreglugerðinni gagnvart einstaklingum sem koma hingað til lands frá Grikklandi og Ungverjalandi og ekki hafa þegar hlotið þar alþjóðlega vernd.