Almennar fréttir

Hvert handtak skiptir máli

19. júlí 2022

Fatasöfnun Rauða krossins á Íslandi hófst fyrir u.þ.b. átta áratugum. Síðan þá hefur fatasöfnun félagsins vaxið mikið og áherslur í verkefninu breyst. Fötum er ekki eingöngu safnað fyrir þá sem þurfa á fatagjöfum að halda, heldur er umhverfisvernd orðin mikilvægur þáttur í verkefninu. Öll endurvinnsla byrjar heima og þar skiptir hvert handtak máli.  

Engin endurvinnsla á fötum án sjálfboðaliða

Fataverkefni Rauða krossins er borið uppi af sjálfboðaliðum og samfélagsþjónum og væri endurvinnsla á fötum ekki möguleg án þeirra. Sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um að tæma söfnunargáma og afgreiða í fataverslunum félagsins um allt land og samfélagsþjónar starfa í fataflokkunarstöðinni í Reykjavík. Eimskip Flytjandi styður við verkefnið með flutningi af landsbyggðinni til flokkunarstöðvar í Reykjavík og til endurvinnsluaðila erlendis. Án þessa stuðnings fellur verkefnið fallið um sjálft sig og endurnýting fata hjá Rauða krossinum yrði ekki möguleg.  

Áskoranir á tímum heimsfaraldurs

Á meðan framboð á ódýrum fatnaði hefur aukist mikið undanfarna áratugi og hefur sjaldan eða aldrei verið eins mikilvægt fyrir samfélög að huga betur að endurnýtingu í þágu umhverfisins.  

Á síðustu tveimur árum höfum við þurft að takast á við nýjar áskoranir í verkefninu vegna áhrifa af Covid 19. Flutningskostnaður hefur hækkað á meðan heimsmarkaðsverð á notuðum fötum hefur lækkað (er rekja má til mikils framboðs af ódýrum fötum). Meðan áhrif heimsfaraldrar voru sem mest gripu nágrannaþjóðir okkar til þess ráðs að brenna eða urða textíl. Á sama tíma vann Rauði krossinn á Íslandi markvisst að því að halda verkefninu gangandi enda um að ræða mikilvægt samfélagslegt verkefni. Til að mynda gefur Rauði krossinn fatnað til skjólstæðinga allt að andvirði 42 milljóna króna árlega. 

19. júlí 2022

Fatagámar Rauða krossins eru fyrir öll föt, skó og textíl en ekki mold eða dekk

Undanfarið hefur Rauði krossinn sannarlega fundið fyrir mikilli velvild í samfélaginu. Sjaldan hefur almenningur gefið eins mikið af fötum. Við finnum fyrir því að almenningur og fyrirtæki vilja gefa föt til flóttafólks sem hingað hefur leitað. 

Rauði krossinn þakkar fyrir allar fatagjafirnar en minnir á að við berum öll ábyrgð á endurnýtingu og að skila í rétta söfnunargáma. Föt sem eru skilin eftir fyrir utan gáma Rauða krossins eru í lang flestum ekki hægt að endurnýta vegna veðurskilyrða á Íslandi.  

Því miður kemur fyrir að hlutir eru settir í fatagáma okkar sem ekki eiga erindi í þangað, t.d. matarafgangar, garðúrgangur, mold og jafnvel hjólbarðar af bílum. Slíkt getur skemmt föt sem annars væri hægt að endurnýta. 

Með stuðningi Eimskips flytur Rauði krossinn árlega um 2800-3000 tonn til endurvinnsluaðila erlendis og nánast allt sem berst í fatagámana er endurnýtt. Eingöngu um 8% er hent, t.d. ef fatnaður hefur blotnað eða rotnað vegna bleytu. 

Þá vill Rauði krossinn biðla til fólks að setja föt í lokaða plastpoka áður þau eru sett í gámana okkar (til að vernda verðmæti). Rauði krossinn endurvinnur allt plast en eingöngu föt, skóbúnaður og textíll á heima í fatagámum okkar.  

Sjaldan verið eins mikil ásókn í fatabúðir Rauða krossins

Þá hefur sala í fatabúðum félagsins aukist mikið það sem af er ári. Ánægjulegt er að segja frá því að sala í verslunum á höfuðborgarsvæðinu er nú á pari við bestu sölu frá árinu 2013 og eins og áður hefur komið fram, er allt okkar starf í fataverkefninu borið upp af sjálfboðaliðum.   

Við hvetjum alla til þess að leggja leið sína í fatabúðir Rauða krossins þar sem hægt er að gera góð kaup, stuðla að umhverfisvernd og styðja við gott málefni í leiðinni en allur hagnaður af verkefninu styður við önnur mannúðarverkefni félagsins.  

Rauði krossinn þakkar landsmönnum fyrir stuðning og samstarf í fataverkefninu.