Almennar fréttir

Sendifulltrúar til starfa vegna átaka í Úkraínu

08. mars 2022

Fimm sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi halda til starfa vegna átakanna í Úkraínu á næstu dögum.

Sendifulltrúarnir eru þau:

Þór Daníelsson, viðskiptafræðingur með meistaragráðu í þróunarfræðum, sem mun sinna björgum og samvinnu á vettvangi. Þór er margreyndur sendifulltrúi og hefur m.a.starfað í Tajikistan, Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu, Zaire vegna aðstoðar við flóttafólk frá Rúanda, Tansaníu og í Mongólíu. Þór verður staðsettur í Búdapest í Ungverjalandi.

Sigríður Björk Þormar, sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur, sem mun samræma aðgerðir tengdar sálrænum stuðningi. Sigríður Björk hefur starfað fyrir hönd Rauða krossins á Haítí og í Bosníu, starfað fyrir svæðaskrifstofu Rauða krossins í Asíu vegna Covid-viðbragða og verið leiðbeinandi í sálrænum stuðningi m.a. í Malaví, Úganda, Simbabve, Indónesíu og víða um Evrópu. Sigríður Björk verður staðsett í Búdapest í Ungverjalandi.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir deildarstjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins með meistaragráðu í neyðarstjórnun sem mun sinna starfi á sviði samfélagslegrar þátttöku og ábyrgð (Communication Engagement & Accountability). Þóra Kristín hefur starfað sem sjálfboðaliði og starfsmaður með Rauða krossinum í fjölda ára, m.a. sem skyndihjálparleiðbeinandi. Hún verður staðsett í Ungverjalandi.

Karl Júlíusson afbrotafræðingur hefur starfað fyrir öryggisteymi Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) í Genf síðan 2006 og komið að öryggismálum fyrir hreyfinguna víðsvegar um heiminn. Karl mun starfa innan Úkraínu fyrir hönd Alþjóðasambandsins.

Jordi Cortes er með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum með áherslu á viðbrögð í neyðaraðgerðum. Hann mun starfa sem sendifulltrúi á sviði verndar, jafnréttis og þátttöku án aðgreiningar (Protection, Gender and Inclusion). Jordi lauk nýverið fræðsluverkefni Rauða krossins á Íslandi og Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) á sviði verndar og jafnréttis í neyðaraðgerðum. Jordi hefur komið að verkefnum Rauða krossins á Íslandi frá hausti 2019 er hann kom til starfa sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu í félagslegum stuðningi við flóttafólk. Jordi mun ekki vera með fasta starfsstöð heldur starfa þar sem hans er þörf hverju sinni.

Líklegt er að fleiri sendifulltrúar muni fara til starfa á næstu vikum og mánuðum, en auk vinnuframlags þeirra hefur nú þegar safnast um 34 milljónir króna í neyðarsöfnun Rauða krossins og utanríkisráðuneytið hefur styrkt starfsemi Rauða krossins um samtals 95 milljónir króna.

Alþjóðahreyfing Rauða krossins er að störfum bæði í Úkraínu og nágrannalöndum og hefur m.a. sett upp bráðabirgðahúsnæði við landamæri og sjálfboðaliðar dreifa til flóttafólks matvælum, vatni, teppum og öðrum nauðsynjavörum auk þess að veita læknishjálp og sálrænan stuðning. Rauði krossinn leggur mikla áherslu á að deiluaðilar virði alþjóðleg mannúðarlög, hlífi óbreyttum borgurum og tryggi öruggar flóttaleiðir sem og að hjálparsamtök geti komið með lífsnauðsynleg hjálpargögn til þolenda átakanna.

Undanfarna daga hefur verið samið um vopnahlé milli aðila svo að óbreyttir borgarar geti komist frá borginni Maríupol, en ekki hefur verið staðið við það. Rauði krossinn er að störfum í Maríupol við afar erfiðar aðstæður og er reiðubúinn að aðstoða ef samkomulag næst, en aðstæður verða að vera tryggar fyrir bæði Rauða krossinn og óbreytta borgara.