Hjálparsíminn 1717 og netspjall 1717.is
Hjálparsíminn 1717
Hjálparsíminn er alltaf opinn, trúnaði og nafnleynd er heitið og hann er ókeypis.

Jarðhræringar á Reykjanesi
Gagnlegir hlekkir vegna jarðhræringa á Reykjanesi
Athugið
Af öryggisástæðum er ekki lengur hægt að hringja í 1717 úr leyninúmeri. Við viljum minna á að öll samtöl 1717, bæði í síma og á netspjalli fara fram í nafnleynd og trúnaði.
Líðan og bjargráð í náttúruvá
Í ástandi eins og Grindvíkingar búa við núna þegar rýming er afstaðin og neyðarástand ríkir á svæðinu er viðbúið að fólk finni fyrir alls konar tilfinningum. Það er óþægilegt að finna fyrir vanmætti sínum gagnvart náttúrunni. Að búa við þá óvissu sem nú ríkir tekur á og þá er sérstaklega mikilvægt að huga að líðan sinni.
Þegar þú upplifir náttúruhamfarir gætirðu:
- fundist þú líkamlega og andlega örmagna
- átt erfitt með að taka ákvarðanir eða einbeita þér
- orðið auðveldlega pirruð/pirraður eða uppstökk/uppstökkur
- fundið fyrir þreytu, sorg, dofa, einmanaleika eða haft áhyggjur
- fundið fyrir breytingum á matarlyst eða svefnmynstri
- Mörg sveiflast í tilfinningum og líður mismunandi eftir atvikum
Það sem þú getur gert:
Reyndu að einbeita þér að því að hafa stjórn á því sem möguleiki í aðstæðunum.
Hugaðu að næringu, hvíld og hreyfingu, þannig söfnum við orku.
Vertu í sambandi við fjölskyldu og vini. Að veita og fá stuðning er það mikilvægasta sem þú getur gert.
Vertu þolinmóð/ur við sjálfa/n þig og þau sem eru í kringum þig. Jarðhræringar sem þessar hafa mismikil áhrif á fólk en mörg gætu þurft smá tíma til að koma tilfinningum sínum í orð og ná tökum á hugsunum sínum.
Sýndu þér mildi, það er eðlilegt að finna fyrir allskonar tilfinningum við þessari aðstæður.
Reyndu að forgangsraða því sem þarf að gera og takast á við þau verkefni í litlum skrefum.
Ef þú finnur að streita og vanlíðan eru yfirþyrmandi og óviðráðanleg yfir lengri tíma þá geturðu leitað frekari aðstoðar í heilbrigðiskerfið.
BÖRN OG NÁTTÚRUVÁ
Börn upplifa erfið atvik á annan hátt en fullorðnir. Að upplifa náttúruvá getur orðið til þess að börn verða hrædd, ringluð og óörugg, sérstaklega ef þessi reynsla er ekki þeirra fyrsta.
Börn geta ekki alltaf talað um áhyggjur sínar og birtast þær því stundum í hegðun barns. Sum bregðast strax við; önnur geta sýnt áhyggjur vikum eða mánuðum síðar. Það getur hjálpað foreldrum að þekkja merkin og bregðast við í samræmi við það.
- Þau geta verið æstari eða sýnt aðra breytingu á hegðun
- Þau geta verið hændari að okkur, verið viðkvæm eða grátið oft
- Þau gætu þurft meiri athygli eða hughreystingu frá fullorðnum sem þau treysta, mikilvægt er að fullorðnir reyni að sýna stillingu, börn fylgjast með viðbrögðum þeirra og álykta hættu út frá því.
Hér eru nokkur ráð varðandi hvernig hægt er að tala við börn:
- Veitið börnum tækifæri til að tala
- Leyfðu börnunum að ræða ótta sinn og áhyggjur
- Spurðu þau hvað þau vilja vita
- Ekki vera hrædd/ur við að viðurkenna að þú hafir ekki öll svörin
- Svaraðu spurningum sem henta aldri þeirra og af heiðarleika
- Minnum okkur og þau á að landið okkar býr yfir þessum mikla krafti og kerfin okkar vinna að því að vernda okkur og finna leiðir. Við lærum inn á viðbrögð og bjargir og tökumst á við þetta saman.
Um 1717
Ekkert vandamál er of lítið eða stórt fyrir Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins en árlega berast um 15 þúsund erindi til 1717 sem eru jafn ólík og þau eru mörg. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sjá um að svara þeim samtölum sem 1717 berast. Hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálfélagslegan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru í íslensku samfélagi. Mikilvægt er að hafa í huga að ráðgjöf og þjónusta 1717 er ekki ætlað að koma í stað meðferðar hjá fagaðila.
Dæmi um erindi sem koma inn til Hjálparsímans:
- Einmanaleiki, þunglyndi, kvíði, sjálfsvígshugsanir og sjálfskaði
- Átraskanir, geðraskanir, sorg og áföll
- Fjármál, námsörðugleikar, húsnæðisvandamál og atvinnuleysi
- Rifrildi og samskipti, ástarmál, fordómar
- Barnaverndarmál
- Kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi og einelti
- Heilbrigðisvandamál, neysla, fíknivandi
- Kynferðismál, kynlíf, getnaðarvarnir, kynsjúkdómar
Þessi listi er á engan hátt tæmandi og hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálfélagslegan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru í íslensku samfélagi.
Gott að vita
- Við getum séð hvað þú skrifar áður en þú sendir textann.
- Vinsamlega veldu tungumál til að hefja spjall.
- Trúnaði og nafnleynd er heitið.
- Ef þú færð ekki svar fljótlega eftir að þú tengist þá bjóðum við þér að hinkra eftir næsta lausa ráðgjafa, stundum er mikið að gera.
Viltu verða sjálfboðaliði í verkefninu?
Við leitum að sjálfboðaliðum 23 ára og eru færir í samskiptum.

Algengar spurningar
Það er opið alla daga ársins, allan sólarhringinn. Þannig er alltaf einhver til að svara bæði símanum og netspjallinu, hvenær sólarhringsins sem það kann að vera.
Sjálfboðaliðar sinna að mestu svörun en allir sem svara hafa farið í gegnum yfirgripsmikil námskeið að því sem snýr að störfum 1717 s.s. sálrænan stuðning, virka hlustun og viðbrögð við mismunandi aðstæðum.
Sjálfboðaliðar veita öllum þeim sem hafa samband virka hlustun, sálrænan stuðning og upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði á Íslandi.
Já, og það þarf ekki að hafa inneign á símanum sínum heldur. Til að hafa samband við netspjallið þarf maður bara að vera tengdur við netið.
Já, ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.
Á hverju ári berast 1717 um 15 þúsund erindi. Um 12 þúsund þeirra er í gegnum síma og 3000 í gegnum netspjallið.
Já, allir sjálfboðaliðar og starfsfólk 1717 hafa skrifað undir trúnaðarsamning þess efnis. Í algjörum undantekningum þarf þó að hafa samband við barnaverndaryfirvöld t.d. ef einstaklingur undir 18 ára aldri verður fyrir ofbeldi af hálfu einhvers á sínu heimilinu, en 1717 er skylt að gera það eins og öðrum, samkvæmt barnaverndarlögum. Einstaklingnum er alltaf gerð grein fyrir því að haft verði samband við barnavernd og hvers vegna það er nauðsynlegt.
Þau er eins ólík og þau eru mörg. Algengustu erindin snúa að sálrænum vandamálum en svo eru félagsleg vandamál og kynferðismál einnig algeng.
Já, allir sjálfboðaliðar hafa aðgang að sálfræðingi Rauða krossins og svo sækja þeir reglulegar handleiðslur sem sálfræðingur stýrir.
Við erum með tvær starfsstöðvar á landinu en til að virða nafnleyndina og trúnaðinn, sem gengur í báðar áttir, getum við ekki gefið upp hvar þær eru.
Nei, til að vernda trúnaðarupplýsingar eru persónugreinanlegar upplýsingar aldrei teknar niður frá þeim sem hafa samband nema viðkomandi þurfi á hjálp að halda (t.d. sjúkrabíl) og gefi sérstaklega leyfi fyrir því.
23 ára
Stundum myndast álagstoppar en við reynum að svara öllum símtölum og spjöllum eins fljótt og hægt er. Lendir þú í erfiðleikum við að ná í gegn, hvetjum við þig til að bíða eða reyna aftur síðar. Í neyðartilfellum hafið samband við 112, einnig viljum við benda á Píeta samtökin, s. 552-2218 varði erindið sjálfsvíg eða sjálfsvígshugsanir.
Hægt er að hringja gjaldfrjálst í númerið +354 580 1710, þar gilda sömu reglur um trúnað og nafnleynd.
Árið 2022
Tilkynna til ábendingalínu Barnaheilla
Hér er hægt að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu sem varðar börn eða er beint gegn börnum og unglingum undir 18 ára aldri.
Persónuupplýsingar sem gefnar eru í tilkynningum til Ábendingalínunnar eru meðhöndlaðar í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Um Hjálparsíma Rauða krossins 1717
Um 95 manna hópur sjálfboðaliða starfar við símsvörun og spjall hjá Hjálparsímanum 1717 og netspjalli Rauða krossins. Allir sjálfboðaliðar hafa farið í gegnum yfirgripsmikla fræðslu, námskeið og þjálfun áður en þeir byrja og er reglulega boðið upp á handleiðslu og fræðslufundi um málefni tengd Hjálparsímanum. Hjálparsíminn veitir virka hlustun og ráðgjöf um samfélagsleg úrræði til fólks á öllum aldri sem þarf á stuðningi að halda, t.d. sökum þunglyndis, kvíða eða sjálfsvígshugsana. Auk þess veitir Hjálparsíminn sálrænan stuðning og ráðgjöf til þeirra sem telja að brotið hafi verið á sér á internetinu. Hlutverk Hjálparsímans 1717 er því mjög víðtækt í þeim skilningi að vera til staðar fyrir alla þá sem þurfa að ræða sín hjartans mál í trúnaði og einlægni við hlutlausan aðila og má segja að ekkert sé Hjálparsímanum óviðkomandi.
Hjálparsíminn er í samstarfi við ýmsar stofnanir og samtök bæði innanlands og utan. Má þar nefna Landlæknaembættið, Neyðarlínuna, Geðhjálp, Barnaheill, Heimili og skóla og svona mætti lengi telja.
Þá er Hjálparsíminn félagi í alþjóðlegu hjálparlínusamtökunum CHI (Child Helpline International). Auk þess er Hjálparsíminn aðili að Saft, þ.e. vakningarátaki um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi.
Þá gegnir Hjálparsími Rauða krossins 1717 hlutverki sem upplýsingasími þegar neyðarástand varir, s.s. í jarðskjálftum eða eldgosum þegar rýma þarf stór svæði. Þar eru m.a. veittar upplýsingar til aðstandenda sem spyrjast fyrir um afdrif skyldmenna og vina.
