Grunngildi okkar
Rauði krossinn á Íslandi starfar eftir 7 grunngildum sem endurspegla gildi og störf Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Þau hafa verið hreyfingunni leiðarljós í rúmlega hálfa öld og byggja á lögum hennar.
Mannúð
Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sem spratt upp af löngun til að veita þeim sem særst höfðu á orrustuvelli hjálp án manngreinarálits, reynir með alþjóðlegu starfi og starfi landsfélaga að koma í veg fyrir og létta þjáningar fólks hvar sem það er statt. Tilgangur hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hún vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða
Mannúð er það gildi sem félagið setur ofar öllu.
Óhlutdrægni
Hreyfingin gerir engan mun á milli manna eftir þjóðerni þeirra, uppruna, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Hún reynir að draga úr þjáningum einstaklinga og tekur þá eingöngu tillit til þarfa hvers og eins en veitir forgang þeim sem verst eru staddir.
Óhlutdrægni er ein mikilvægasta undirstaða þess þegar kemur að því að standa vörð um mannréttindi, mannúðarlög og réttindi fólks á flótta. Engum einstaklingum er meinað um þjónustu sé þörfin til staðar og gerðar eru ráðstafanir svo tryggja megi að stuðningur sé veittur þeim sem hann þurfa og samkvæmt forgangsröðun.
Hlutleysi
Svo að hreyfingin megi áfram njóta almenns trausts, skal hún gæta hlutleysis í ófriði og aldrei taka þátt í deilum vegna stjórnmála, uppruna, trúarbragða eða hugmyndafræði.
Hreyfingin tekur ekki undir neinum kringumstæðum afstöðu í ræðu, riti eða aðgerðum. Hlutleysi tryggir hreyfingunni trúverðugleika og stuðning allra haghafa svo unnt sé að veita mannúðaraðstoð til þeirra sem á þurfa að halda. Það er lykilforsenda að allir aðilar í átökum skilji og virði hlutverk Rauða krossins í mannúðarstarfi.
Sjálfstæði
Hreyfingin er sjálfstæð. Þótt landsfélög veiti aðstoð í mannúðarstarfi stjórnvalda og lúti lögum lands síns, verða þau ætíð að varðveita sjálfstæði sitt svo þau geti starfað í samræmi við grundvallarmarkmið hreyfingarinnar.
Hreyfingin hefur eftir fremsta megni ekki afskipti af stjórnmálum, samfélagslegri hugmyndafræði eða öðru sem kann að stangast á við grunngildi mannúðar, óhlutdrægni og hlutleysis.
Sjálfboðin þjónusta
Hreyfingin er borin uppi af sjálfboðnu hjálparstarfi og lætur aldrei stjórnast af hagnaðarvon.
Grunngildi um sjálfboðna þjónustu táknar þann hvata sem sameinar öll þau er starfa fyrir hreyfinguna: viljann til að láta gott af sér leiða í þágu mannúðarstarfa. Mannauður hreyfingarinnar stýrist ekki af hagnaðarvon heldur skuldbindingu sinni og vilja til að sinna mannúðarstarfi í þágu betri heims. Sjálfboðaliðar eru ein stærsta auðlind hreyfingarinnar.
Eining
Í hverju landi má aðeins vera eitt landsfélag Rauða krossins eða Rauða hálfmánans. Það skal vera öllum opið og vinna mannúðarstarf um landið allt. Með því tryggjum við skilvirkni og forðumst núning og misskilning. Rauði krossinn á Íslandi er virkur um allt land og styður við öflugt starf í nærsamfélagi. Það þýðir ekki að verkefnin skuli vera eins um allt land heldur taka mið af svæðisbundnum þörfum hverju sinni.
Alheimshreyfing
Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans nær um heim allan og öll landsfélög hafa jafnan rétt og ábyrgð og sömu skyldur til gagnkvæmrar hjálpar. Það er einn helsti styrkur hreyfingarinnar. Þetta þýðir einnig að landsfélögum ber að styðja við uppbyggingu annarra landsfélaga og vinna saman að almannahagsmunum.