Almennar fréttir

Ástandið í Sýrlandi

14. nóvember 2019

Alþjóðaráð Rauða krossins lýsir þungum áhyggjum vegna óvirkrar vatnsdælustöðvar. Íslenskur sendifulltrúi að störfum.

Þrátt fyrir að sviðsljós heimsins hafi aftur dvínað á átökin í Sýrlandi situr fólk enn eftir í erfiðum aðstæðum. Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu mála í norðaustur Sýrlandi en ein mikilvægasta vatnsdælustöðin í nágrenni Hasakeh hefur verið lokað. Vanalega þjónar dælustöðin um 400.000 manns en hefur nú ekki verið virk síðan 30. október sl. Alþjóðaráðið og sýrlenski Rauði hálfmáninn (SARC) hafa gripið til neyðaraðgerða til að finna aðra vatnsveitu fyrir fólk á svæðinu, en aðgerðir þeirra í Sýrlandi eru þær umfangsmestu í öllum heiminum í dag.

„Það er brýnt að við finnum lausn á yfirvofandi vatnsskorti. Vatnsdælustöð sem þjónar 400.000 manns er mikilvægur hluti innviða sem þarf að vera í lagi. Þetta er annað dæmi um óbreytta borgara sem taka ekki þátt í átökunum en þjást vegna þeirra“ segir Fabrizio Carboni, svæðisstjóri ICRC í nær- og mið-Austurlöndum. „Við skorum á alla aðila að tryggja öruggan aðgang að nauðsynlegum viðgerðum.“

Alþjóðleg mannúðarlög eiga að tryggja grunnþarfir óbreyttra borgara, jafnvel á tímum átaka. Í norðaustur Sýrlandi eru innviðirnir (t.d. vatnsstöðvar og stíflur) fyrir vatnsveitukerfi staðsett nálægt átakasvæðum og mikilvægt að þeir séu verndaðir.

https://youtu.be/dCWBjvWZMOM

Rauði krossinn fylgist með ástandinu og hefur brugðist við til að áhrifin af vatnsskorti verði sem minnst. Í byrjun nóvember dreifði Rauði krossinn samtals 460.000 lítrum af drykkjarvatni og studdi við Al Hol búðirnar, Areesha búðirnar, miðstöðvar fyrir flóttafólk í Hasekah-borg og fangelsi.

Rauði krossinn hvetur alla deiluaðila til að virða líf borgara og taka til allra mögulegra ráðstafana til að vernda og virða borgara og innviði samfélaga og leyfa fólki að komast í skjól sem vill flýja átakasvæðin.

\"Elinodds---3-\"

Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við aðgerðir Alþjóðaráðs Rauða krossins og sýrlenska Rauða hálfmánans í Sýrlandi með stuðningi Mannvina Rauða krossins og utanríkisráðuneytisins, m.a. með störfum sendifulltrúa auk fjármagns. Elín Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur sem er margreyndur sendifulltrúi er að störfum í Sýrlandi fyrir Alþjóðaráðið og verður næstu 3 mánuði á vettvangssjúkrahúsi Rauða krossins í Al Hol búðunum.

Til þess að styðja við lífsbjargandi starf Rauða krossins í Sýrlandi er hægt að senda sms-ið HJALP í 1900 og 2900 krónur verða dregnar af símreikningi.

Einnig er hægt að leggja inn á reikning 0342 – 26 – 12, kt. 530269-2649 eða nota Kass.

Söfnun Rauða krossins lýkur þann 1. desember nk.