Almennar fréttir

Fataverkefni Rauða krossins vinnur þrekvirki á tímum heimsfaraldurs

26. ágúst 2021

Fatasöfnun Rauða krossins hefur glímt við margvíslegar áskoranir allt frá upphafi heimsfaraldursins Covid 19 en starfseminni hefur verið haldið gangandi allt frá upphafi heimsfaraldursins. Nú er þó svo komið að Rauði krossinn vill biðla til allra landsmanna að leggja sitt af mörkum og taka þátt í þessu mikilvæga samfélagsverkefni með okkur.

Rauði krossinn á Íslandi tekur á móti fatnaði um allt land í þar til gerðum söfnunargámum og selur föt til erlendra endurvinnsluaðila og í verslunum sínum víðsvegar um landið. Þar á meðal eru fjórar verslanir á höfuðborgarsvæðinu, í Kringlunni, á Hlemmi, Mjódd og Laugavegi 12. Einnig eru verslanir víða á landsbyggðinni, t.d. á Akureyri, Egilstöðum og Borgarnesi. Þá úthlutar Rauði krossinn fatnaði til einstaklinga sem á þurfa að halda.

Fatasöfnun Rauða krossins hefur glímt við margvíslegar áskoranir allt frá upphafi heimsfaraldursins Covid 19. Mikið hefur safnast í fatagáma okkar þar sem margir nýta tíma heima til þess að taka til í skápunum. Við erum sannarlega þakklát fyrir allan þann stuðning því fataverkefni Rauða krossins er ein mikilvægasta fjáröflun félagsins. Í verkefninu er stólað á vinnuframlag sjálfboðaliða og samfélagsþjóna en allt frá upphafi heimsfaraldursins hefur stórlega fækkað í þeim hópi sem hefur haft mikil áhrif á verkefnið, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma hefur ekkert lát orðið á því magni sem okkur berst auk þess sem endurvinnsluaðilar gera sífellt auknar kröfur um flokkun. Öll grunnflokkun textíls er mjög mannaflafrek sem er mikil áskorun á tímum heimsfaraldurs, bæði í fataverkefni Rauða krossins og hjá endurvinnsluaðilum erlendis.

\"MicrosoftTeams-image_1629901324557\"

Þrátt fyrir manneklu er unnið mikið þrekvirki í fataverkefninu á hverjum degi. Starfseminni hefur verið haldið gangandi allt frá upphafi heimsfaraldursins. Allt sem safnast er endurnýtt hjá Rauða krossinum, á sama tíma og önnur lönd hafa þurft að brenna eða urða textíl.

Heimsfaraldurinn hefur þannig haft margvísleg áhrif á endurvinnslu á fötum í heiminum. Til að mynda hefur eftirspurn eftir notuðum fötum minnkað þar sem færri leggja leið sína í búðir og færri starfsmenn hafa sinnt flokkun. Allt sem skilað hefur verið í söfnunargáma Rauða krossinn á tíma heimsfaraldursins hefur þó verið endurnýtt. Rauði krossinn hefur því getað komið í veg fyrir urðun eða brennslu á allt að 3.000 tonnum af textíl árlega á Íslandi. Fataverkefni Rauða krossins er því mjög mikilvægur hlekkur í umhverfisvernd á Íslandi.

\"MicrosoftTeams-image-3-_1629903979244\"

Nú er þó svo komið að Rauði krossinn vill biðla til allra landsmanna að leggja sitt af mörkum og taka þátt í þessu mikilvæga samfélagsverkefni með okkur. Í fyrsta lagi er mikilvægt að muna skila fötum í lokuðum pokum í fatagáma okkar. Ef söfnunargámur er fullur, þá þarf að fara með fötin í næsta söfnunargám og alls ekki skilja fötin eftir fyrir framan þar sem þau eyðileggjast. Í manneklu eins og nú er reynir líka á starfsfólk Rauða krossins að tæma alla gáma. Við biðlum því til allra að vinna með okkur í þessu verkefni með því að ganga vel um gámana. Í öðru lagi er vert að minna á að fatagámar okkar eru eingöngu fyrir föt, textíl og skó en ekki t.d. heimilisrusl eða matarleifar. Hér er þó rétt að minna á að við tökum á móti fötum, textíl og skóm óháð ástandi, þ.e. við tökum einnig á móti því sem er götótt og slitið sem fer þá til endurvinnslu í stað áframhaldandi notkunar. Í þriðja lagi hvetjum við alla að styðja við endurvinnslu í verki og kíkja við í verslunum Rauða krossins þar sem margvíslegar gersemar er að finna. Allur hagnaður rennur beint til mannúðarstarfs félagsins bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi.

Síðast en ekki síst er hægt að gerast sjálfboðaliði í fataverkefni Rauða krossins, hvort heldur sem er í verslunum eða í flokkunarstöð okkar í Reykjavík.