Almennar fréttir

Heimurinn er ekki tilbúinn fyrir annan faraldur, samkvæmt Alþjóðasambandi Rauða krossins

01. febrúar 2023

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans gaf út tvær tímamótaskýrslur á mánudag þar sem fjallað er um árangur og áskoranir í viðbragðinu við COVID-19 heimsfaraldrinum og hvernig ríki geta undirbúið sig fyrir næsta alþjóðlega neyðarástand í heilbrigðismálum.

COVID-19 heimsfaraldurinn ætti að vekja alþjóðasamfélagið til vitundar um mikilvægi þess að búa sig undir næsta neyðarástand í heilbrigðismálum, samkvæmt Jagan Chapagain, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Enginn jarðskjálfti, þurrkur eða fellibylur í mannkynssögunni hefur kostað fleiri mannslíf en COVID-19 heimsfaraldurinn, samkvæmt Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC), fjölmennustu mannúðar- og viðbragðshreyfingu heims. Hinn átakanlegi fjöldi látinna – sem áætlað er að sé yfir 6,5 milljónum - hefur hvatt Rauða krossinn til að meta hvernig ríki geta undirbúið sig fyrir næsta alþjóðlega neyðarástand í heilbrigðismálum.

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans gaf út tvær tímamótaskýrslur á mánudag sem heita „Hamfarir í heiminum“ (e. World Disasters Report) og „Allir skipta máli“ (e. Everyone Counts Report). Þær veita innsýn inn í árangur og áskoranir síðustu þriggja ára og leggja fram tillögur um hvernig þjóðarleiðtogar geta mætt hamförum af þessari stærðargráðu í framtíðinni.

Jagan Chapagain, framkvæmdastjóri IFRC, segir:

„COVID-19 heimsfaraldurinn ætti að vekja alþjóðasamfélagið til vitundar um mikilvægi þess að búa sig undir næsta neyðarástand í heilbrigðismálum. Okkar tillögur til leiðtoga heimsins snúast um að byggja upp traust, draga úr ójöfnuði og nýta staðbundna aðila og nærsamfélög til að sinna lífsbjargandi starfi. Næsti heimsfaraldur gæti verið handan við hornið; ef reynslan af COVID-19 dugar ekki til að hvetja okkur til að vera tilbúin, hvað gerir það þá?“ segir Jagan Chapagain framkvæmdastjóri Alþjóðasamband Rauða krossins.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, tekur undir orð kollega síns og bætir við að „hér á Íslandi sjáum við hvað það skiptir miklu máli að rétt sé brugðist við þegar svo umfangsmiklar og óþekktar ógnir steðja að. Við hjá Rauða krossinum gátum veitt stjórnvöldum og þar með almenningi mikilvægan stuðningi og tekið vel á móti fólki sem hafði verið sett í sóttkví og/eða einangrun. En það er ekki sjálfgefið að svo sé hægt, langur undirbúningur lá að baki slíkri vinnu þar sem Rauði krossinn nýtti sér reynslu úr alþjóðlegu hjálparstarfi sem og öllu innanlandsstarfi til að þjálfa upp bæði starfsfólk og sjálfboðaliða sem öll veittu að auki öflugan sálrænan stuðning á miklum óvissutímum.“

Rauði krossinn á Íslandi gegndi stoðhlutverki í baráttunni við faraldurinn frá upphafi hans með sálfélagslegum stuðningi í gegnum Hjálparsímann 1717 og önnur félagsleg verkefni (t.d. símavini), aðstoð við smitrakningu og síðast en ekki síst rekstri farsóttarhúsa, en þar dvöldu 15.060 manns, þar af 9789 í sóttkví og 5271 í einangrun.

Í víðara samhengi hefur Alþjóðasambandið í heild sinni náð til meira en 1,1 milljarðs manna síðustu þrjú árin til að hjálpa þeim að verjast veirunni. Á þessu tímabili kom mikilvægi trausts ítrekað í ljós. Þegar fólk treysti öryggisskilaboðum var það tilbúið að fylgja lýðheilsuráðstöfunum sem stundum skildu það frá ástvinum sínum til að hægja á útbreiðslu sjúkdómsins og bjarga mannslífum. Á sama hátt var aðeins hægt að bólusetja milljónir á mettíma þegar flest treystu því að bóluefnin væru örugg og áhrifarík.

Þau sem bregðast við krísum geta ekki beðið með að byggja upp traust þangað til næst. Það verður að rækta það með samskiptum sem eru raunverulega tvíhliða, með nálægð og með stöðugum stuðningi til lengri tíma.

Við skýrslugerðina skjalfestu teymi Rauða krossins og Rauða hálfmánans hvernig COVID-19 heimsfaraldurinn bæði þreifst á og jók ójöfnuð. Slæm hreinlætisaðstaða, þéttbýli, skortur á aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu og vannæring skapa skilyrði þar sem sjúkdómar breiðast út hraðar og fara víðar. Heimurinn verður að takast á við ójöfnuð varðandi heilbrigðisþjónustu og félagslega og efnahagslega stöðu löngu áður en næsta krísa skellur á.

Í skýrslunni „Allir skipta máli“ - sem byggir á könnun sem var lögð fyrir landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í næstum öllum löndum heims - komst IFRC að þeirri niðurstöðu að teymi gátu brugðist hratt við heimsfaraldrinum vegna þess að þau voru þegar til staðar í nærsamfélögum og mörg þeirra höfðu sinnt undirbúningi, höfðu fyrri reynslu af því að bregðast við farsóttum og veittu yfirvöldum á sínu svæði öflugan stuðning.

„Félagasamtök eru óaðskiljanlegur hluti af viðbúnaði og viðbrögðum við heimsfaraldri. Sem viðbragðsaðilar í fremstu víglínu hafa hjálparsamtök úr nærumhverfinu og samfélög ólíkum en jafn mikilvægum hlutverkum að gegna á öllum stigum baráttunnar gegn farsóttum. Það þarf að nýta staðbundna þekkingu þeirra til að auka traust, aðgengi og seiglu,“ segir Chapagain.

„Þetta hafa verið mjög erfið þrjú ár, en við gefum  út þessar rannsóknir og komum með tillögur í þágu vonar: Alheimssamfélagið getur lært af þessari reynslu og verið betur undirbúið fyrir næsta neyðarástand í heilbrigðismálum.“

„Við hjá Rauða krossinum viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að aðstoða stjórnvöld við að styrkja innviði þannig að við getum tekist á við ógnir af þessari stærðargráðu. Í því augnamiði stefnum við að því að samþætta enn frekar okkar alþjóðlegu viðbrögð við neyðarviðbrögð hér innanlands á þann hátt að allt það fólk sem starfar á vettvangi Rauða krossins á átaka- og hamfarasvæðum erlendis geti einnig starfað á Íslandi þegar hættu- og almannavarnarástand varir hér á landi,“ bætir Kristín við.

Í skýrslunni „Hamfarir í heiminum“ er talað fyrir sex nauðsynlegum aðgerðum til að bæta undirbúning fyrir neyðarástand í heilbrigðismálum í framtíðinni. Í „Allir skipta máli“ skýrslunni er þörfin fyrir nákvæm og viðeigandi gögn í viðbúnaði og viðbrögðum við heimsfaraldri undirstrikuð. Báðar skýrslurnar eru nú aðgengilegar almenningi.