Almennar fréttir

Samantekt á útköllum Rauða krossins 2018

26. febrúar 2019

Mikill fjöldi sjálfboðaliða tók þátt í fjölda útkalla á árinu

Yfirlit yfir útköll viðbragðsteyma Rauða krossins árið 2018 hefur nú verið gefið út. Í yfirlitinu kemur fram að mikill fjöldi sjálfboðaliða tók þátt í starfi félagsins á árinu í fjölda útkalla. Alls voru 347 sjálfboðaliðar kallaðir út samkvæmt samantektinni í 142 útköll. Ástæður útkallanna geta verið margar og mismunandi og má þar t.d. nefna útköll vegna sjálfsvígstilrauna, andláta, slysa, einstaklinga í leit að alþjóðlegri vernd, bruna og óveðra. Aðstoð sjálfboðaliða Rauða krossins í slíkum útköllum er einkum sálrænn stuðningur eða áfallahjálp, eftirfylgd og tilvísun en í einhverjum tilfellum snýst aðkoman einnig um grunnþarfir eins og fæði, klæði og húsaskjól.

Af samantektinni er ljóst að fjölbreytt og öflugt starf sjálfboðaliða Rauða krossins getur skipt sköpum fyrir einstaklinga sem lenda í skyndilegu áfalli, slysi eða óhappi. Sjálfboðaliðar Rauða krossins eru þjálfaðir í því að veita áfallahjálp og sálrænan stuðning þegar á þarf að halda. Rauði krossinn vill þakka sjálfboðaliðunum kærlega fyrir vel unnin störf á árinu 2018 og vonast til þess að gjöfult starf sjálfboðaliðanna haldi áfram næstkomandi ár.

Mánaðarleg framlög Mannvina Rauða krossins eru mikilvægur þáttur í að gera félaginu kleift að sinna þessu mikilvæga starf. Hægt er að gerast Mannvinur Rauða krossins með því að kynna sér málið og skrá sig hér.

Hægt er að nálgast yfirlit yfir útköll Rauða krossins árið 2018 hér.