Almennar fréttir

Skyndihjálparmaður ársins 2019

11. febrúar 2020

Hilmar Elísson er skyndihjálparmaður ársins 2019!

Rauði krossinn útnefndi í dag Hilmar Elísson sem skyndihjálparmann ársins 2019.

Hilmar hefur um nokkurt skeið verið í karlaþreki í World Class í Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Eftir æfingar fara þeir gjarnan í pottinn en Hilmar ákvað að taka auka sundsprett einn janúardag í fyrra áður en hann slakaði á í pottinum. Þegar hann var kominn í dýpri enda laugarinnar sá hann mann á botninum. Hann hugsaði með sér að mögulega væri hann að kafa en ákvað að athuga nánar með hann. Hilmar ýtti við manninum sem sýndi engin viðbröð. Hilmar fór þá aftur niður, greip í manninn og togaði upp en þá var maðurinn alveg líflaus.

Hilmar kallaði á fleiri til að aðstoða sig við að ná manninum upp á bakkann. Annar maður hóf endurlífgun meðan Hilmar hljóp og lét hringja á 112. Með Hilmari í karlaþrekinu er margreyndur slökkviliðsmaður sem var í pottinum þegar atburðarásin fór af stað en hann tók yfir endurlífgunina. Hilmar segir að það hafi tekið rúma mínútu að fá lífsmark í manninn aftur. Sjúkrabíllinn var fljótur á leiðinni og Hilmar ákvað að klára sundið þegar aðrir höfðu tekið við.

Hilmar vill ekki gera mikið úr sínum þætti í þessu, hann hafi einfaldlega verið á réttum stað á réttum tíma og margir hafi komið að björguninni.

Eftir þetta kenndu tveir meðlimirnir í karlaþrekinu hinum skyndihjálp, en þeir eru skyndihjálparleiðbeinendur. Hilmar sjálfur hefur nokkrum sinnum yfir ævina lært skyndihjálp. Skyndihjálp þarf að rifja reglulega upp, a.m.k. á tveggja ára fresti.

Skyndihjálp getur skilið milli lífs og dauða. Það verður aldrei ítrekað nógu oft hversu mikilvæg skyndihjálp er og hversu mikilvægt það er að bregðast við þegar fólk sér eitthvað óeðlilegt og kanna aðstæður.

Hægt er að taka bóklega hluta skyndihjálpar á ókeypis vefnámskeiði á namskeid.raudikrossinn.is

Tveir aðrir munu hljóta viðurkenningar fyrir skyndihjálparafrek árið 2019.

 

Huginn Hilmarsson, sonur Hilmars veitti viðurkenningu viðtöku fyrir hönd föður síns sem er staddur erlendis.