Alþjóðastarf
Fundur með forsvarsfólki Rauða krossins í Úkraínu
06. maí 2022
Í gær fundaði Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins á Íslandi, með framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra Rauða krossins í Úkraínu. Fundurinn var liður í fimm daga vettvangsferð landsfélaga Rauða krossins sem styðja mannúðaraðgerðir á svæðinu, m.a. til að kanna hvernig landsfélögin geta betur stutt við systurfélag sitt í Úkraínu.
„Ástandið í Úkraínu er afar flókið og mismunandi eftir landshlutum og jafnvel innan einstaka landssvæða. Ástandið er augljóslega verst þar sem átök standa yfir og á þeim svæðum þar sem hörð átök hafa átt sér stað” segir Atli Viðar. „Úkraínski Rauði krossinn er að vinna ótrúlegt starf við afar erfiðar aðstæður og hafa til dæmis útvegað og dreift rúmlega 5.400 tonnum af mikilvægri mannúðarastoð til þolenda átakanna með aðstoð Rauða kross hreyfingarinnar. Rauði krossinn gerir hins vegar svo miklu meira en það, til dæmis er heilbrigðiskerfið mjög þanið vegna átakanna og til að bregðast við því hefur Rauði krossinn þjálfað 45.600 einstaklinga í skyndihjálp svo fleiri séu í stakk búnir að veita fyrstu hjálp, þjálfað um 2.000 manns til að veita fræðslu um hvernig varast eigi jarðsprengjur og eru að undirbúa að setja á laggirnar færanleg heilsugæsluteymi til að þjónusta betur þær sjö milljónir flóttamanna sem hafa flúið heimili sín en eru enn innan Úkraínu og að sjálfsögðu aðra landsmenn.”
Neyðarsöfnun Rauða krossins vegna átakanna stendur enn yfir. Rauði krossinn vill þakka utanríkisráðuneytinu og öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa lagt sitt af mörkum. Nú þegar hafa 7 sendifulltrúar Rauða krossins verið sendir til Úkraínu og nágrannaríkjanna og fleiri eru væntanleg á vettvang. Utanríkisráðuneytið tilkynnti í gær viðbótarfjármagn til Rauða krossins að upphæð 25 milljónum króna til að aðstoða félagið við að senda sendifulltrúa á vettvang.
„Í heildina hefur úkraínski Rauði krossinn veitt milljón einstaklingum aðstoð frá því átökin hófust. Slíkt væri ekki hægt nema því Rauða kross hreyfingin leggst á eitt við að aðstoða fólk. Á átakasvæðunum höfum við séð hvernig Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur náð að semja um brottflutning óbreyttra borgara frá Mariupol undir afar erfiðum kringumstæðum og vinnur ötullega að því að halda innviðum á borð við spítala og vatnsveitukerfum gangandi. Allt í allt hefur Rauði krossinn í Úkraínu og Alþjóðaráð Rauða krossins aðstoðað um 90.000 óbreytta borgara við að komast frá átakasvæðum til öruggari svæða innan Úkraínu” segir Atli Viðar.
„Hjálparstarf innan Úkraínu er mjög umfangsmikið og flókið. Þess væri óskandi að fleiri mannúðarsamtök og stofnanir hefðu tækifæri til að starfa og sinna þolendum átakanna en raun ber vitni. Því miður er Rauði krossinn nánast einu alþjóðlegu mannúðarsamtökin sem geta starfað á svæðinu en þó ekki óhindrað. Starfið er erfitt og til dæmis veldur skortur á eldsneyti því að mannúðarstarf er ekki eins skilvirkt og það gæti verið og við vildum.”

Á myndinni eru auk Atla: Maksym Dotsenko, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Úkraínu og aðstoðarframkvæmdastjóri Illya Kletskovskyy. Þetta eru tímabundnar höfuðstöðvar Rauða krossins í Vinniytsa, en þær voru fluttar þaðan frá Kænugarði.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“

„Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu“
Innanlandsstarf 02. júlí 2025Að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum hefur þroskað Ingibjörgu Ástu Bjarnadóttur bæði persónulega og í starfi. „Hjá Rauða krossinum hef ég fengið tækifæri og traust til þess að koma mínum eigin hugmyndum á framfæri, og stuðning til þess að láta þær verða að veruleika.“

Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.