Almennar fréttir

Skyndihjálparmaður ársins 2018

11. febrúar 2019

Útnefndur við hátíðlega athöfn í Skógahlíð í dag á 112 daginn

Skyndihjálparmaður ársins 2018 er Guðni Ásgeirsson en hann bjargaði manni sem hafði fengið hjartaáfall  á hlaupastíg í Reykjavík. Guðni kom að manninum þar sem hann hafði lagst í jörðina, veitti honum hjartahnoð og stjórnaði aðgerðum á vettvangi með mikilli yfirvegun. 

Í fyrstu hélt Guðni að maðurinn sem hafði verið að skokka væri að teygja en eitthvað við aðstæðurnar fékk Guðna til að stöðva reiðhjól sitt og kanna ástandið á manninum. Maðurinn hafði þá fengið hjartaáfall og farið í hjartastopp. Guðni kallað til tvo vegfarendur og fékk annan til að hringja í neyðarlínuna og hinn til að aðstoða við að veita manninum hjartahnoð. 

Guðni hnoðaði manninn af miklum krafti þar til sjúkraflutningarmenn komu á vettvang. Maðurinn fékk eitt rafstuð frá sjúkraflutningarmönnunum og var kominn til meðvitundar þegar hann var borinn upp í sjúkrabílinn. Á spítalanum var hann settur í aðgerð og hefur náð fullum bata í dag þökk sé hárréttum viðbrögðum Guðna á vettvangi. 


Aðspurður sagði Guðni að hann vissi ekki hvað olli því að hann brást svona við. Hann sá strax að eitthvað sérstakt var í gangi þarna og hann gat ekki hugsað sér að hjóla framhjá og gera ekkert. 

\"Ég gat ekki látið þetta afskiptalaust og treyst á að einhver annar kæmi til aðstoðar Ég sá að það var ekki í lagi með manninn. Ég fór á skyndihjálparnámskeið í verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir mörgum árum. Í vinnunni hjá mér eru svo reglulega haldin stutt námskeið sem stýrði mér áfram í þessi réttu viðbrögð þennan dag\" sagði Guðni.

Guðni vill líka koma á framfæri þakklæti til þeirra sem aðstoðuð hann þennan dag. Einstaklingar á vettvangi aðstoðuðu hann við að hringja á 112 og framkvæma hjartahnoð. Einnig komu lögregluþjónar að honum og bentu honum á að þessi lífsreynsla gæti haft áhrif á hann seinna enda mikið sjokk að lenda í þessum aðstæðum. 

\"Maður veit aldrei hvernig maður bregst við þegar maður kemur á slysi. Ég hafði í rauninni ekki hugmynd um það hvernig ég myndi bregðast við en ég hugsaði að það er alltaf best að gera eitthvað í stað þess að gera eki neitt. Í þessu tilfelli hefði það verið stór mistök að gera ekki neitt. Ég fékk ótrúlega hugarró þegar ég heyrði í manninum sem ég bjargaði rúmum sólarhring síðar og hann þakkaði mér kærlega fyrir lífsbjörgina.\" sagði Guðni  

Af lýsingunni að dæma er ljóst að Guðni brást hárrétt við aðstæðum og voru aðgerðir hans þennan dag til fyrirmyndar. Við óskum Guðna til hamingju með titilinn Skyndihjálparmaður ársins 2018.