Alþjóðastarf
Á hverju ári hverfa þúsundir á leiðinni til Evrópu
30. ágúst 2022
Á síðasta ári létust eða hurfu um 3300 manns sem freistuðu þess að leita skjóls í Evrópu. Í dag hefst herferðin #NoTraceOfYou til að vekja athygli á þessum harmleik og á vefsíðunni Trace The Face er reynt að bregðast við þessari skelfilegu þróun.
Árið 2021 létust eða hurfu tæplega 3.300* farendur sem voru að reyna að komast til Evrópu. Þessi skelfilega tala – sem jafngildir heilu farþegaskipi eða áhorfendapalli á fótboltavelli – nær aðeins yfir skjalfest tilvik. Raunverulegur fjöldi þeirra sem hverfa í flutningum til Evrópu er mun hærri. Frá árinu 2014 hafa tugþúsundir farenda horfið sem aldrei hefur heyrst frá aftur. Fjölskyldur þeirra verða að þola daglegan sársauka á meðan þau bíða eftir fréttum og halda fast í vonina.
Í dag, 30. ágúst, er alþjóðadagur þeirra horfnu (e. International Day of the Disappeared) og í tilefni dagsins hefur herferðinni #NoTraceOfYou verið ýtt úr vörn, en henni er ætlað að vekja athygli á þessum harmleik.
Svo lengi sem fólk tekur örvæntingarfullar ákvarðanir og neyðist til að hætta lífi sínu á hættulegum fólksflutningaleiðum heldur þetta mannfall áfram að aukast. Þó er hægt að grípa til forvarnaraðgerða til að hindra að fjölskyldur verði aðskildar og að fólk hverfi. Öruggar leiðir fyrir fólksflutninga og árangursríkar stefnur í málefnum flóttafólks og hælisleitenda hjálpa til við að koma í veg fyrir það.
Það skiptir líka máli að farendur séu vel upplýstir um hvernig þeir eigi að vera öruggir, þar á meðal um mikilvægi þess að vera í sambandi við fjölskyldur sínar og að ferðast í sameiningu.
Fjölskyldur þeirra sem týnast lifa í óvissu
Eru þau lifandi eða dáin? Sálfræðingar lýsa biðinni endalausu, ásamt þeirri blöndu af von og áhyggjum sem fjölskyldur týnds fólks upplifa, sem „óljós missir“. Án staðfestingar á því sem hefur komið fyrir ástvini þeirra getur fólk ekki byrjað að syrgja. Sama hversu langur tími hefur liðið, þá þurfa fjölskyldur stuðning og svör til að ná sér andlega og halda áfram með lífið.
Auk þjáningarinnar sem fylgir því að vita ekki um afdrif sinna nánustu stendur margt fólk einnig frammi fyrir ýmsum félagslegum og fjárhagslegum vandamálum vegna þess að þau hafa misst ástvini sína.
Fjölskyldur hafa rétt á að vita hvað varð um ástvini þeirra og það er fyrst og fremst á ábyrgð ríkja að veita fjölskyldum svör.
Við vinnum að því að veita fjölskyldum stuðning og svör
Í yfir 150 ár hafa Alþjóða Rauði krossinn og landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans aðstoðað við að finna fólk sem verður viðskila vegna vopnaðra átaka, náttúruhamfara eða í fólksflutningum og koma því aftur í samband við ástvini sína. Leitarþjónustan miðar að því að koma í veg fyrir að fólk týnist, að hjálpa fjölskyldum að halda sambandi með símtölum og skilaboðum, að rekja týnt fólk og að veita fjölskyldum stuðning.
Til að bregðast við auknum fjölda fólks sem týnist í fólksflutningum var sérstök vefsíða, Trace the Face, búin til árið 2013. Trace the Face miðar að því að hjálpa fólki að leita að ættingjum sem hafa horfið eða þau hafa orðið viðskila við á flutningsleiðinni til Evrópu. Árið 2021 voru 16.500 manns skráð á síðuna og þetta fólk var að leita að 25.600 týndum ættingjum. Að meðaltali er ein fjölskylda á viku sameinuð á ný þökk sé Trace the Face vefsíðunni.
Það er auðvelt að hjálpa okkur með verkefnið
Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa það markmið að hjálpa til við að skýra örlög týnds fólks og að veita fjölskyldum þeirra svör. Það er fátt sem er meira hrífandi eða gefandi en gleðin sem fylgir sameiningu fjölskyldu. Þó að það sé ekkert erfiðara en að færa þær fréttir að ástvinur komi aldrei aftur, þá gerir það fjölskyldum að minnsta kosti kleift að syrgja og byrja að halda áfram með lífið.
Til að hjálpa enn fleiri fjölskyldum þurfum við að vekja athygli á leitarþjónustunni okkar. Þar getur þú hjálpað. Verkefnið er einfalt. Þú getur sagt frá starfinu okkar og vakið athygli á þessu oft vanrækta vandamáli og þjónustunni sem við bjóðum upp á. Það er líka hægt að styðja starf Rauða krossins á Íslandi með því að gerast Mannvinur.
Hvað við gerum
Allir geta einnig leitað til leitarþjónustu Rauða krossins til þess að komast í samband við fjölskyldur sínar eða til að komast að því hvað varð um nána ættingja sem saknað er. Rauði krossinn á Íslandi er hluti af leitarþjónustu alheimshreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans og ef leita þarf á átakasvæðum er unnið í samvinnu við Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC). Við störfum í öllum löndum og getum leitað þvert á landamæri.
Veist þú um einhvern sem vantar aðstoð við að finna týnda ástvini? Hafðu þá samband við leitarþjónustuna í gegnum netfangið tracing@redcross.is eða í síma 570 4000.
Nánari upplýsingar má einnig finna á þessari vefsíðu.
--
*Tölur frá Missing Migrants Project, sem heyrir undir Alþjóðastofnun um farandfólk (IOM)
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitFrábær fyrsti mánuður í neyslurými Rauða krossins
Innanlandsstarf 13. september 2024Ylja – Neyslurými Rauða krossins hefur nú verið starfrækt í Borgartúni einn mánuð. Verkefnið hefur farið mjög vel af stað þennan fyrsta mánuð, ekkert óvænt hefur komið upp á og skjólstæðingar sem nýta þjónustuna lýsa mikilli ánægju með hana.
Vel heppnað málþing um málefni barna á flótta
Innanlandsstarf 03. september 2024Nýverið fór fram vel heppnað málþing um áskoranir barna á flótta í íslensku skólakerfi, en nýtt fræðsluefni um málaflokkinn var að koma út. Á þinginu kom fram hve mikilvægt er að börnin fái góðar móttökur og að þó að mikill árangur hafi náðst á þessu sviði sé enn mikið verk fyrir höndum.
Söfnuðu fyrir börn í Úkraínu og Palestínu
Almennar fréttir 26. ágúst 2024Vinirnir Elías Andri Grétarsson, Dagur Rafn Atlason og Björgvin Atli Jóhannesson afhentu okkur afrakstur af söfnun sinni, sem verður nýtt til að hjálpa börnum í Úkraínu og Palestínu.