Alþjóðastarf

Auglýst staða í samstarfsverkefni um trjárækt í Afríku

03. febrúar 2022

Rauði krossinn á Íslandi styður trjáræktar-framtaksverkefni Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans  í Afríku. Alþjóðasambandið ætlar næstu 10 árin að einbeita sér að fjórum helstu áskorunum álfunnar og byggja á reynslu landsfélaga í álfunni.

Eitt af fjórum framtaksverkefnum Alþjóðasambandsins er trjáræktar-framtaksverkefni (e. Tree Planting and Care initiative) þar sem stefnt er að því að planta og verja 500 miljón trjám á ári næstu 10 árin, í samræmi við svæðisbundnar áætlanir. Átakinu er ætlað að stuðla að aðlögun að - og mildun loftslagsbreytinga. Stuðningur Rauða krossins á Íslandi felst meðal annars í stuðning við stórt trjáræktarverkefni í Sierra Leone (sjá fyrri frétt), þátttöku í tæknilegum vinnuhóp framtaksverkefnisins og stuðning við stöðu verkefna- og samhæfingarstjóra framtaksverkefnisins en sú staða hefur nú verið auglýst.  

Verkefna og samhæfingarstjórinn mun vinna innan teymis alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Afríku með aðsetur í Sierra Leone. Starfið mun krefjast ferðalaga um Afríku sunnan Sahara þar sem það felur í sér samhæfingu verkefna er falla undir framtaksverkefnið og tæknilega aðstoð til landsfélaga sem innleiða trjáræktarverkefni. Starfið mun einnig fela í sér eftirlit og úttektir, stefnumótun, áætlanagerð og fjáröflun. Nánar má lesa um stöðuna á alfred.is