Alþjóðastarf

Brynja Dögg Friðriksdóttir sendifulltrúi á björgunarskipi á Miðjarðarhafi

14. desember 2021

Í nóvember sl. hélt Brynja Dögg Friðriksdóttir til starfa um borð í björgunarskipinu Ocean Viking sem Rauði krossinn og samtökin SOS Mediterranee halda úti á Miðjarðarhafi. Áhöfn skipsins hefur það hlutverk að bjarga flóttafólki úr sjávarháska.

Frá því í ágúst 2019 hafa áhafnir á Ocean Viking björgunarskipinu farið í 64 björgunaraðgerðir og bjargað alls 4.994 manns úr sjávarháska. Þar af voru 1.598 börn yngri en 18 ára og 510 konur. Teymi frá Rauða krossinum hefur verið hluti af áhöfninni frá því september.

OceanViking_skipid

Brynja mun sinna upplýsingamálum neyðaraðgerðaranna (Communication coordinator) í áhafnarteyminu. Þórir Guðmundsson var fyrr í haust við störf í bakvarðarsveit björgunaraðgerða með aðsetur í Búdapest.

Í samtali við Brynju segist hún vera stolt af því að tilheyra góðum teymi Rauða krossins og SOS Mediterranee og taka þátt í þessu mikilvæga hjálparstarfi.

 „Í starfi mínu sem upplýsingarfulltrúi um borð í Ocean Viking kem ég til með að mynda og skrásetja björgun flóttafólks á Miðjarðarhafi. Ég vonast til að geta skrásett frásagnir flóttafólks og þær miklu raunir sem þau hafa gengið í gegnum á ferð sinni. Það er mikilvægt að miðla sögum þeirra til að varpa ljósi á stöðu flóttafólks.“

Þetta er fyrsta starfsferð Brynju sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Hún er menntaður mannfræðingur og blaðamaður ásamt því að hafa starfað við kvikmyndagerð. Brynja lauk grunnnámskeiði fyrir sendifulltrúa í október síðastliðnum og var því ekki löng bið eftir fyrsta kallinu fyrir Rauða krossinn en áður hefur hún starfa fyrir friðargæslu utanríkisráðuneytisins í Litáen og Afganistan.

Rauði krossinn á Íslandi fjármagnar að fullu starfsstöður sendifulltrúa í verkefninu ásamt því að hafa ásamt utanríkisráðuneytinu stutt við neyðaraðgerðirnar með myndarlegu fjárframlagi.