Alþjóðastarf
Eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að útrýma fátækt og hungri árið 2030 raunhæf?
24. ágúst 2022
Alþjóða Rauði krossinn eflir nú viðbragð sitt til að bregðast við hungri sem blasir við milljónum manna í allt að 20 löndum Afríku vegna uppskerubrests. Ef verstu spár ganga eftir gætu íbúar í þessum heimshluta þurft að takast á við versta hungur í 40 ár á næstu misserum. Í slíkri neyð verða viðkvæmustu hóparnir; aldraðir, börn og fólk með fötlun, alltaf verst úti.
Alþjóða Rauða krossinn lýsti nýlega yfir rauðu neyðarstigi vegna alvarleika hungursins í Afríku, sem er það hæsta, svo ástandinu er nú veitt ýtrasta athygli.
Þann 25. september 2015 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna eða Heimsmarkmiðin. Markmiðin eru samtals 17 sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa samþykkt. Heimsmarkmið númer eitt er „ENGIN FÁTÆKT“.
Fyrsta undirmarkmiðið (1.1) er svohljóðandi:
Eigi síðar en árið 2030 hafi sárri fátækt verið útrýmt alls staðar. Miðað verði við að enginn hafi minna á milli handanna en sem nemur 1,25 Bandaríkjadölum á dag til að framfleyta sér.
Heimsmarkmið númer tvö er „EKKERT HUNGUR“ og undirmarkmið númer 2.1 er svohljóðandi:
Eigi síðar en árið 2030 hafi hungri verið útrýmt og aðgengi allra tryggt, einkum fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu, þar á meðal ungbarna, að nægum, öruggum og næringarríkum mat allt árið um kring.
Eru Heimsmarkmiðin orðin úrelt?
Árið 2030 er handan við hornið og það ætti flestum að vera ljóst þessi markmið eru óraunhæf meðan stór hluti mannkyns glímir við hungur og fátækt og spáð er miklu hungri í Afríku.
Þegar Heimsmarkmiðin voru samþykkt árið 2015 var eflaust ekki orðið ljóst hve miklar loftslagsbreytingar gætu átt sér stað á stuttum tíma, en nú er hamfarahlýnun sá raunveruleiki sem við búum við, þurrkur og ofsaflóð tíð á mjög stórum svæðum í Afríku og við blasir aukin fátækt og hungur víðs vegar um heiminn.
Auk áhrifa loftslagsbreytinga má einnig rekja þá neyð sem nú blasir við til þess hve flutningskostnaður hefur aukist gríðarlega á stuttum tíma, sem og skorts á korni vegna átaka í Úkraínu.
Þessi neyð kemur ofan aðra neyð sem íbúar í þessum hluta heimsins hafa þurft að þola undanfarin ár, eins og Ebólu og covid-19 faraldur.
Rauði krossinn á Íslandi hefur styrkt samfélög í Afríku
Í síðasta mánuði veitti Rauði krossinn á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina, rúmlega 28 milljónum íslenskra króna til mannúðaraðgerða í Sómalíu. Sömu fjárhæð var veitt í aðgerðir Rauða krossins þar vegna hungurs í lok árs 2021.
Alþjóða Rauði krossinn telur að mannúðarvandinn vegna hungurs og uppskerubrests geti náð til 20 landa en 12 lönd, þar á meðal Kenía, Sómalía, Eþíópía og Angóla, eru talin í mestri hættu. Alþjóða Rauði krossinn áætlar að nú þegar sé þörf á allt að 200 milljónum svissneskra franka til að bregðast við brýnustu neyð fólks á svæðinu, en stjórnvöld, mannúðarsamtök og styrktarsjóðir hafa fjármagnað um 40% þessara aðgerða.
Hvernig bregst Rauði krossinn við?
Alþjóða Rauði krossinn er að efla starfsemi hreyfingarinnar vegna ástandsins. Byggt er á þekkingu íbúa á svæðinu um mögulegar lausnir og aðgerðirnar miða að því að mæta brýnni neyð og bjarga mannslífum í samstarfi við þá. Alþjóða Rauði krossinn leggur í fyrsta lagi áherslu á að auka aðgengi að mat og öðrum lífsnauðsynjum, í öðru lagi að bæta heilsufar á svæðinu og í þriðja lagi að bæta aðgengi að vatni og þar með að auknu hreinlæti fyrir íbúa.
Alþjóða Rauði krossinn hefur líka kallað sérstaklega eftir sendifulltrúum á svæðið er hafa tækniþekkinguna til að efla samskipti þar sem neyðin er mest, því þegar bregðast þarf hratt við og bjarga mannslífum þurfa samskiptin að ganga snurðulaust fyrir sig.
Hvað getur þú gert?
Þörf er á samtakamætti allra til að bregðast við þessum vanda. Fyrirtæki, stjórnvöld og einstaklingar geta lagt sitt af mörkum. Margt smátt gerir eitt stórt!
Allir geta orðið Mannvinir Rauða krossins (mannvinir.is), sem styrkja einmitt viðbrögð hreyfingarinnar vegna hungurs í Afríku og fyrirtæki, sveitarfélög og stjórnvöld geta svo tekið þátt í sjálfbærniverkefnum Rauða krossins (raudikrossinn.is/styrkja/sjalfbaerniverkefnid/), sem er ætlað að styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Fjölmörg fyrirtæki hafa þegar lagt sitt af mörkum. Í nóvember 2020 styrkti Marel Alþjóða Rauða krossinn til að mynda um eina milljón evra, sem var nýtt til að auka fæðuöryggi viðkvæmra samfélaga í Suður-Súdan.
----
Allar nánari upplýsingar veitir Björg Kjartansdóttir sviðsstjóri hjá Rauða krossinum bjorgk@redcross.is eða í síma 821 2514.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitFrábær fyrsti mánuður í neyslurými Rauða krossins
Innanlandsstarf 13. september 2024Ylja – Neyslurými Rauða krossins hefur nú verið starfrækt í Borgartúni einn mánuð. Verkefnið hefur farið mjög vel af stað þennan fyrsta mánuð, ekkert óvænt hefur komið upp á og skjólstæðingar sem nýta þjónustuna lýsa mikilli ánægju með hana.
Vel heppnað málþing um málefni barna á flótta
Innanlandsstarf 03. september 2024Nýverið fór fram vel heppnað málþing um áskoranir barna á flótta í íslensku skólakerfi, en nýtt fræðsluefni um málaflokkinn var að koma út. Á þinginu kom fram hve mikilvægt er að börnin fái góðar móttökur og að þó að mikill árangur hafi náðst á þessu sviði sé enn mikið verk fyrir höndum.
Söfnuðu fyrir börn í Úkraínu og Palestínu
Almennar fréttir 26. ágúst 2024Vinirnir Elías Andri Grétarsson, Dagur Rafn Atlason og Björgvin Atli Jóhannesson afhentu okkur afrakstur af söfnun sinni, sem verður nýtt til að hjálpa börnum í Úkraínu og Palestínu.