Alþjóðastarf

Haraldur Logi sendifulltrúi við störf í Úkraínu

11. júlí 2022

Í síðustu viku hélt Haraldur Logi Hringsson lögreglumaður til Úkraínu þar sem hann mun starfa með neyðarteymi Alþjóðasambands Rauða krossins (IFRC) vegna aðgerðar í tengslum við átökin í Úkraínu.

Haraldur Logi mun sinna öryggismálum, í stöðu Security Delegate í tengslum við starfsemi Rauða krossins og verður aðal starfsstöð hans í borginni Vinnytsia. Starfið mun meðal annars fela í að veita faglega ráðgjöf í öryggisáhættustjórnun (SRM – Security Risk management), uppfæra viðbragðsáætlanir, umsjón með framkvæmd verklagsreglna og öryggistilkynninga á starfsvæðinu ásamt því að greina öryggis-, pólitískar -, og efnahagslega stöðu á tilteknu svæði .  

Þetta er fyrsta  starfsferð Haraldar Loga fyrir Rauða krossinn á alþjóðavettvangi en hann hefur verið á viðbragðslista Rauða krossins á Íslandi í nokkur ár og hlotið viðeigandi þjálfun í tengslum við sína sérhæfingu innan Alþjóða Rauða krossins.   

Öllu jafna sinnir Haraldur störfum sem lögreglufulltrúi hjá lögregluembættinu á Norðurlandi Eystra.  Hann er með BA gráðu í lögreglu- og löggæslufræðum frá Háskólanum á Akureyri og MBA gráðu frá Háskóla Íslands.   

Rauði krossinn þakkar lögregluembættinu á Norðurlandi Eystra fyrir veita Haraldi Loga tímabundna lausn frá störfum sínum hjá embættinu og styðja þannig við hjálparstarf Rauða krossins í Úkraínu.