Alþjóðastarf

Manngerðar þjáningar og saklaust fólk

24. febrúar 2023

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins á Íslandi, fer yfir síðasta árið í Úkraínu og framlag Rauða krossins á Íslandi til að lina þjáningar þolenda átakanna.

Rauði krossinn hefur verið að sinna þolendum átakanna frá fyrsta degi.

Þær þjáningar sem vopnuð átök í Úkraínu hafa valdið almennum borgurum eru ólýsanlegar. Enda þótt hægt sé að nefna tölur eins og þær að þriðjungur úkraínsku þjóðarinnar hafi orðið að flýja heimili sín segja þær enga heildarsögu og ná ekki að varpa ljósi á þau skelfilegu áhrif sem vopnuð átök hafa á samfélög og íbúa þess.

Á Íslandi búa rétt tæplega 390 þúsund manns. Sá fjöldi sinnum tuttugu hefur þurft að yfirgefa Úkraínu vegna átakanna, eða rétt um átta milljónir. Aðrar sex milljónir eru á flótta innan Úkraínu. Hér er ótaldar aðrar þær þjáningar sem almennir borgarar hafa orðið fyrir vegna átakanna svo sem ástvinamissir, að særast eða slasast, rafmagnsleysi, skortur á hreinu vatni og sú skelfing og ótti sem milljónir búa við, ásamt óvissu um hvort eða hvernig átökunum muni linna.

Mannanna verk

Hjá Rauða krossinum tölum við oft um tvenns konar hamfarir. Annars vegar náttúruhamfarir, sem við á Íslandi þekkjum ágætlega vel, og hins vegar manngerðar hamfarir. Vopnuð átök eru manngerðar hamfarir, enda er það val þeirra sem fara með völd hverju sinni að hefja átök eða ekki.

En það er líka mannanna verk að bregðast við hamförum, hvort sem þær eru af náttúrunnar hendi eða okkar mannanna. Það er óhætt að segja að strax á fyrsta degi, þann 24. febrúar 2022, varð ljóst að landsmenn allir létu sig átökin varða. Ekki bara voru þau nær okkur en mörg önnur, heldur snertu þau strengi í brjóstum okkar allra og fólk fann sig knúið til að veita hjálparhönd til að lina þjáningar þolenda átakanna. Um 300 milljónir króna söfnuðust í neyðarsöfnun Rauða krossins vegna Úkraínu sem hafa nýst í lífsbjargandi mannúðarstarf þar í landi og til að aðstoða úkraínskt flóttafólk.

Sérstaða Rauða krossins á átakasvæðum

Rauði krossinn á Íslandi er hluti af alþjóðahreyfingu sem hefur mjög sérstöku hlutverki að gegna. Ekki aðeins tryggja Genfarsamningarnir frá 1949 og 1977, sem eru alþjóðalög sem gilda í vopnuðum átökum, Rauða krossinum sérstakt aðgengi að þolendum sem önnur hjálparsamtök hafa oft ekki, heldur byggir Rauði krossinn ávallt bæði á staðbundinni getu og utanaðkomandi stuðningi.

Það þýðir að heimafólk á vegum Rauða krossins, bæði sjálfboðaliðar og starfsmenn, er fyrst til að bregðast við neyð og fær til þess stuðning frá hreyfingunni. Það er einmitt þess vegna sem það kemur oft í hlut Rauða krossins að dreifa og koma lífsbjargandi hjálpargögnum til þolenda fyrir Sameinuðu þjóðirnar og aðra aðila. Með því að nýta þessa styrkleika hefur alþjóða Rauða kross hreyfingin gert allt hvað hún getur til að koma til móts við þolendur átakanna, en því miður eru þarfirnar svo miklar að hvorki Rauði krossinn né aðrir geta mætt þeim nema að takmörkuðu leyti.

Mannúðaraðstoð Rauða krossins til þolenda átakanna í Úkraínu

Í árslok 2022 hafði Rauði krossinn veitt alls 14,5 milljónum einstaklingum grunnaðstoð og bætt aðgengi 10,6 milljóna að hreinu vatni.  Einnig hafa 1,2 milljónir einstaklinga hlotið um 30 milljarða króna í beina fjárhagsaðstoð. Hvað varðar heilbrigðisaðstoð hefur Rauði krossinn aðstoðað 1,2 milljónir einstaklinga með aðgang að læknisaðstoð, stutt 170 heilsugæslur í landinu með lyfjum, lækningabúnaði og tækjum og þjálfað um 88 þúsund einstaklinga í skyndihjálp, sem er lífsnauðsynleg þekking, sérstaklega á átakasvæðum. Auk þess hefur Rauði krossinn veitt 328 þúsund einstaklingum sálrænan stuðning og áfallahjálp. Þá hefur hreyfingunni tekist að greiða aðgengi að vatni sem 10,6 milljónir íbúa Úkraínu hafa notið góðs af og þrjár milljónir hafa fengið hreinlætisvörur.

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins á Íslandi.

Á grundvelli sérstaks aðgengis að átakasvæðum hefur Rauða krossinum tekist að koma yfir tíu þúsund einstaklingum á brott frá umsetnum borgum og bæjum til öruggari staða. Fimmtán þúsund stríðsfangar hafa verið heimsóttir af Rauða krossinum og um fjögur þúsund manns hafa fengið upplýsingar um týnda ástvini sem þau hafa orðið viðskila við vegna átakanna. Alls hafa tæplega 125 þúsund sjálfboðaliðar frá 58 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans tekið þátt í þessu starfi.

Ómetanlegur stuðningur frá Íslandi bjargar mannslífum

Sem fyrr segir virðast atburðirnir sem hófust 24. febrúar í fyrra og það sem á eftir hefur fylgt snert strengi í brjóstum landsmanna. Almenningur lagði ekki aðeins neyðarsöfnun Rauða krossins lið með hætti sem við höfum sjaldan séð áður heldur gerðu fyrirtæki og stjórnvöld það líka, auk fjölmargra félaga og klúbba. Fyrir það eru kollegar okkar hjá Rauða krossinum í Úkraínu ævinlega þakklát, enda var með okkar stuðningi hægt að gera enn meira en ella.

En það er ekki bara fjármagnið sem fer til hjálparstarfa sem skiptir máli, heldur líka sá samhugur og hluttekning sem fylgdi framlögunum. Það skiptir líka máli – mjög miklu máli. Þá hafa alls farið níu sendifulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi til Úkraínu og nágrannaríkja til hjálparstarfa og von er á enn fleirum.

Hvað næst?

Þótt við hjá Rauða krossinum séum sátt með þann árangur sem við, með ykkar stuðningi, höfum náð við afar erfiðar og krefjandi aðstæður vonum við að þjáningum almennra borgara linni hið fyrsta. Því þeim getur linnt með ákvörðun þeirra sem hafa til þess vald.

Þangað til það gerist mun Rauði krossinn á Íslandi halda áfram að styðja við mannúðaraðgerðir Rauða kross hreyfingarinnar í Úkraínu, bæði með fjárframlögum en einnig munu sendifulltrúar okkar sinna þar mannúðarverkefnum á komandi misserum. Allt það er einungis hægt með stuðningi Mannvina Rauða krossins, þeirra sem lögðu neyðarsöfnuninni lið, fyrirtækja og samstarfsaðila sem og að sjálfsögðu íslenskum stjórnvöldum. Takk fyrir ykkar stuðning við þolendur átakanna í Úkraínu.

--

Rauði krossinn á Íslandi tilheyrir allri þjóðinni, en án stuðning hennar getur félagið ekki sinnt þeim fjölmörgu mikilvægu verkefnum sem það stendur fyrir, samfélaginu til góðs. Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum með því að gerast Mannvinur.