Alþjóðastarf
Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
02. apríl 2025
„Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Slíkt er óásættanlegt.“
Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.
Átta bráðaliðar palestínska Rauða hálfmánans voru drepnir í síðustu viku er þeir voru að svara hjálparkalli særðra á Gaza. Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og starfsmenn almannavarna á Gaza hlutu sömu örlög.
Eins bráðaliða er enn saknað.

„Við erum harmi slegin,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum. Slíkt er óásættanlegt. Þeir njóta verndar í sínum störfum samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Þau ber að virða í hvívetna.“
Aldrei hefur fleira fólk fallið við mannúðarstörf en í fyrra samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Yfir þrjátíu starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans voru drepin það ár. Flest týndu þau lífi á Gaza.
Alþjóðleg mannúðarlög eru skýr: Almennir borgarar, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk mannúðarsamtaka eru ekki skotmörk. Merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans skal njóta verndar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“

„Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu“
Innanlandsstarf 02. júlí 2025Að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum hefur þroskað Ingibjörgu Ástu Bjarnadóttur bæði persónulega og í starfi. „Hjá Rauða krossinum hef ég fengið tækifæri og traust til þess að koma mínum eigin hugmyndum á framfæri, og stuðning til þess að láta þær verða að veruleika.“

Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.