Alþjóðastarf

Peter Maurer í Moskvu

23. mars 2022

Peter Maurer kom til Moskvu á miðvikudaginn til að halda áfram samræðum við rússnesk yfirvöld um mannúðaraðstoð Alþjóðaráðs Rauða krossins.

Maurer mun ræða um þá aðkallandi aðstoð sem veita þarf fólki sem hefur mátt þola átökin í Úkraínu.

„Eyðileggingin af völdum átakanna undanfarnar vikur, auk átta ára átaka í Donbas, hefur verið gríðarleg. Deiluaðilar þurfa að taka mark á alþjóðlegum mannúðarlögum og valda sem minnstri þjáningu. Ég var í Kænugarði í síðustu viku og er í Moskvu í þessari viku til að halda áfram samræðum við yfirvöld um alþjóðleg mannúðarlög.“

Framhald verður einnig á fyrri samræðum um mannúðarvanda á stöðum eins og Sýrlandi eða í tengslum við afleiðingar Nagorno-Karabakh deilunnar.

Maurer hyggst funda með fulltrúum utanríkis- og varnarmálaráðuneyta. Hann mun einnig funda með formanni rússneska Rauða krossins, en félagið aðstoðar m.a. fólk sem kom til Rússlands eftir að hafa flúið frá heimilum sínum í Donbas.

Alþjóðaráð Rauða krossins leitast við að standa vörð um alþjóðleg mannúðarlög, taka á mannúðarvanda og auðvelda samræður allra aðila, sem hlutlaus og óhlutdrægur milliliður.

Til að mæta aukinni þörf fyrir mannúðaraðstoð er Alþjóðaráð Rauða krossins að auka verulega við starfsemi sína, þ.á.m. með aukinni aðstoð og sérfræðingum. Til að aðstoðin geti verið skilvirkari þarf að samþykkja og virða hlutlaust og óhlutdrægt svæði svo þessi bráðnauðsynlega aðstoð nái til þeirra sem þurfa á henni að halda.