Alþjóðastarf

Rauði hálfmáninn fyrstur á vettvang í Derna 

14. september 2023

Rauði hálfmáninn í Líbíu brást strax við vegna flóðsins í Derna sem kostaði þúsundir lífið og björgunaraðgerðir standa enn yfir, en aðstæður eru afar krefjandi og það er skortur á ýmsum nauðsynjavörum. 

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Líbíu vinna hörðum höndum að björgunarstörfum en standa frammi fyrir ýmsum áskorunum.

Eftir að stormurinn Daníel skall á Líbíu voru starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Líbíu fyrstir á vettvang og hófu rýmingar, ásamt því að veita skyndihjálp og sinna björgunarstörfum, þrátt fyrir að skorta ýmsar nauðsynjar. 

Rauði krossinn á Íslandi sendir innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldna þeirra þriggja sjálfboðaliða Rauða hálfmánans í Líbíu sem létust við björgunarstörf, sem og allra annara sem misstu ástvin í þessum stórfelldu hamförum. Við óskum þeim sem slösuðust skjóts bata og hugur okkar er hjá fjölskyldum þeirra sem eru týndir. 

Rauði hálfmáninn í Líbíu ræsti út neyðarteymi sín áður en stormurinn skall á og virkjaði bráðamóttöku í höfuðstöðvum sínum, ásamt því að senda út viðvörun til þeirra deilda sem voru líklegar til að þurfa að bregðast við og senda út nauðsynlegan búnað og varning. 

Björgunaraðgerðir standa enn yfir. Helstu forgangsverkefni eru að veita þolendum hamfaranna skyndihjálp og sinna grunnþörfum þeirra, ásamt því að leita að þeim sem hafa týnst og sameina fjölskyldur á ný. 

Erfiðlega hefur gengið að koma búnaði á vettvang, sérstaklega fjarskiptabúnaði, björgunarbúnaði og öryggisbúnaði fyrir sjálfboðaliða. 

Íbúar Líbíu hafa lifað við áralöng átök og upplifa nú í ofanálag stórfelldar hamfarir sem ríkisstjórn Líbíu og Rauði hálfmáninn í Líbíu geta ekki sinnt án aðstoðar. Þörfin fyrir mannúðaraðstoð er gríðarleg og sem stendur er mest þörf á neyðarskýlum, sálrænum stuðningi, heilbrigðisþjónustu, vatns- og hreinlætisaðstöðu, mat og öðrum nauðsynjum á borð við matreiðsluáhöld, föt og vasaljós. 

Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans starfa saman sem ein fjölskylda og hafa þegar boðið Rauða hálfmánanum í Líbíu aðstoð sína.