Alþjóðastarf
Sendifulltrúi til starfa í Úkraínu
28. apríl 2022
Orri Gunnarsson sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi og verkfræðingur verður að störfum í Lviv í Úkraínu næstu tvo mánuði sem samræmingaraðili í gerð skýla (shelter coordinator) fyrir fólk á vergangi innan Úkraínu (internally displaced people, IDPs).
„Skýli er mjög vítt skilgreint í þessu samhengi. Í raun kem ég að því að hugsa um uppbyggingu á samastað fyrir fólk frá A-Ö. Íbúafjöldi í Lviv hefur aukist mjög mikið sl. vikur og gistrými er uppurið. Nú þegar er kerfi í gangi þar sem úkraínska ríkið greiðir gestgjöfum í borginni 50 evru cent fyrir að hýsa fólk. Mögulega mun það kerfi halda áfram að ganga vel og Rauða kross hreyfingin ákveðið að efla það í stað þess að búa til okkar eigin kerfi. En það er þó kannski líklegra, þar sem ástandið gæti varað lengi, að nauðsynlegt sé að byggja upp húsnæði. Þá þarf að kanna möguleikann á því að reisa búðir eða íbúðarhúsnæði sem eru hugsaðar til lengri tíma fyrir fólk sem ætlar sér ekki að fara lengra, en einnig skammtímabúðir fyrir fólk sem er meira eins og vegahótel, fólk sem stoppar stutt áður en það heldur svo áfram t.d. til Póllands. Það er ekki hægt að byggja tjaldbúðir eins og þekkist víða annars staðar þar sem veturinn er kaldur og einnig eru margskonar innviðir til staðar sem hægt er að byggja ofan á sem ekki er hægt alls staðar í heiminum“ segir Orri.
„Við erum í raun að byggja upp heilt sveitarfélag með öllu því sem þarf að huga að í því samhengi. Allt frá skólpi, sorphirðu, vatni, rafmagni, fjarskiptamöstrum og svo íbúðarhúsnæðinu sjálfu. Og hvað gerist þegar ástandinu lýkur? Mun þá vera hægt að flytja húsnæðið eitthvert annað þar sem það nýtist, verða þetta eins og Viðlagasjóðshús á Íslandi sem byggð voru eftir gosið í Vestmannaeyjum og munu standa lengi inn í framtíðina og hver mun bera ábyrgð á þeim? Þetta eru allt hlutir sem þarf að huga að þegar svona byggð er komið á. Hver gerir hvað, hvenær, hvernig, hver borgar og hvað gerist að atburði loknum. Þessa hluti gerir maður ekki og ákveður nema vera á staðnum“ heldur Orri áfram.
„Við þurfum að huga að því að styrkja markaðinn, að vinnuafl og slíkt komi frá staðnum en sé ekki utanaðkomandi og það helst i hendur við CASH-verkefni sem er mismunandi eftir stöðum hvort henti eða ekki – þ.e. þegar fólk fær afhenta peninga til þess að nota. Það má alls ekki skapa verðbólgu t.d. ef lítið er um vörur en á nokkuð fúnkerandi markaði getur þetta komið sér afskaplega vel fyrir alla.“
Áður hefur Orri starfað við að koma upp vettvagnssjúkrahúsum í Cox Bazar í Bangladesh og Al Hol í Sýrlandi og á Bahamas eftir náttúruhamfarir.
„Vinnuveitandi minn, VSÓ ráðgjöf, fær miklar þakkir fyrir að gefa mér leyfi frá vinnu svo ég geti sinnt þessum mikilvægu verkefnum á vettvangi.“
Rauði krossinn þakkar Mannvinum, öllum þeim sem gefið hafa til neyðarsöfnunar Rauða krossins og utanríkisráðuneytinu kærlega fyrir þeirra framlag sem gerir félaginu m.a. kleift að senda sendifulltrúa til starfa á vettvangi en nú þegar eru 6 aðrir að störfum í nágrannalöndum Úkraínu.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitFrábær fyrsti mánuður í neyslurými Rauða krossins
Innanlandsstarf 13. september 2024Ylja – Neyslurými Rauða krossins hefur nú verið starfrækt í Borgartúni einn mánuð. Verkefnið hefur farið mjög vel af stað þennan fyrsta mánuð, ekkert óvænt hefur komið upp á og skjólstæðingar sem nýta þjónustuna lýsa mikilli ánægju með hana.
Vel heppnað málþing um málefni barna á flótta
Innanlandsstarf 03. september 2024Nýverið fór fram vel heppnað málþing um áskoranir barna á flótta í íslensku skólakerfi, en nýtt fræðsluefni um málaflokkinn var að koma út. Á þinginu kom fram hve mikilvægt er að börnin fái góðar móttökur og að þó að mikill árangur hafi náðst á þessu sviði sé enn mikið verk fyrir höndum.
Söfnuðu fyrir börn í Úkraínu og Palestínu
Almennar fréttir 26. ágúst 2024Vinirnir Elías Andri Grétarsson, Dagur Rafn Atlason og Björgvin Atli Jóhannesson afhentu okkur afrakstur af söfnun sinni, sem verður nýtt til að hjálpa börnum í Úkraínu og Palestínu.