Alþjóðastarf

Sendifulltrúi til starfa í Líbanon

16. apríl 2021

Hlér Guðjónsson, sendifulltrúi Rauða krossins, hefur hafið störf fyrir Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans í tengslum við COVID-19 verkefni í Beirút í Líbanon.

Hlér Guðjónsson, sendifulltrúi Rauða krossins, hefur hafið störf fyrir Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans í tengslum við COVID-19 verkefni í Beirút í Líbanon.

Hlér mun halda utan eftir þrjár vikur og starfa í Beirút næstu þrjá mánuði. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem, í samstarfi við Alþjóðabankann, sinnir óháðu eftirliti með bólusetningu gegn COVID-19 og fjármagnar utanríkisráðuneytið stöðu Hlés að hluta í gegnum rammasamning ráðuneytisins við Rauða krossinn.

Stjórnvöld í Líbanon, með stuðningi Alþjóðabankans, hafa það að markmiði að 80% íbúa landsins verði bólusett fyrir árslok 2022, án tillits til stéttar eða stöðu. Eftirlit Rauða krossins er mikilvægur þáttur í þeim áætlunum en eftirlitið tekur meðal annars til birgða, flutnings og geymslu bóluefnis auk forgangsröðunar og skrásetningar á endurgjöf bólusettra.

\"Það er heilmikið verkefni framundan í baráttunni við COVID-19,\" segir Hlér Guðjónsson sem býr yfir mikilli reynslu sem sendifulltrúi og hefur komið víða við í störfum sínum. Nú síðast starfaði Hlér í Dóminíska lýðveldinu í kjölfar fellibyljanna Maríu og Irmu en áður hefur hann meðal annars sinnt starfi upplýsingafulltrúa á vegum Alþjóða Rauða krossins í Kína og verkefnum sendifulltrúa í Síerra Leone, Palestínu, Sómalíu og víðar.

Við hjá Rauða krossinum leggjum sannarlega okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni við COVID-19, ekki aðeins á Íslandi heldur í gegnum alþjóðlegt net Rauða krossins á heimsvísu og ekki síst með áherslu á fátækustu löndin. Ef ekki næst að uppræta COVID-19 á heimsvísu er óvíst hvort við losnum við veiruna sem getur því miður kannski haldið áfram að stökkbreytast og herja á mannkynið allt. Þess vegna skiptir alþjóðleg samstaða máli. Það vitum við hjá Rauða krossinum og leggjum því okkar af mörkum þvert á landamæri til að styðja við fyrirætlanir sóttvarnaryfirvalda á hverjum stað með dyggum stuðningi almennings og íslenskra stjórnvalda.