Alþjóðastarf

Slæmt ástand í Súdan eftir mánuð af átökum 

16. maí 2023

Nú er mánuður frá því að vopnuð átök brutust út í Súdan og ástandið á átakasvæðunum er mjög slæmt. Yfir 1000 sjálfboðaliðar Rauða krossins eru að störfum í landinu, en erfitt hefur reynst að koma hjálpargögnum til þolenda vegna ótryggs ástands. 

Starfsfólk Alþjóðaráðs Rauða krossins færði Alban Jadeed sjúkrahúsinu í Kartúm hjálpargögn á dögunum.

Átökin hafa staðið yfir linnulaust síðan 15. maí, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til samninga um vopnahlé, og vegna þeirra hafa yfir 750 manns látist og yfir fimm þúsund særst.

Átökin eru að mestu bundin við svæðið í kringum höfuðborgina Kartúm og Darfúr-hérað, en ekki er hægt að útiloka að þau stigmagnist í öðrum landshlutum. Átökin hafa valdið alvarlegum truflunum á grunnþjónustu í landinu svo sem heilbrigðisþjónustu og vatnsveitum og valdið skorti á mat og eldsneyti, auk þess sem verð á öllum grunnvörum hefur rokið upp. 

Það er hættulegt að vera á ferðinni og mikið um gripdeildir og sprengjuárásir, en aðstaða Rauða krossins í Súdan hefur orðið fyrir barðinu á hvoru tveggja. 

Að minnsta kosti 700 þúsund manns eru á vergangi innan Súdan og yfir 170 þúsund manns eru á vergangi í nágrannaríkjum eins og Egyptalandi, Tsjad, Suður-Súdan og Eþíópíu. Gert er ráð fyrir að fjöldi flóttafólks haldi áfram að aukast vegna átaka og aðstæðna innan Súdans. 

Viðbrögð Rauða krossins í Súdan 

Rauði krossinn í Súdan hefur sent yfir 1000 sjálfboðaliða til starfa, en þeir starfa fyrst og fremst í tíu héruðum. Þessir sjálfboðaliðar hafa í ótal horn að líta. Þeir sinna sjúkraflutningum, veita líkamlega og sálræna skyndihjálp, fjarlæga og grafa látna einstaklinga og styðja við læknateymi á sjúkrahúsum, ásamt því að setja upp aðstöðu fyrir fólk sem er á vergangi og sinna þörfum þeirra, veita þeim þjónustu og hjálpa þeim að finna týnda ástvini. 

Þessi sjálfboðaliðar Rauða krossins standa um leið frammi fyrir mörgum alvarlegum vandamálum. Í fyrsta lagi er mjög erfitt að tryggja öryggi þeirra, en auk þess eru innviðir í Súdan í mjög slæmu ástandi; bankakerfið hefur að hluta til lamast, það er eldsneytis- og rafmagnsskortur, það er erfitt að halda tengslum við umheiminn, hjálpargögn eru ekki að berast, forgangsröðum er ólík á mismunandi svæðum og það er erfitt að fanga athygli fjársterkra aðila sem gættu styrkt starfsemina.