Alþjóðastarf

Þórir starfar með bakvarðarsveit björgunarskips Ocean Viking næstu 2 mánuði

27. september 2021

 Skipið hefur það hlutverk að bjarga flóttafólki úr sjávarháska. Þórir mun starfa með upplýsingateymi svæðaskrifstofu Rauða krossins í Evrópu og verður með aðsetur í Búdapest. Þórir var í tvo áratugi starfsmaður Rauða krossins og var meðal annars í áhöfn björgunarskips Alþjóða Rauða krossins á Miðjarðarhafi 2016.

Þórir Guðmundsson, fyrrverandi ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, mun næstu tvo mánuði vera í bakvarðasveit björgunarskipsins Ocean Viking, sem Rauði krossinn og samtökin SOS Mediterranee halda úti á Miðjarðarhafi. Skipið hefur það hlutverk að bjarga flóttafólki úr sjávarháska. Þórir mun starfa með upplýsingateymi svæðaskrifstofu Rauða krossins í Evrópu og verður með aðsetur í Búdapest. Þórir var í tvo áratugi starfsmaður Rauða krossins og var meðal annars í áhöfn björgunarskips Alþjóða Rauða krossins á Miðjarðarhafi 2016.

„Það er virkilega ánægjulegt að geta sinnt sjálfboðastarfi og stutt við bakið á starfsmönnum Rauða krossins í Ocean Viking,“ segir Þórir. „Hafandi verið þarna úti á hafi veit ég vel hver aðstaða okkar fólks í skipinu er – að ekki sé talað um flóttafólkið sem hefur verið á reki í lélegum bátskænum.“

Um helgina bjargaði Ocean Viking 129 manns af fjórum bátum á alþjóðlegu hafsvæði undan ströndum Líbýu. Yngsti flóttamaðurinn, sem lifði af volkið í trébáti úti á Miðjarðarhafi, var 27 daga barn.

„Við hjá Rauða krossinum erum afar ánægð að Þórir Guðmundsson hafi gefið kost á sér í þetta verkefni“, segir Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins. „Þórir er reynslumikill sendifulltrúi og þekkir aðstæður flóttafólks vel. Við erum að horfa upp á fleiri og fleiri sem neyðast til að leggja á flótta sem getur verið lífshættulegur. Það leggur til dæmis enginn upp í svona hættuför með 27 daga gamalt barn að gamni sínu.“

\"MicrosoftTeams-image-16-\"