Sá fjöldi fólks sem undanfarið hefur neyðst til að yfirgefa heimkynni sín og leggja á flótta hefur aldrei verið meiri. Margt bendir til þess að flóttafólki og farendum muni halda áfram að fjölga verulega á næstu árum. Flóttafólk kemur víða að en fjöldinn jókst mikið á síðasta ári við það að vopnuð átök brutust út í Úkraínu, auk þess sem mikill fjöldi Venesúelabúa hefur undanfarin ár þurft að leggjast á flótta vegna ofbeldis, óöryggis og skorts á nauðsynjum þar í landi.
Flóttafólk
Grunnþjónusta við fólk á flótta og ábyrgð á henni liggur ávallt hjá stjórnvöldum með stuðningi frá öðrum aðilum. Rauði krossinn á Íslandi hefur komið að móttöku og aðlögun flóttafólks með einum eða öðrum hætti frá árinu 1956 og veitir flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd enn þann dag í dag víðtæka þjónustu, m.a. á grundvelli samninga við stjórnvöld. Með stoðhlutverki sínu og öflugum mannauð um land allt getur Rauði krossinn á Íslandi stutt við fólk á flótta eftir fremsta megni.
Mikilvægt er að hlúa vel að hópi flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd en um er að ræða venjulegt fólk sem þurft hefur að flýja mikla neyð, ofbeldi og erfiðleika. Þá er ekki síður mikilvægt að veita þeim sem komið hafa frá öðrum heimshlutum aðstoð við að fóta sig í íslensku samfélagi og ýta undir möguleika þeirra á að gerast virkir meðlimir samfélagsins. Áherslur Rauða krossins á Íslandi í málefnum fólks á flótta lúta að aðstoð í gagnkvæmri aðlögun og sálfélagslegum stuðningi og leggur Rauði krossinn áherslu á að fólk búi við öryggi, heilbrigði og mannsæmandi skilyrði, ásamt því að hafa tækifæri til að dafna.
Viltu styðja flóttafólk?
Við leitum að sjálfboðaliðum sem vilja styðja flóttafólk í íslenskunámi (18-20 ára og eldri) eða gerast leiðsöguvinir (22 ára og eldri). Sjálfboðaliðar fá þjálfun áður en þeir hefja störf. Fyrsta skref er að sækja námskeið í Sálrænum stuðningi (staðnámskeið), einnig þurfa sjálfboðaliðar að taka Grunnnámskeið fyrir sjálfboðaliða og stendur til boða önnur námskeið eins og Skyndihjálp.
Leiðsöguvinur flóttafólks
Í verkefninu Leiðsöguvinir hittast flóttafólk og íslendingar til að kynnast hvort öðru betur.
Flóttafólk á Íslandi vill flest kynnast íslendingum til að stækka félagslegt net sitt, til að spyrja spurninga um lífið á Íslandi eða vegna þess að það er gaman að eignast vini og kunningja á nýja staðnum. Þú getur aðstoðað þessa einstaklinga eða fjölskyldu með því að verða leiðsöguvinur.
Leiðsöguvinir eru sjálfboðaliðar sem taka að sér að hitta og kynnast einstaklingum eða fjölskyldum sem nýlega hafa hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi. Leiðsöguvinir verða vinir þeirra nýkomnu, svara spurningum um lífið á Íslandi, tala um íslenska menningu og hefðir og hvað annað sem þátttakendum býr í brjósti. Þeir byggja brýr á milli fólks með ólíkan bakgrunn og hjálpa þeim að finna sinn stað á Íslandi. Leiðsöguvinir vísa veginn.
Markmið verkefnisins er gagnkvæm félagsleg aðlögun. Þátttakendur eignast nýja vini, styrkja tengslanet sitt, öðlast nýja innsýn inn í íslenskt kerfi og læra um menningu og hefðir hvers annars.
Leiðsöguvinapörin hittast í 4 til 6 klukkustundir á mánuði og gert er ráð fyrir að verkefnið vari í 6 mánuði. Mælt er með að hittast vikulega. Þau ákveða í sameiningu hvenær og hvar þau munu hittast. Þátttakendur hafa hist á stöðum eins og bókasafni, kaffihúsi eða á heimilum hvers annars.
Íslenskuþjálfun
Í verkefninu Tölum saman hittast flóttafólk og Íslendingar til þess að æfa íslensku saman.
Flestir einstaklingar sem hér hljóta alþjóðlega vernd vilja bæta íslenskukunnáttu sína vegna þess að hún gerir þeim kleift að byggja upp sterk og varanleg tengsl við Íslendinga. Kunnáttan veitir þeim betra aðgengi að íslensku kerfi, að íslenskum vinnumarkaði og greiðir leið fólks til að sækja sér frekari menntun. Þú getur aðstoðað þessa einstaklinga með því að verða tungumálavinur.
Tungumálavinir eru sjálfboðaliðar í verkefninu Tölum saman. Sjálfboðaliðar hitta einstaklinga eða pör sem nýlega hafa hlotið alþjóðlega vernd með það að markmiði að æfa íslensku. Hægt er að notast við óformlegt spjall eða aðrar æfingar sem henta hverju sinni. Það má til dæmis leggja áherslu á orðaforða sem tilheyrir ákveðinni iðn eða menntun eða orðaforða sem auðveldar samskipti foreldra við skólakerfið. Sjálfboðaliðar geta einnig stutt við þau sem eru í formlegu íslenskunámi með því að aðstoða við heimanám. Þetta eru bara hugmyndir að þeim fjöldamörgu leiðum sem hægt er að fara þegar æfa á íslensku.
Hlutverk sjálfboðaliðans er ekki að vera kennari. Sjálfboðaliðarnir eru venjulegir Íslendingar, eins og þú, sem hafa áhuga á að deila orðaforða íslenskrar tungu með öðrum. Hægt er að hittast á bókasafni eða á heimili viðkomandi og gert er ráð fyrir að verkefnið vari í 6 mánuði. Hist er hverja viku, klukkutíma í senn.
Á Akureyri er einnig í boði íslenskuþjálfun fyrir öll sem vilja þjálfa íslensku.
Boðið er upp á einstaklingsbundinni íslenskuaðstoð sem byggir á spjalli eða heimanámsaðstoð í íslensku og samveru. Reynt er að mæta þörfum og óskum notenda eins og hægt er, í samráði við sjálfboðaliða. Hist er í heimahúsi, kaffihúsi, bókasafni eða á öðrum stöðum einu sinni í viku, klukkutíma í senn. Hvenær er samkomulagsatriði milli notanda og sjálfboðaliða.
Smelltu hér til að sækja um að fá aðstoð
Wellbeing4U
Geðheilbrigði og sálfélagslegur stuðningur er eitt af áherslusviðum Rauða krossins á Íslandi, með það markmið að efla geðheilbrigði og sálfélagslega vellíðan einstaklinga sem hafa orðið fyrir áhrifum átaka, hamfara eða fólksflutninga.
Rauði krossinn notar samfélagsmiðaða nálgun í verkefnum sínum til að auka félagstengsl þeirra sem nýta þjónustuna. Þessi nálgun byggir á þeirri hugmyndafræði að okkar hlutverk er að valdefla fólk til þess að þau geti hjálpað sér sjálf og jafnvel stutt við aðra í sínu nærumhverfi, og þar með aukið sjálfstraust, úrræði og bjargráð sín og samfélagsins.
Rauði krossinn á Íslandi hefur nú farið af stað með nýtt verkefni sem kallast Wellbeing4U, en það verkefnið er hluti af átaksverkefni Rauða krossins í sálfélagslegum stuðning og er styrkt af heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins, EU4Health.
Markmið verkefnisins er að búa til vettvang fyrir sálfélagslega fræðslu og jafningjastuðning fyrir flóttafólk á Íslandi. Verkefnið miðar að því að efla langtíma seiglu og andlega vellíðan, ásamt því að styðja við aðlögun einstaklinga í nýju umhverfi. Kjarni verkefnisins er sálfélagsleg fræðsla sem sjálfboðaliðar Rauða krossins bjóða upp á á jafningjagrundvelli á móðurmáli þeirra sem fræðsluna sækja, auk annarra smærri viðburða eða verkefna.
Markmið þessara athafna er að auka seiglu einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga, draga úr streitu, létta á tilfinningalegu álagi og veita fræðslu um sjálfsbjargir og hvernig best er að annast sjálfan sig og sína nánustu.
Viltu læra meira um verkefnið? Sendu tölvupóst á MHPSS@redcross.is eða sæktu um hér til að verða sjálfboðaliði.
Leitarþjónusta og fjölskyldusameiningar
Hér má nálgast frekari upplýsingar um leitarþjónustu og fjölskyldusameiningar.
Tómstundasjóður
Tómstundasjóði flóttafólks er ætlað að styðja börn flóttafólks búsettu hér á landi til að stunda tómstundir sem ekki fæst styrkur fyrir annars staðar.
Hægt er að fá úthlutað úr sjóðnum fyrir:
- börn sem koma án fylgdarmanna til landsins
- börn flóttafólks sem boðin er búseta hér á landi (kvótaflóttafólk)
- börn flóttafólks sem fá stöðu flóttamanns í kjölfar hælismeðferðar
- börn flóttafólks sem fá vernd af mannúðarástæðum
- börn fólks í leit að alþjóðlegri vernd hér á landi
Úthluta má úr sjóðnum allt þar til börn hafa fengið búsetuleyfi hér á landi eða í allt að 4 ár frá því þau hljóta stöðu flóttamanns eða fá vernd af mannúðarástæðum. Hægt er að sækja um tvisvar á ári fyrir hvert barn. Úthlutað er allt að 30.000 kr. á ári fyrir hvert barn.
Ef styrkur er veittur fyrir hámarksupphæð í einni úthlutun fæst ekki önnur úthlutun það ár.
Styrkhæfar tómstundir
Styrki úr sjóðnum má veita til hvers kyns tómstunda barna enda er það val barnanna og fjölskyldna þeirra hvaða tómstund er stunduð. Styrkir geta því verið fyrir námskeiðum, tónlistarnámi, íþróttaiðkun, dansnámi eða annars konar tómstund og ferðum þeim tengdum.
Umsóknarferli
- Sendið inn umsókn hér að neðan
- Sendið kvittanir á tomstundasjodur (hja) redcross.is
Styrkir eru ýmist greiddir beint inn á reikning forráðamanns þess barns sem sótt er um fyrir að því tilskyldu að reikningar séu lagðir fram eða að reikningar eru greiddir beint. Ef spurningar vakna varðandi sjóðinn eða umsóknarferlið endilega hafið samband á netfangið tomstundasjodur@redcross.is eða í síma 570-4000.
Úthlutunarreglur Tómstundasjóðs
Algeng hugtök sem tengjast flóttafólki og hælisleitendum
Einstaklingur sem óskar eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur hér á landi. Hugtakið „flóttamaður” er skilgreint í íslenskum lögum og Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er aðili að.
Vernd sem stjórnvöld veita einstaklingi sem hingað leitar og viðurkenndur hefur verið sem flóttamaður samkvæmt skilgreiningu Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Hugtakið „flóttamaður” skal því eiga við hvern þann mann sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum (einnig oft talað um aðild að sérstökum þjóðfélagshópum) eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands. Hugtakið á einnig við um þann sem er ríkisfangslaus og utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað.
- Til fólks sem hefur flúið til Íslands frá Úkraínu og sótt hér um vernd.
- Við efnislega meðferð þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd telst ekki flóttamaður en getur þó sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði annars vísað til.
- Þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða frá því að hann lagði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi.
Mannúðarleyfi er veitt til eins árs en ólíkar reglur gilda um endurnýjun eða framlengingu dvalarleyfisins eftir því á hvaða grundvelli leyfið var veitt.
Mannúðarleyfinu fylgir ekki óbundið atvinnuleyfi, sem þýðir að sækja þarf um atvinnuleyfi fyrir hvern atvinnurekanda sem aðili gerir ráðningarsamning við, hjá Vinnumálastofnun.
Ef umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur þegar hlotið vernd í öðru ríki innan Evrópu eða ef hann hefur haft viðkomu annars staðar innan Schengen-svæðisins eru aðstæður í viðkomandi Evrópuríki skoðaðar með tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna umsækjanda. Ef aðstæðum er þannig háttað að ekki teljist öruggt að senda umsækjanda aftur til viðkomandi Evrópuríkis ber íslenskum stjórnvöldum að taka málið til efnislegrar meðferðar hér á landi.
Umsóknir geta því fengið efnislega meðferð á síðari stigum máls, s.s.
- ef íslensk stjórnvöld ákveða með tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna umsækjanda að umsókn hans skuli tekin til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að falla undir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eða umsækjandi hefur þegar hlotið vernd í öðru ríki Evrópu,
- ef mál fellur á þeim tímafresti sem kveðið er á um í lögum um útlendinga eða
- ef fyrri ákvörðun er afturkölluð. Við efnislega meðferð þurfa stjórnvöld að skoða það sérstaklega hvort umsækjandi uppfylli skilyrði þess að hljóta hér alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Ísland er aðili að hinu svokallaða Dyflinnarsamstarfi, sem byggir á Dyflinnarreglugerðinni. Í Dyflinnarreglugerðinni eru sett fram viðmið og fyrirkomulag sem aðildarríki skulu fylgja við ákvarðanatöku um það hvaða aðildarríki samstarfsins beri ábyrgð á því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.
Hinni svokölluðu Dyflinnarmeðferð er m.a. beitt þegar umsækjandi hefur haft viðkomu í öðru ríki innan Schengen-svæðisins á leið sinni til Íslands, hann hefur fengið útgefna vegabréfsáritun af hálfu annars Schengen-ríkis eða hann hefur þegar lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í öðru ríki. Er íslenskum stjórnvöldum þá heimilt að vísa umsækjanda aftur til þess ríkis.
Dyflinnarreglugerðin kveður því á um að það Schengen-ríki sem umsækjandi um alþjóðlega vernd kemur fyrst til beri ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar hans. Íslensk stjórnvöld beita ekki Dyflinnarreglugerðinni gagnvart einstaklingum sem koma hingað til lands frá Grikklandi og Ungverjalandi og ekki hafa þegar hlotið þar alþjóðlega vernd.
Þegar einstaklingur sem leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hefur þegar hlotið slíka vernd í öðru ríki innan Evrópu er íslenskum stjórnvöldum heimilt að senda hann aftur þangað. Slík umsókn skal þó tekin til efnismeðferðar ef einstaklingurinn hefur sérstök tengsl við landið, s.s. nána ættingja, eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá skal slík umsókn tekin til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd var lögð fram og umsækjandi er enn á landinu. Þessi tímafrestur er 10 mánuðir í tilviki barna og barnafjölskyldna.