Þjóðin fær reglulega að kynnast áhrifum eldgosa, jarðskjálfta, ofanflóða, jökulhlaupa og óveðra. Rauði krossinn á Íslandi er mikilvægur hluti af kerfi almannavarna á Íslandi og felst hlutverk félagsins meðal annars í opnun og starfsrækslu fjöldahjálparstöðva, söfnunarsvæða aðstandenda og skráningarstöðva, úrvinnslu skráninga, sálfélagslegum stuðningi og aðkomu að rekstri þjónustumiðstöðva almannavarna.

Algengar spurningar og svör

Ef slokknar á öllu, net- og símasamband dettur og/eða vegir verða ófærir er mikilvægt að hvert heimili geti verið sjálfu sér nægt í a.m.k. 3 daga.

Góður undirbúningur minnkar álag á viðbragðsaðilum t.d. björgunarsveitum. 

Að vera vel undirbúin getur jafnvel bjargað mannslífum. Öll heimili ættu að vera með heimilisáætlun og viðlagakassa tilbúinn.

Öll! Náttúruhamfarir og slæmt veður getur dunið á á Íslandi hvar sem er og með litlum fyrirvara. 

Viðlagakassi ætti að vera til staðar á hverju heimili, þ.e. kassi sem inniheldur þá hluti sem íbúar gætu þurft á að halda í kjölfar hamfara. Við vitum aldrei hvenær við gætum þurft að grípa til hans þegar náttúran gerir vart við sig svo best er að útbúa slíkan kassa strax í dag ef hann er ekki nú þegar til staðar. Athugið að geyma kassann þar sem öll fjölskyldan getur nálgast hann og gættu þess að hlutirnir í honum séu ekki útrunnir.

Hér að neðan er gátlisti yfir hluti sem mikilvægt er að hafa innan seilingar - annað hvort í viðlagakassanum eða á aðgengilegum stað. 

Viðlagakassinn

Munið að margt er til á heimilum nú þegar og því er þetta oftar en ekki spurning um að taka þá til, setja í kassa og hafa á aðgengilegum stað.

 • Listi yfir mikilvæg símanúmer - Fjölskyldumeðlimir og viðbragðsaðilar, s.s. 112.

 • Kerti og eldspýtur - Ef rafmagn þrýtur er nauðsynlegt að geta tendrað ljós og kveikt upp í eldunargræjum.

 • Sterkt viðgerðarlímaband - Mjög gagnlegt í minni viðgerðir og skammtímareddingar .

 • Hreinlætisvörur - Tannbursta, bleyjur, sápu, dömubindi/túrtappa, svitalyktareyði o.s.frv.

 • Útvarp með langbylgju (upptrekt eða með rafhlöðum) - Þinn besti möguleiki á að fá upplýsingar um ástand ef sambandsleysi á sér stað.

 • Vasaljós með rafhlöðum 

 • Reiðufé

 • Leikföng og spil - Nauðsynlegt fyrir börn jafnt sem fullorðna og fyrirtaks dægrastytting.

 • Vatn á flöskum eða brúsa - Hver einstaklingur notar allt að fjóra lítra á dag.

 • Teppi til að kúra saman í kuldanum - Muna að hafa nóg fyrir alla á heimilinu.

 • Matur með langt geymsluþol (dósamatur, pakkamatur, þurrmeti) - Svo er bara að borða hann í útilegum á sumrin og fylla aftur á með haustinu.

 • Vasahnífur eða fjölnota verkfæri - Nauðsynlegt í minniháttar viðgerðir og skítamix..

Annað sem er mikilvægt að hafa í huga:

 • Skyndihjálpartaska er alltaf nauðsynleg á hvert heimili. Hana má kaupa hjá Rauða krossinum.

 • Prímus og gaskút er nauðsynlegt að eiga - það er leiðinlegra að borða dósamatinn kaldan. Þá virkar gasgrill líka.

 • Slökkvitæki

 • Hleðslubanki og hleðslutæki

 • Hafðu nóg eldsneyti á bílnum ef hættuástand skapast og þú átt bíl - þannig geturðu hlaðið síma og fylgst með fréttum í útvarpinu ef samband er til staðar.

 • Kynntu þér staðsetningu næstu fjöldahjálparstöðvar. HÉR má finna staðsetningar á landinu.

 • Náðu í skyndihjálparappið á App Store eða Google Play. Þar er einnig kafli um neyðarvarnir.

Mikilvægt er að heimilisáætlun sé til staðar þar sem náttúruhamfarir og veðrabrigði gerast oft án viðvörunar. Til að sporna við skaða á bæði híbýlum og fólki þarf fyrirfram undirbúin viðbrögð. 

Í hvers kyns hamförum hafa flestir mestar áhyggjur af sínum nánustu og því er heimilisáætlun nauðsynleg. Samkvæmt Almannavörnum felst heimilisáætlun í fjórum megin skrefum:

 • Hættumat - Hvað gæti gerst
 • Forvarnir - Hvernig er hægt að minnka líkur á slysum og tjóni í kjölfar hættuástands?
 • Viðbragðsáætlun - Hvernig eigum við að bregðast við?
 • Æfingar-upprifjun-endurskoðun - Hvað og hvernig eigum við að æfa okkur?

Á vef Almannavarna  má finna mjög greinagóða lýsingu á hvernig setja eigi upp heimilisáætlun og hvetur Rauði krossinn alla til að kynna sér hana til hlítar.