Almennar fréttir
100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
20. desember 2024
Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Um 400 gestir sóttu fundinn, sem haldinn var í salnum Norðurljósum. Frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ávörpuðu fundinn. Bæði þökkuðu þau félaginu fyrir margvíslegt framlag til heilbrigðis- og velferðarþjónustu landsins og almannavarna.
Birgitte Bischoff Ebbesen, yfirmaður Evrópuskrifstofu Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans hélt tölu um framlag Rauða krossins á Íslandi til alþjóðastarfs hreyfingarinnar. Þar tiltók hún sérstaklega sendifulltrúa og fjárstuðning félagsins við björgunarskip sem Rauði krossinn heldur úti á Miðjarðarhafi fyrir flóttafólk. Þrátt fyrir smæð hefur Rauði krossinn á Íslandi verið í forystu við að tryggja fjárhagslegan grunn og starfsfólk fyrir þessa þjónustu, með mikilvægum stuðningi utanríkisráðuneytisins.
Silja Bára R. Ómarsdóttir formaður Rauða krossins á Íslandi hélt sömuleiðis ávarp. Í erindi sínu vék hún að ýmsum nýjum áskorunum sem blasa við með aukinni hörku í heimspólitíkinni. Rauði krossinn þarf að vera meðvitaður um breytta stöðu og að félagið hefur hlutverki og skyldum að gegna.
Þá voru haldin nokkur stutt erindi um grundvallarhugsjónir Rauða krossins og hvernig þær fléttast inn í allt starf félagsins á Íslandi og um heim allan.
Hljómsveitin Ylja, skemmtikrafturinn Ari Eldjárn, Skólakór Kársness og félagar í Tónlistarvinum Rauða krossins veittu fundinum hátíðlegt, fallegt og skemmtilegt yfirbragð.
Öllum gestum og því fólki sem lagði hönd á plóg er þakkað fyrir daginn, sem var félaginu til mikils sóma.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitKvennadeild Reykjavíkurdeildar styrkir Frú Ragnheiði um 1.300.000 krónur
Almennar fréttir 24. janúar 2025Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins afhenti nýverið skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiði, styrk að andvirði 1.300.000 króna. Upphæðin er afrakstur sölu á jólabasar kvennadeildarinnar, auk handverks sem framleitt var af Prjónahópnum og selt í sölubúðum á Landspítalanum við Hringbraut og í Fossvogi.
Neyðarsöfnun fyrir íbúa Gaza
Almennar fréttir 23. janúar 2025Milljónir Palestínufólks á Gaza þurfa hjálp – strax. Rauði krossinn safnar fyrir mat, skjóli, hreinu vatni og heilbrigðisaðstoð.
Hugmyndarík frændsystkin söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 23. janúar 2025Frændsystkinin þrjú, Árný Ýr, Bjarki Freyr og Tinna eru aldeilis hugmyndarík þegar kemur að því að safna fé fyrir Rauða krossinn. Þau ákváðu að setja upp sína eigin litlu nuddstofu og bjóða fjölskyldu og ættingjum í fóta- og herðanudd gegn framlagi til söfnunarinnar.