Almennar fréttir

40 milljónir til Afganistan

28. september 2021

Neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir stríðshrjáða í Afganistan lauk í dag. Í kjölfar þessarar söfnunar mun Rauði krossinn á Íslandi senda alls um 40 milljónir króna til Alþjóðaráðs Rauða krossins sem sinnir lífsbjargandi mannúðaraðstoð í Afganistan og hefur gert um langt skeið.

Neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir stríðshrjáða í Afganistan lauk í dag. „Við erum ljómandi ánægð með þann stuðning sem neyðarsöfnunin hefur fengið og ljóst að landsmenn sýna Afgönum og aðstæðum þeirra mikinn skilning. Það höfum við fundið svo skýrt“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins.

Í kjölfar þessarar söfnunar mun Rauði krossinn á Íslandi senda alls um 40 milljónir króna til Alþjóðaráðs Rauða krossins sem sinnir lífsbjargandi mannúðaraðstoð í Afganistan og hefur gert um langt skeið. Íslensk stjórnvöld styðja líka myndarlega starf Rauða krossins í Afganistan, þar sem þau hafa þegar styrkt alþjóðaráð Rauða krossins um 30 milljónir króna. Sjö milljónir hafa safnast frá almenningi og deildum Rauða krossins og tæpar þrjár milljónir verða nýttar af rammasamningi Rauða krossins við utanríkisráðuneytið. Áhersla verður lögð á heilbrigðisaðstoð sem og að auka fæðuöryggi í landi þar sem miklir þurrkar hafa geysað og aðgengi að matvælum oft takmarkað, mjög lítið eða nánast ekkert.

Fjármagnið frá Íslandi verður nýtt í mjög aðkallandi aðstoð fyrir íbúa í Afganistan og hægt verður að veita þúsundum Afgana, ef ekki tugþúsundum aðstoð. „Það sýnir okkur svo skýrt að framlag hvers og eins telur og að samtakamáttur okkar hér á Íslandi getur sannarlega haft lífsbjargandi áhrif í fjarlægum löndum eins og núna í Afganistan“, segir Atli að lokum og þakkar landsmönnum, stjórnvöldum og deildum Rauða krossins innilega fyrir stuðninginn við stríðshrjáða í Afganistan.

Síðast en ekki síst þakkar Rauði krossinn einnig Mannvinum sem gera okkur kleift að bregðast við og halda uppi hjálparstarfi um allan heim á neyðarstundum. 

Fréttir af starfinu

Fréttayfirlit

Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli

Almennar fréttir 10. desember 2024

Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land. 

Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co

Almennar fréttir 03. desember 2024

Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi

Almennar fréttir 02. desember 2024

Stjórn Rauða krossins á Íslandi og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins síðastliðin 9 ár, hafa gert samkomulag um starfslok hennar. Viðræður um starfslokin áttu sér stað að frumkvæði Kristínar, sem hefur nú þegar látið af störfum. Arna Harðardóttir sem gengt hefur starfi fjármálastjóra mun taka við verkefnum framkvæmdastjóra samhliða sínum störfum þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Staðan verður auglýst innan skamms.