Almennar fréttir

46 ár liðin frá Vestmannaeyjagosinu

23. janúar 2019

 Gosið árið 1973 markar upphaf neyðarvarnarstarfs Rauða krossins á Íslandi.

 Í dag eru 46 ár liðin frá því að Vestmannaeyjargosið herjaði á byggð Eyjamanna. Gosið árið 1973 markar upphaf neyðarvarnarstarfs Rauða krossins á Íslandi. Fjöldahjálparstöð var sett upp í landi til að taka á móti þeim Vestmannaeyingum sem flúið höfðu eyjuna vegna gossins. Kallaður var út fjöldi sjálfboðaliða Rauða krossins, fyrst og fremst úr kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, sem aðstoðuð við móttöku á Eyjamönnum. Talið er að yfir 200 sjálfboðaliðar hafi tekið þátt í aðgerðum Rauða krossins þessa nótt. Aðgerðir voru skipulagðar í höfuðstöðvum Rauða krossins þar sem undirbúningsvinna fór fram áður en Eyjamenn komu til Reykjavíkur. Ákveðið var að móttökumiðstöð skyldi sett upp í Árbæjarskóla þar sem tekið var á móti Eyjamönnum sem á aðstoð þurftu að halda talið er að um 6000 manns hafi skráð sig í þessa móttökustöð þennan fyrsta sólarhring. Aðrir skólar voru einnig rýmdir til að taka á móti þessum mikla fjölda Eyjamanna.

Þessar aðgerðir marka upphafið að öflugu neyðarvarnarstarfi Rauða krossins á Íslandi. Nú til dags er algengt að neyðarvarnarteymi Rauða krossins taki til starfa þegar stór slys eða náttúruhamfarir eigi sér stað og er kveðið á um þetta hlutverk Rauða krossins í lögum um almannavarnir. Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins bjóða þá fram aðstoð sína, veita áfallahjálp og aðra nauðsynlega þjónustu í sérstökum fjöldahjálparstöðvum sem settar eru upp. Nýjasta dæmið um slík viðbrögð eru vel heppnaðar aðgerðir Rauða krossins vegna rútuslyss sem varð á Kjalarnesi um síðustu helgi.

Hægt er að gerast Mannvinur Rauða krossins hér og styrkja starf hreyfingarinnar með mánaðarlegum fjárframlögum.