Almennar fréttir
Ákall til stjórnvalda vegna mannúðarkrísu á Gaza-svæðinu
15. október 2023
Eftirfarandi ákall var sent til íslenskra stjórnvalda síðastliðið föstudagskvöld.
Alþjóðaráð Rauða krossins hefur sent frá sér neyðarkall, sem Rauði krossinn á Íslandi tekur undir, vegna fyrirmæla ísraelskra yfirvalda til rúmlega milljón íbúa Gaza um að yfirgefa heimili sín innan sólarhrings.
Sólarhringur er ekki nægur tími til að rýma alla íbúa svæðisins, þar á meðal fólk með fötlun, aldraða, sjúklinga og veika og særða einstaklinga á sjúkrahúsum. Auk þess hafa íbúar engan öruggan stað til að fara á vegna þess að allt svæðið er umsetið og ómögulegt er að vita hvar næsta árás mun eiga sér stað.
Margir, þar á meðal fólk með fötlun, aldraðir og sjúklingar, munu ekki geta yfirgefið heimili sín. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum ber að vernda alla almenna borgara, líka þá sem þurfa að verða eftir.
Fyrirmælin samræmast ekki alþjóðlegum mannúðarlögum. Umsátrið veldur því að íbúar hafa ekki aðgang að mat, vatni né rafmagni og þegar hernaðaröfl gefa fólki skipun um að yfirgefa heimili sín verður að gera allar mögulegar ráðstafanir til að tryggja að fólk hafi aðgang að grundvallarnauðsynjum eins og mat og vatni og að fjölskyldur séu ekki aðskildar.
Alþjóðaráð Rauða krossins er að efla þjónustu sína til að veita lífsbjargandi aðstoð, en teymi Rauða krossins þurfa hlé á átökum til að vinna á öruggan og skilvirkan hátt. Vegna umsátursins geta mannúðarsamtök eins og Rauði krossinn ekki aðstoðað við að flytja burt þá íbúa sem hefur verið skipað að fara. Þarfirnar eru yfirþyrmandi og mannúðarsamtök verða að geta aukið við hjálparstarf sitt.
Skrifstofa Alþjóðaráðs Rauða krossins fékk sömu fyrirmæli um að yfirgefa svæðið, sem og aðrar alþjóðastofnanir. Við höfum gríðarlegar áhyggjur af kollegum okkar í Gaza og fjölskyldum þeirra.
Við biðjum íslensk stjórnvöld um að tala máli þessa fólks á alþjóðavettvangi, svo hægt verði að koma í veg fyrir stórkostlegar mannlegar hörmungar og þjáningu almennra borgara.
Heimsbyggðin verður að grípa inn í til að hjálpa þessu fólki. Stríð er ekki svarið. Morð á saklausum borgurum og eyðilegging innviða fyrir almenning er ekki svarið. Allir aðilar verða að virða alþjóðleg lög um hernað og vernda almenna borgara.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitVel heppnað málþing um málefni barna á flótta
Innanlandsstarf 03. september 2024Nýverið fór fram vel heppnað málþing um áskoranir barna á flótta í íslensku skólakerfi, en nýtt fræðsluefni um málaflokkinn var að koma út. Á þinginu kom fram hve mikilvægt er að börnin fái góðar móttökur og að þó að mikill árangur hafi náðst á þessu sviði sé enn mikið verk fyrir höndum.
Söfnuðu fyrir börn í Úkraínu og Palestínu
Almennar fréttir 26. ágúst 2024Vinirnir Elías Andri Grétarsson, Dagur Rafn Atlason og Björgvin Atli Jóhannesson afhentu okkur afrakstur af söfnun sinni, sem verður nýtt til að hjálpa börnum í Úkraínu og Palestínu.
Allir sammála um þörfina fyrir skaðaminnkun
Innanlandsstarf 16. ágúst 2024Neyslurýmið Ylja hefur loks opnað að nýju eftir rúmlega árslangt hlé. Þörfin fyrir rýmið hefur komið glögglega í ljós og vonir standa til að hægt verði að efla þjónustuna enn frekar með auknu fjármagni.