Almennar fréttir

Alþjóðadagur flóttafólks 2021: Saman sigrumst við á áskorunum

20. júní 2021

Venjulegt fólk þarf að finna leiðir til að bjarga lífi sínu og sinna, komast í skjól, öryggi, komast á stað þar það getur treyst yfirvöldum og samfélaginu í kringum sig. 

\r\n

 

Venjulegt fólk neyðist til að flýja heimili sitt. Venjulegt fólk eins og ég og þú þarf að finna leiðir til að bjarga lífi sínu og sinna, komast í skjól, öryggi, komast á stað þar það getur treyst yfirvöldum og samfélaginu í kringum sig. Þegar fólk þarf að bjarga lífi sínu grípur það oft til örþrifaráða. Ráða sem í sjálfu sér geta verið lífshættuleg.

Það leikur sér enginn að því að leggja á flótta og sækja um alþjóðlega vernd í fjarlægu landi. Þess skulum við minnast í dag, 20. júní, á alþjóðadeginum sem tileinkaður er flóttafólki. Fólk leggur af stað með börnin sín og aldraða ættingja í hættuför, tapar heimili sínu, eigum, lífsviðurværi, vinum og ættingjum, griðastaðnum sem telst vera „heima“ og ekki síst, tapar því að tilheyra. Sum leggja ein upp í þessa kvíðvænlegu ferð og óska síðan eftir að fjölskyldan fái að sameinast á ný á öruggum stað. Öll sækjum við styrk og kraft til okkar nánustu og það er erfitt að aðlagast nýjum staðháttum ef okkar nánasta fólk er enn í hættu statt. Því skiptir máli að fjölskyldusameiningar flóttafólks gangi vel og greiðlega fyrir sig, ekki síst eftir hindranir og ferðabönn sem heimsfaraldur COVID hefur skapað.

Flest okkar sem byggja Ísland hafa ekki upplifað þá raun og þá fáu, vondu valkosti sem blasa við mörgum. Við sem lánsamari erum getum hins vegar tekið vel á móti þeim hafa þurft að feta þennan hættulega veg í átt að öryggi. Í okkar ágæta samfélagi er margt gert vel. Leitast er við að bæta móttöku flóttafólks innan formlegrar þjónustu yfirvalda. Vaxandi fjöldi íbúa tekur þátt í að bjóða flóttafólk velkomið og aðstoða við að kynnast landi og þjóð, læra málið, afla sér menntunar, finna vinnu og tilheyra á ný - meðal annars með því að gerast sjálfboðaliðar í móttökuverkefnum Rauða krossins. Án þeirra væri hingaðkoman ansi mikið erfiðari.

Það er löngu sannað að verðmætin sem móttaka flóttafólks skilar eru langt umfram þann tímabundna stuðning sem nauðsynlegur er í byrjun. Flest koma með einhverja menntun að baki, sum með mikilsverða langskólamenntun, öll með dýrmæta reynslu og kunnáttu í tungumálum og svo framvegis, sem gagnast okkur í fjölmenningarsamfélagi nútímans, sem að mestu hefur sprottið upp vegna þarfa stærstu atvinnugreinanna, sem og í samfélagi þjóðanna.

En við getum gert enn betur. Við öll, hvort sem við erum nágrannar nýrra íbúa, vinnufélagar, starfsfólk þjónustustofnana, afgreiðslufólk í banka eða búð, eða hvað annað, getum reynt að setja okkur í fótspor þeirra sem koma ný inn í samfélagið og kunna ekki íslensku ennþá. Reynum að koma auga á þær hindranir sem til staðar eru. Kynnum okkur aðstæður þeirra sem hafa þurft að flýja, leyfum okkur að kynnast flóttafólki, leyfum þeim að kynnast okkur, bætum aðgengi að upplýsingum, fellum niður hindranir að námi og vinnu, aðstoðum þar sem við getum og verum almennileg.

Þema Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á þessum alþjóðadegi flóttafólks er „incalusion“ upp á ensku. Það eru enn ekki allir á eitt sáttir um þjált orð fyrir það á íslensku en við vitum merkingu þess: Tökum vel á móti fólki og gerum því kleift að verða hluti af samfélaginu, um leið stækkar samfélagið að verðmæti og gæðum.

Þetta er áskorun en saman sigrumst við á áskorunum!

Stöndum #meðflóttafólki
Together #WithRefugees