Almennar fréttir

Alþjóðadagur flóttafólks er í dag

20. júní 2023

20. júní er alþjóðadagur flóttafólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Fjöldi fólks á flótta á heimsvísu er nú í sögulegum hæðum og flóttafólk og aðrir farendur mæta vaxandi fordómum og jaðarsetningu víða um heim. En Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans sinnir öflugu og víðtæku starfi til að vernda líf og auka vernd og reisn þessa fólks.

Í dag, 20. júní, er alþjóðadagur flóttafólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Deginum er ætlað að heiðra flóttafólk um allan heim og fagna styrk og hugrekki þeirra sem hafa neyðst til að flýja heimalönd sín til að sleppa frá átökum eða ofsóknum. Dagurinn er líka tækifæri til að byggja upp samúð og skilning á vanda flóttafólks og til að gera sér grein fyrir bæði þrautseigju þess við að endurbyggja eigin líf sem og þeim fjölbreyttu framlögum sem flóttafólk færir samfélögum.

Í dag er fjöldi þeirra sem eru á flótta, hvort sem það er utan eða innan heimalandsins, í sögulegum hæðum af ýmsum ástæðum. Fólksflutningar hafa í mörgum tilvikum gert fólki kleift að lifa öruggara og betra lífi og leggja sitt af mörkum efnahagslega, félagslega og menningarlega, bæði í heimalöndum sínum og í nýjum löndum, en samt sem áður standa milljónir frammi fyrir óásættanlegri hættu. Fyrir aðeins fáeinum dögum létust til að mynda að minnsta kosti 78 farendur þegar skip þeirra sökk í Miðjarðarhafinu.

Farendur mæta líka miklum áskorunum þegar kemur að því að fá grundvallarþjónustu, þá skortir oft fullnægjandi vernd og þeir mæta andúð og útskúfun. Flóttafólk, fólk á vergangi og aðrir farendur mæta einnig vaxandi fordómum, útlendingaandúð og jaðarsetningu, meðal annars í gegnum löggjöf, stefnur og vinnubrögð sem miða að því að útiloka það og svipta það réttindum þegar það kemst á áfangastað.

Af mannúðarástæðum hefur Alþjóðasamband Rauða krossins þá skyldu að bregðast við ástandinu og gera það sem hægt er til að gera þessi ferðalög öruggari og virðulegri - til þess að bjarga mannslífum, draga úr hættu og veita aðgang að nauðsynlegri þjónustu.

  • 111 landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim vinna að því að veita fólki sem er á ferðinni, þar á meðal flóttafólki, von fjarri heimkynnum þeirra, hvar sem þau þurfa hjálp.
  • Þar sem Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn eru staðbundnir aðilar með fasta viðveru innan samfélaga eru sjálfboðaliðar okkar ekki einungis í bestri stöðu til að veita skammtímastuðning, heldur einnig til að hjálpa fólki við að koma sér fyrir á nýjum stöðum og heimilum.
  • Engin manneskja er ólögleg og engin manneskja ætti að mæta dauða, meiðslum eða illri meðferð á meðan hún leitar öryggis eða betra lífs í öðru landi eða samfélagi.
  • Fyrsti fjórðungur ársins 2023 hefur verið sá banvænasti á mest notuðu leiðinni til Evrópu gegnum Miðjarðarhafið síðan mælingar hófust, en vitað er til að 441 hafi látist. Þann 13. júní létust að minnsta kosti 78 manns og margra er saknað eftir að skip þeirra sökk á þessari leið, en margir þeirra sem voru um borð voru að flýja stríð og átök í löndum eins og Afganistan og Sýrlandi. Alþjóðasamband Rauða krossins hefur sett á fót þjónustustöð til að veita mannúðlega þjónustu um borð í skipinu Ocean Viking, sem rekið er af samtökunum SOS Mediterranée, til að bjarga lífum og tryggja að þeim sem er bjargað sé veitt mannúðleg þjónusta. Sendifulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi hafa meðal annars starfað á þessu skipi.
  • Hið flókna neyðarástand sem heltók Súdan í apríl 2023 hefur skapað nýja bylgju fólksflutninga í Afríku, en það er augljós munur á viðbrögðunum við þessari krísu samanborið við þann öfluga stuðning sem fólki sem var að flýja átök í Úkraínu var sýndur.
  • Fjöldi þeirra sem freistar þess að fara hina hættulegu leið milli Suður- og Norður-Ameríku hefur tvöfaldast á síðasta ári og er að nálgast 250 þúsund manns.
  • Alþjóðasamband Rauða krossins er að veita fólki von fjarri heimkynnum sínum með því að veita farendum þjónustu á þeim hættulegu leiðum sem þeir nota. Það er gert til að bjarga lífum og auka öryggi og reisn farenda, flóttafólks og annarra sem eru á vergangi.
  • Mörg þeirra sem fá stuðning Rauða krossins og Rauða hálfmánans á leið sinni enda með að gerast einn af þeim 16,5 milljón sjálfboðaliðum sem starfa fyrir félagið á hverjum degi.
  • Flóttafólk og fólk sem er á vergangi verður að fá að taka þátt í öllum hliðum samfélagsins og hafa tækifæri til að leiða umræður, hafa áhrif á stefnur og vinnubrögð og segja sínar sögur til að vera málsvari öruggari fólksflutninga.