Almennar fréttir

Ársskýrsla Rauða krossins 2020

09. júní 2021

Ársskýrsla Rauða krossins á Íslandi fyrir árið 2020 er komin út. Venju samkvæmt samanstendur skýrslan meðal annars af yfirliti yfir störf Rauða krossins á innlendum og erlendum vettvangi, lykiltölum frá rekstri félagsins og myndasyrpu. 

Ársskýrsla Rauða krossins á Íslandi fyrir árið 2020 er komin út. Venju samkvæmt samanstendur skýrslan meðal annars af yfirliti yfir störf Rauða krossins á innlendum og erlendum vettvangi, lykiltölum frá rekstri félagsins og myndasyrpu.

Í ávarpi sínu gerir Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi, óvenjulegt starfsár að umtalsefni sínu. Þar segir Sveinn meðal annars:

Árið 2020 mun seint renna okkur úr minni, því þá breyttist svo margt. Stjórnarfundir, aðalfundir og fjölskylduboð færðust úr mannheimum og yfir á netið. Börn máttu ekki mæta í skóla og margir unnu langtum meira að heiman en á hinum eiginlega vinnustað. Jaðarsettir og viðkvæmir hópar bjuggu við enn meiri einangrun en áður, fólk veiktist af veirunni og margir létust.

Þó að vel hafi gengið í baráttunni við veiruna hér á Íslandi þá er ekki svo alls staðar. Víða er ástandið enn slæmt og faraldurinn jafnvel enn í vexti, einkum í fátækari ríkjum þar sem staðan var hvað verst. Verkefni okkar, sendifulltrúa félagsins og alþjóðahreyfingar Rauða krossins hafa tekið breytingum vegna þessa og við munum áfram leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að tryggja megi eins farsælan endi og verða má fyrir allar þjóðir. Fyrr er baráttan ekki unnin.

Þó heimsfaraldur og náttúruöflin hafi sannarlega sett svip sinn á starfsemi Rauða krossins á árinu 2020 þá segir Sveinn að líklega hafi hlutverk og mikilvægi Rauða krossins sjaldan verið jafn skýrt og að undanförnu. Þessu sé almenningur líklega sammála því Mannvinum Rauða krossins hafi farið fjölgandi að undanförnu:

Starfsemi Rauða krossinn á Íslandi var sannarlega umfangsmikil, en um leið nokkuð óhefðbundin á árinu 2020 og þörfin fyrir félag sem okkar sannaði sig enn með skýrum hætti. Raunar virðist samfélagið allt sammála um þetta mikilvægi Rauða krossins enda hefur Mannvinum, hinum mánaðarlegu styrktaraðilum félagsins farið fjölgandi jafnt og þétt á undanförnum misserum. Það er alveg ljós að sjálfboðaliðar Rauða krossins, félagar og stuðningsaðilar eru hryggjarstykkið í öllum okkar verkefnum. Án þessara aðila væri starf félagsins ekki mögulegt.

Við hvetjum félaga í Rauða krossinum, Mannvini og aðra styrktaraðila, sjálfboðaliða, starfsfólk og önnur áhugasöm um starfsemi félagsins til að kynna sér skýrsluna og vonum að lesturinn verði fróðlegur en um leið ánægjulegur.

Lesa ársskýrslu Rauða krossins 2020