Almennar fréttir

Bókagjafir til skjólstæðinga Rauða krossins

13. desember 2018

Barnabókahöfundar gáfu flóttabörnum bækur og bókaforlagið Bjartur gaf gestum Vinjar tíu bækur

Í vikunni bárust skjólstæðingum Rauða krossins góðar bókagjafir í aðdraganda jólanna. 

Barnabókahöfundar gáfu flóttabörnum barnabækur á fundi sínum í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands. Bókunum var pakkað inn og munu starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá til þess að bækurnar komist í góðar hendur fyrir jólin. 

Einnig gaf bókaforlagið Bjartur Rauða krossinum í Reykjavík tíu bækur sem gefnar verða gestum Vinjar. Bækurnar munu koma að góðum notum þar sem fjölmargir gestir nýta sér  þjónustu Vinjar í kringum hátíðarnar. 

Rauði krossinn þakkar kærlega fyrir þessi framlög.