Almennar fréttir
Frumkvöðull innan raða Rauða krossins
19. janúar 2023
Margrét Gíslínudóttir, teymisstjóri gæðamála hjá Rauða krossinum á Íslandi, hefur verið valin í hóp fjörutíu framsýnustu tæknifrumkvöðla undir fertugu hjá hreyfingunni á þessu ári.

Margrét Gíslínudóttir hefur unnið að stafrænni innleiðingu hjá félaginu að undanförnu með frábærum árangri, en slík vinna er grundvallaratriði í nútímavæðingu starfshátta hjá fyrirtækjum og félögum.
Hópurinn var kynntur í gær og dómnefndin segir að einstaklingarnir sem urðu fyrir valinu hafi komið með ferskar hugmyndir og einstakar lausnir. Frumkvöðlarnir koma frá mörgum ólíkum landsfélögum Rauða krossins og hafa fundið upp á alls kyns frumlegum tæknilausnum á fjölbreyttum vandamálum.
Dómnefnd mun velja þá fimm einstaklinga sem þeim þykir skara mest fram úr og bjóða þeim á ráðstefnu sem heitir Connect Technology Conference og fer fram í Kigali í Rúanda 7. - 9. febrúar næstkomandi. Sá aðili sem fær flest áhorf á sína kynningu fær einnig boð á ráðstefnuna og því hvetjum við fólk til að kynna sér vinnu Margrétar með því að horfa á þetta stutta myndband:
Rauði krossinn á Íslandi er vitanlega afar stoltur af því að eiga fulltrúa í þessum hópi og við óskum henni góðs gengis!
Góð samvinna og breytingunum tekið vel
Margrét segir að vinnan við stafræna innleiðingu hafi farið fram síðasta eina og hálfa árið en að hún og hennar teymi séu ekki beint að gera neitt glænýtt eða finna upp byltingarkennda tækni.
„Nýsköpunin felst í því að nálgast stafræna innleiðingu heildrænt og hugsa um breytingarnar úr frá mörgum ólíkum kerfum og þörfum,“ segir hún. „Það sem er nýtt í þessu er að við erum að nota eitt kerfi og höfum miklu betri yfirsýn yfir allt sem félagið er að gera.“
Margrét þakkar tveimur þáttum fyrir þann góða árangur sem hefur náðst.
„Í fyrsta lagi hefði þetta aldrei gengið ef teymið hefði ekki náð svona rosalega vel saman,“ segir hún. „Það hefur líka skipt miklu að samstarfsfólk okkar hefur verið jákvætt gagnvart þessum breytingum og spennt fyrir því að sjá kerfin vinna fyrir sig.“
Margréti segir að sér finnst skrítið að hún ein sé tilnefnd, því þetta sé afrakstur af vinnu hjá mörgum. „En þetta er heiður fyrir félagið og það er að uppskera eins og það hefur sáð síðustu tvö árin,“ segir hún.
Stafræn þróun er komin til að vera
Margrét er spennt að sjá hverja dómnefnd velur og segir að samkeppnin sé hörð.
„Það er rosalega mikið af frábærum verkefnum þarna sem þjóna skjólstæðingum beint og vinna að bættri stöðu fólks,“ segir hún. „Mörg þeirra gætu nýst okkur í framtíðinni, sem er mjög spennandi.
Ég held líka að forsvarsfólk félagsins megi vera stolt af því að hafa lagt áherslu á stafræna innleiðingu hjá félaginu. Það er oft talað um að félagasamtök séu nokkrum árum á eftir samfélaginu í heild, en við erum búin að vera aðeins á undan,“ segir Margrét. „Þetta er eitthvað sem má aldrei missa sjónar af, það þarf stöðugt að horfa á framþróun og nýsköpun. Þetta er ekki átaksverkefni, stafræn þróun er komin til að vera.“
------
Nánari upplýsingar um þessa fjörutíu framsýnustu tæknifrumkvöðla undir fertugu hjá hreyfingunni má finna á www.solferinoacademy.com/t4u4/.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.

Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“