Almennar fréttir
Hættustig almannavarna á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu vegna jarðskjálftahrinu
24. febrúar 2021
Lýst hefur verið yfir hættustigi almannavarna vegna öflugrar jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir á Reykjanesi.
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórann á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands, lýsir yfir hættustigi almannavarna vegna öflugrar jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir á Reykjanesi.
Hættustig almannavarna er sett á til að samhæfa aðgerðir og verklag ýmissa verklagsaðila og stofnana og hefur ekki áhrif á almenning. Hættustig er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.
Skjálfti af stærð 5,7 mældist um 3,3 km SSV af Keili á Reykjanesi kl. 10:05. Upptök skjálftanna eru á um 20 km. kafla frá Grindavíkurvegi að Kleifarvatni. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt og hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofu Íslands numið alls 12 skjálfta yfir 4 að stærð frá því hrinan hófst. Síðasti skjálfti mældist 4,8 að stærð kl. 12:37. Skjálftarnir hafa fundist víða á Suðvesturhorninu og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð. Varað er við grjóthruni á Reykjanesskaga á meðan á hrinunni stendur. Unnið er að nánari yfirferð á skjálftavirkni. Athugið að skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar. Engin merki eru um gosóróa á svæðinu.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands.
Lögreglan á Suðurnesjum fer núna um svæðið til að kanna áhrif skjálftans. Þá hefur áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar flogið yfir Reykjanes til að kanna aðstæður. Grjót hefur hrunið úr fjöllum á Reykjanesi og hvítir gufustrókar á jarðhitasvæðum hafa sést á svæðinu.
Veðurstofa Íslands hefur hækkað litakóða fyrir flug á Reykjanesi yfir á gult og er það samkvæmt verklagsreglum.
Almannavarnadeild hvetur fólk á þekktum jarðskjálftasvæðum til kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á heimasíðu almannavarna: https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/varnir-gegn-jardskjalfta/
Þar er einnig að finna leiðbeiningar um viðbrögð eftir jarðskjálfta: https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/eftir-jardskjalfta/
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.