Almennar fréttir
Hættustig almannavarna á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu vegna jarðskjálftahrinu
24. febrúar 2021
Lýst hefur verið yfir hættustigi almannavarna vegna öflugrar jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir á Reykjanesi.
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórann á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands, lýsir yfir hættustigi almannavarna vegna öflugrar jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir á Reykjanesi.
Hættustig almannavarna er sett á til að samhæfa aðgerðir og verklag ýmissa verklagsaðila og stofnana og hefur ekki áhrif á almenning. Hættustig er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.
Skjálfti af stærð 5,7 mældist um 3,3 km SSV af Keili á Reykjanesi kl. 10:05. Upptök skjálftanna eru á um 20 km. kafla frá Grindavíkurvegi að Kleifarvatni. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt og hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofu Íslands numið alls 12 skjálfta yfir 4 að stærð frá því hrinan hófst. Síðasti skjálfti mældist 4,8 að stærð kl. 12:37. Skjálftarnir hafa fundist víða á Suðvesturhorninu og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð. Varað er við grjóthruni á Reykjanesskaga á meðan á hrinunni stendur. Unnið er að nánari yfirferð á skjálftavirkni. Athugið að skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar. Engin merki eru um gosóróa á svæðinu.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands.
Lögreglan á Suðurnesjum fer núna um svæðið til að kanna áhrif skjálftans. Þá hefur áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar flogið yfir Reykjanes til að kanna aðstæður. Grjót hefur hrunið úr fjöllum á Reykjanesi og hvítir gufustrókar á jarðhitasvæðum hafa sést á svæðinu.
Veðurstofa Íslands hefur hækkað litakóða fyrir flug á Reykjanesi yfir á gult og er það samkvæmt verklagsreglum.
Almannavarnadeild hvetur fólk á þekktum jarðskjálftasvæðum til kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á heimasíðu almannavarna: https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/varnir-gegn-jardskjalfta/
Þar er einnig að finna leiðbeiningar um viðbrögð eftir jarðskjálfta: https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/eftir-jardskjalfta/
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.

Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“