Almennar fréttir

Hátíð barnanna í stríðsátökum

06. desember 2018

Á meðan við höldum jól er fjöldi fólks á flótta víða um heim. Nýverið hóf Rauði krossinn á Íslandi neyðarsöfnun fyrir Jemen vegna skelfilegs ástands almennings þar í landi . Ein af aðalorsökum þess að fólk í Jemen er á flótta eru vopnuð átök andstæðra fylkinga í landinu. 

Börn á vergangi

Á meðan við höldum jól er fjöldi fólks á flótta víða um heim. Nýverið hóf Rauði krossinn á Íslandi neyðarsöfnun fyrir Jemen vegna skelfilegs ástands almennings þar í landi. Ein af aðalorsökum þess að fólk í Jemen er á flótta eru vopnuð átök andstæðra fylkinga í landinu. Aðstæður þessa fólks eru skelfilegar og í mörgum tilfellum hafa stríðandi fylkingar ráðist á almenna borgara og brotið þannig gegn alþjóðlegum mannúðarlögum.

Talið er að um tvær milljónir Jemena séu á vergangi og þurfa bráðnauðsynlega á aðstoð halda. Margir leita skjóls hjá kunningjum eða ættingjum en aðrir hafa reist sér skýli sem einfalt þak yfir höfuðið. Ljóst er að gríðarlegur skortur er á mat, hreinu vatni og nauðsynjavörum. Um 2,9 milljónir Jemena hafa nú þegar yfirgefið heimili sín og eru á flótta vegna átakanna í landinu. Milljónir íbúa Jemen fá eina máltíð á dag og vita ekki hvaðan eða hvenær næsta máltíð kemur.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að helmingur allra flóttamanna í heiminum séu börn. Af þessu hlutfalli er ljóst að gríðarlegur fjöldi barna er á vergangi í Jemen. Ef aðeins er litið til hafnarborgarinnar Hodeida þá er t.d. talið að um 150 þúsund börn séu föst í borginni vegna hundruða loftárása sem gerðar hafa verið á borgina undanfarnar vikur. Það er því ljóst að um gríðarlegan fjölda er að ræða sem er í mikilli neyð.

Myndbandið að ofan var framleitt af Alþjóðaráði Rauða krossins (ICRC) til að minna á hið mikilvæga starf sem Rauði krossinn um allan heim sinnir við að sameina fjölskyldur á átakasvæðum. Jólasveinninn í myndbandinu er mikilvæg áminning um að á stríðssvæðum er einfaldur hlutur eins og sameining fjölskyldu besta gjöf sem hægt er að óska sér.  

Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða kross hreyfingarinnar í Jemen um 2900 kr. með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900. Einnig má leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269-2649. Sú upphæð dugar til þess að þrjú börn í Jemen fái mat í einn mánuð.