Almennar fréttir

Hleypur Laugaveginn til styrktar Frú Ragnheiði

04. júní 2021

Hörður Jónsson, sjálfboðaliði Frú Ragnheiðar tekur þátt í Laugavegshlapinu sem er haldið 18. júlí næstkomandi. Hann hleypur til styrktar Frú Ragnheiðar og hóf söfnun nýverið.

Hörður Jónsson, sjálfboðaliði Frú Ragnheiðar, tekur þátt í Laugavegshlapinu sem er haldið 18. júlí næstkomandi. Hann hleypur til styrktar Frú Ragnheiðar og hóf nýverið söfnun á netinu. Laugavegshlaupið er 55 km utanvegahlaup en Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands.

Hörður hefur verið sjálfboðaliði frá árinu 2017 og því stendur Frú Ragnheiður honum nærri. “Árið 2017 var ég í námi við Frumgreinadeild HR og sótti þá fyrirlestur á vegum Rauða krossins. Eftir þann fyrirlestur ákvað ég að gerast sjálfboðaliði í Frú Ragnheiði. Sjálfur hafði ég verið án áfengis og vímuefna í tæp 4 ár og þessi málstaður stóð mér því mjög nærri. Samhliða áframhaldandi námi, sem var B.Sc. nám í sálfræði, sinnti ég sjálfboðaliðastarfi á vegum Frúarinar sem var mér afar kært. Lokaverkefni mitt í náminu var áfallarannsókn framkvæmd meðal skjólstæðinga Frú Ragnheiðar og er ég afar þakklátur öllum þeim skjólstæðingum sem tóku þátt.”

\"184032367_199093835366309_8273371875857661182_n\"

Hörður glímdi sjálfur við áskoranir í sínu lífi og var hlaup eitt af þeim verkfærum sem hjálpaði honum í batanum. “Nám í háskóla reynist einstaklingum mjög misjafnt. Hægt og rólega seig ég niður andlega og líkamlega í kjölfar álags í skóla og í persónulega lífinu. Í fyrrasumar, þegar náminu lauk, var þannig komið fyrir mér að ég var að fást við líkamlega verki í kjölfar brjóskloss, í mikilli yfirþyngd og með þunglyndi og kvíða á háu stigi. Sumarið reyndist mér gríðarlega erfitt auk þess sem ég fór í maníuástand vegna mikils álags sem var á mér á þeim tíma. Eftir tæp sjö og hálft ár án áfengis og vímuefna fór ég aftur að neyta áfengis en með hjálp góðra vina, fjölskyldu og fagaðila þá fóru góðir hlutir að gerast á ný. Eitt af því sem ég hóf að gera var að stunda hlaup. Hlaupin hafa reynst ein magnaðasta tegund hugleiðslu sem ég hef fundið og hafa gefið mér mikið, ekki síður andlega en líkamlega. Í byrjun ársins þá ákvað mágkona mín að skrá sig í Laugavegshlaupið svo ég ákvað að slá einnig til og taka þátt. Þegar það leið á árið þá fór sú hugmynd að fæðast hjá mér að vera með fjáröflun fyrir það magnaða verkefni sem Frú Ragnheiður er. Frúin hefur reynst skjólstæðingum og sjálfboðaliðum verkefnisins ómetanleg nálgun á málaflokk sem skiptir okkar samfélag svo miklu máli.

Það er hægt að fylgjast með undirbúningnum mínum fyrir hlaupið á instagram og svo vona ég auðvitað að sem flest sjái sér fært að styrkja Frúna!“

Um leið og við hjá Rauði krossinum þökkum Herði kærlega fyrir þetta hugulsama framtak og að fyrir að hafa staðið vaktina í Frúnni síðustu ár hvetjum við almenning til að leggja söfnuninni lið.

Gangi þér vel Hörður!

\"1349\"