Almennar fréttir

Hver verður Skyndihjálparmaður ársins 2020?

05. janúar 2021

Rauði krossinn á Íslandi leitar að Skyndihjálparmanni ársins 2020. Veist þú um einhvern?

Rauði krossinn á Íslandi leitar að Skyndihjálparmanni ársins 2020!

Veistu um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum bjargaði mannslífi á árinu 2020? Ef svo er sendu okkur ábendingu í gegnum vefinn skyndihjalp.is . Tilnefningar þurfa að berast Rauða krossinum eigi síðar en þann 19. janúar 2021.

TILNEFNA!

Nánar um valið

Á hverju ári velur Rauði krossinn Skyndihjálparmann ársins . Þá er einstaklingi sem hefur á liðnu ári veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn. Tilgangurinn með tilnefningunni er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda.

Eftirfarandi reglur gilda um tilnefningar

  • Skyndihjálparmaður ársins þarf að hafa bjargað mannslífi.
  • Skyndihjálparmaður ársins þarf að hafa sýnt eftirtektaverða kunnáttu og færni í almennri skyndihjálp.
  • Hjálpin sem veitt var verður að hafa leitt til betri líðan eða stöðugleika á ástandi hins slasaða eða sjúka frá þeim tíma sem slysið varð þar til fagfólk kom á vettvang.
  • Skyndihjálparmaður ársins má ekki vera menntaður hjúkrunarfræðingur, læknir, sjúkraflutn­ingamaður, bráðatæknir eða sjúkraliði.
  • Skyndihjálparmaður ársins má ekki hafa unnið afrekið í starfi sínu innan öryggis- og bráðaþjónustu, það á til dæmis við um björgunarsveitarfólk, lögregluþjóna, öryggis- og sundlaugaverði.

Dómnefnd um val á Skyndihjálparmanni ársins er skipuð fulltrúum frá: Rauða krossins, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Neyðarlínunni, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Almannavarna­deild ríkislögreglustjóra og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Hver aðili skipar einn fulltrúa nema Rauði krossinn sem skipar tvo.

Skyndihjálparmaður ársins hlýtur viðurkenningaskjal Rauða krossins, skyndihjálparbók og ávísun á skyndihjálparnámskeið allt að 16 klst.

Athugið að tilnefningar verða bornar undir vitni að atburðinum.