Almennar fréttir

Lætur drauminn rætast á Íslandi

05. október 2023

Noor Muayad Khalid Al Zamil kom til Íslands sem kvótaflóttamaður árið 2018 og fékk nýverið styrk til háskólanáms vegna framúrskarandi námsárangurs hennar í menntaskóla. Styrkurinn hjálpar henni að gera draum sinn um að verða læknir að veruleika.

Noor kom sem kvótaflóttamaður til Íslands fyrir fimm árum og er nú komin með styrk til náms við Háskóla Íslands.

Noor Muayad Khalid Al Zamil var nýlega valin í hóp 34 framúrskarandi námsmanna sem hlutu styrk til náms við Háskóla Íslands. Noor kom til Íslands sem kvótaflóttamaður fyrir aðeins fimm árum og síðan þá hefur hún lagt hart að sér í námi, lært tungumálið og komist inn í íslenskt samfélag. En húsnæðisvandinn í Reykjavík hefur gert henni lífið leitt, líkt og mörgum öðrum stúdentum.

Strembið fyrst en frábært núna

Noor segir að fyrstu árin á Íslandi hafi tekið á.

„Fyrstu tvö árin voru mjög erfið. Ég kom sem kvótaflóttamaður frá Jórdaníu með fjölskyldunni minni með hjálp Sameinuðu þjóðanna, en við komum upprunalega frá Írak. Við fluttum til Reyðarfjarðar og til að byrja með vissi ég lítið um Ísland,“ segir hún.

„Nú hef ég lært mikið um landið og líður mjög vel hérna. Það er allt mjög gott á Íslandi og fólkið hérna er mjög gott. Ég er ekki bara að segja þetta af því að ég bý á Íslandi,“ segir Noor og hlær. „Það eina sem er ekki gott við Ísland er veðrið, það er mjög kalt, en heima er 40 gráðu hiti, svo veðrið er ekkert sérlega gott þar heldur. Tungumálið er líka mjög erfitt og mjög ólíkt mínu, en það gengur vel að læra.

Til að byrja með átti ég ekki margar vinkonur en það hefur breyst, sérstaklega eftir að ég kom til Reykjavíkur til að byrja í námi. Nú á ég mjög margar vinkonur, bæði frá Íslandi, arabalöndunum og fleiri löndum,“ segir Noor. „Mér finnst líka mjög gaman í náminu og er mjög ánægð.“

Námið tók á en borgaði sig

Noor útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Egilsstöðum.

„Mér fannst menntaskólinn mjög góður og kennararnir og skólastjórinn líka. Ég líka fékk mjög mikinn stuðning, sérstaklega frá skólastjóranum,“ útskýrir hún. „Mér fannst þetta mjög gott nám.“

Aðalástæðan fyrir því að Noor náði svona góðum árangri í náminu er einfaldlega dugnaður.

„Ég var alltaf að læra og einbeita mér að því að útskrifast. Þetta tók langan tíma, ég var fimm ár í menntaskóla, sem var erfitt, en ég hugsaði bara um að halda áfram,“ segir hún. „Það tók á, það voru margir dagar þar sem mér leið ekki vel því áfangarnir voru mjög erfiðir og ég þurfti að gráta. Þá faldi ég mig inni í herberginu mínu svo mamma færi ekki að gráta líka. En þetta borgaði sig og nú er ég komin í HÍ.“

Fór að gráta í strætó

Noor segir að það hafi komið sér mjög á óvart að fá námsstyrkinn.

„Ég var í strætó á leiðinni í HÍ til að fá upplýsingar um skólann þegar ég fékk tölvupóstinn um að ég hefði fengið styrk,“ segir hún. „Og ég fór bara að gráta í strætó. Ég bjóst alls ekki við þessu, ég var meira að segja viss um að ég fengi þetta ekki.

Mig hefur dreymt um að verða læknir síðan ég var sjö ára því ég elska að hjálpa fólki. Ég ætla í inntökupróf fyrir læknisfræði á næsta ári, en ég gerði það ekki í ár því ég vissi ekki að ég þyrfti að sækja um fyrir 20. maí,“ segir Noor. „Ég ákvað að fara í hjúkrunarfræði í millitíðinni til að læra eitthvað sem tengist læknisfræði því ég vil alls ekki hætta í námi í heilt ár, þá er svo erfitt að byrja aftur.

Ef ég næ ekki inntökuprófinu á næsta ári held ég bara áfram í hjúkrunarfræði og sæki svo aftur um á næsta ári eftir það,“ segir Noor. „Ef þetta tekst ekki í fyrstu tilraun prófa ég bara aftur. Ég hugsa alltaf þannig.“

Erfitt að finna húsnæði

„Eina vandamálið er hvað það er erfitt að fá húsnæði í Reykjavík. Ég er númer 95 á biðlista fyrir Stúdentagarða og þó að ég hafi verið með herbergi í september og fái íbúð frá nóvember hefur mér ekki tekist að finna stað í október,“ segir Noor. „Pabbi vill að ég komi austur til fjölskyldunnar til að fá húsnæði og vinna þar, en ég vil ekki hætta í námi og HÍ býður ekki upp á fjarnám í hjúkrunarfræði. Ég gæti þurft að fara austur og taka hlé frá skólanum og þá myndi ég líka missa vinnuna hér í Reykjavík, en ég er að vinna á elliheimili núna.

Ég hélt að ég myndi fá íbúð frá HÍ, en núna er ég bara alltaf að leita. En það er dýrt að leigja í Reykjavík og ég er ekki með mikið á milli handanna, þó að ég hafi líka verið að vinna fyrir austan og safnaði eins og ég gat. En ég er að minnsta kosti með íbúð á Stúdentagörðunum á næsta ári,“ segir Noor. „Þetta er erfitt og leiðinlegt, en allt er gott að öðru leyti. Mér líður betur hér á Íslandi en mér leið í Írak og ég vil segja að ég er mjög þakklát Íslandi og Íslendingum.“

Fréttir af starfinu

Fréttayfirlit

Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli

Almennar fréttir 10. desember 2024

Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land. 

Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co

Almennar fréttir 03. desember 2024

Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi

Almennar fréttir 02. desember 2024

Stjórn Rauða krossins á Íslandi og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins síðastliðin 9 ár, hafa gert samkomulag um starfslok hennar. Viðræður um starfslokin áttu sér stað að frumkvæði Kristínar, sem hefur nú þegar látið af störfum. Arna Harðardóttir sem gengt hefur starfi fjármálastjóra mun taka við verkefnum framkvæmdastjóra samhliða sínum störfum þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Staðan verður auglýst innan skamms.