Almennar fréttir

Málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og aðkoma Rauða krossins

18. febrúar 2022

Rauði krossinn á Íslandi hefur sinnt talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd frá árinu 2014 samkvæmt samningum við stjórnvöld sem grundvallast hefur á lögbundnu stoðhlutverki félagsins við stjórnvöld. Forsaga þess að félagið tók verkefnið að sér var að sú talsmannaþjónusta sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fengu fyrir þann tíma þótti misjöfn að gæðum. Var Rauða krossinum ætlað að byggja upp faglega og vandaða talsmannaþjónustu sem myndi gagnast öllum umsækjendum á landinu.

Forsendur Rauða krossins fyrir samstarfinu voru þær að málsmeðferð yrði vandaðri en hún áður var og að málshraði og skilvirkni í kerfinu myndi aukast á sama tíma öllum hlutaðeigandi til hagsbóta. Þannig fengju umsækjendur um alþjóðlega vernd fyrr niðurstöðu hérlendra stjórnvalda og sömuleiðis yrði heildræn aðkoma Rauða krossins að málaflokknum til þess að draga úr öðrum kostnaði með því að mæta þörfum umsækjenda fyrr í ferlinu.

Frá því að Rauði krossinn tók við þessu hlutverki hefur félagið, starfsmenn þess og hundruðir sjálfboðaliða lagt sig fram við að bjóða upp á notendavæna og vandaða þjónustu. Málsmeðferð hefur styst á sama tíma og verndarhlutfall hefur aukist með vandaðri málsmeðferð. Rauði krossinn hefur ávallt átt og komið álitaefnum og tillögum að bættri málsmeðferð beint á framfæri við viðeigandi stjórnvöld.

Styrkur þess kerfis sem nú er við lýði er fyrst og fremst falinn í þeirri heildrænu nálgun sem núgildandi fyrirkomulag felur í sér, þ.e.a.s. að félagslegur stuðningur, leitarþjónusta og talsmannaþjónusta sé á einum stað. Þá fá þau sem hljóta dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða mannúðarsjónarmiða stuðning frá Rauða krossinum fyrstu mánuðina. Rauði krossinn og starfsfólk þess býr yfir viðamikilli þekkingu á málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, þar á meðal á málefnum fylgdarlausra barna, samkynhneigðs flóttafólks, fatlaðs fólks á flótta og fórnarlamba mansals. Innan félagsins er að sama skapi mikil þekking á sálfélagslegum stuðningi og áfallahjálp sem er órjúfanlegur hluti af þjónustu við fólk á flótta Þessi heildræna nálgun og víðtæka þekking hefur án vafa komið þeim þúsundum umsækjenda sem notið hafa þjónustu félagsins undanfarin tæp átta ár til góða.

Stjórnvöld hafa nú tekið ákvörðun um að aðkomu Rauða krossins að talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd muni ljúka í lok apríl 2022. Rauði krossinn gerir ekki athugasemd við að stjórnvöld endurskoði þjónustusamninga sína hverju sinni og færi verkefni á milli þjónustuaðila.  Í þessu máli hefur Rauði krossinn hins vegar ítrekað komið þeim áhyggjum sínum á framfæri  að sá tímarammi sem ráðuneytið ætlar tilfærslu verkefnisins frá Rauða krossinum til annars eða annarra þjónustuaðila sé of skammur. Með því sé  veruleg hætta á rofi á þjónustu við þennan berskjaldaða hóp sem og  að sú reynsla, þekking og verkferlar sem félagið hefur byggt upp undanfarin ár glatist að verulegu eða jafnvel öllu leyti.